Fara í innihald

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Þorsteinn Hymer

Umfjöllun um Vatnajökulsþjóðgarð Jökulsárgljúfrum. Hentar sem lesefni fyrir og eftir heimsókn í þjóðgarðinn og til stuðning við verkefnavinnu tengda þjóðgarðinum og náttúru hans.

Karl og kerling í Jökulsárgljúfrum

Saga þjóðgarðsins

[breyta]
Kirkjan

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður árið 1973. Flatarmál hans er um 120 km2. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 7. júní árið 2008 var þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum sameinaður hinum nýstofnaða þjóðgarði Vatnajökulsþjóðgarður. Áður fyrr var þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum innan sveitarfélagsins Kelduneshreppur en í dag er það sveitarfélag orðið hluti af nýju og mun stærra sveitarfélagi, Norðurþing. Jökulsá á Fjöllum hefur verið verkfæri náttúrunnar við mótun þess landslags sem gestir sjá þegar þjóðgarðurinn er heimsóttur. Hún hefur verið að störfum í þúsundir ára og verður það áfram um ókomna tíð fái hún frið fyrir mannana höndum. Hún hefur haft áhrif á dýralíf, gróðurfar og landslag svæðisins sem og mótað náttúruperlur eins og Ásbyrgi.


Jökulsá á Fjöllum

[breyta]

Jökulsá á fjöllum er jökulá og á upptök sín í Vatnajökli nánar tiltekið í Dyngjujökli. Í hana rennur einnig Kreppa sem á upptök sín í Brúarárjökli. Jökulsá á Fjöllum er næst lengsta á landsins, 206 km. Hallinn í farvegi hennar er ekki mikill því frá Vatnajökli og norður að Selfossi er hann ekki nema um 1 m fyrir hverja 200 m, sem áin rennur um. Hallinn eykst svo þegar kemur að gljúfrunum því frá Selfossi og þangað til hún sleppur út úr gljúfrunum í Öxarfirði er hallinn um 1 m á hverja 100 m. Hún er með stærsta vatnasviðið en til hennar streymir vatn af 7750 ferkílómetrum lands. Þar sem hún rennur um þurrasta hluta landsins nær hún aðeins að verða fjórða vatnsmesta á Íslands með meðalrennsli um 250 m3/sek. Einstæð fossaröð er í Jökulsá á Fjöllum en Selfoss, Dettifoss og Hafragilsfoss mynda einstæða röð fossa. Neðar í ánni er svo Réttarfoss. Jökulsá á Fjöllum rennur um Jökulsárgljúfur sem eru 25 km á lengd, um 500m breið og víða um 100m djúp. Talið er að gljúfrin hafi myndast í hamfarahlaupum, fornum flóðum í ánni. Þessi hlaup voru nokkur og það síðasta er talið hafa verið fyrir um 2000 árum. Fjölmörg flóð hafa komið í Jökulsá á sögulegum tíma og til að mynda flóð sem kom í ánna 1996 sem tók þjóðveginn í sundur rétt austan við Ásbyrgi.

Dýralíf

[breyta]

Fuglar

Fálki verpir í hömrum og björgum í þjóðgarðinum
Frá 1970 er fýll farinn að verpa í þjóðgarðinum

Innan þjóðgarðsins má finna fjölbreytt búsvæði fyrir fugla. Í hömrum og björgum gljúfranna verpa fálki, smyrill og hrafn. Á grýttari svæðum sem eru ofantil eða sunnarlega í þjóðgarðinum er helst að finna snjótittling steindepil en þeir kjósa sér helst grýtt búsvæði. Hrossagaukurinn heldur sig í kjarri og mólendi meðan að músarindillinn er algengur í urðum og gróðursælum hvömmum. Rjúpa, lóa og þúfutittlingur halda sig í lyngmó. Á votlendissvæðum finnum við stelk, jaðrakan, óðinshana, lóm, álft og ýmsar endur. Á Ástjörn sést reglulega til flórgoða en hann er mjög sjaldgæfur. Í Ásbyrgi og víðar í gljúfrunum hefur fýllinn tekið sér búsetu og hefur hann verið þar síðan um 1970.

Skordýr

Blómflugur eru algengar í Jökulsárgljúfrum. Í Vesturdal og Ásbyrgi er mikið af galdraflugum sem eru auðþekkjanlegar með sína rauðu hangandi fætur og hunangsflugum. Þar sem tær straumvötn renna getur verið mikið af bitmýi og líkt og á fleiri stöðum þá hafa geitungar tekið sér bólfestu í Jökulsárgljúfrum. Auk þessa er mikið af köngulóm og fleiri tegundum skordýra. En skordýralíf Jökulsárgljúfra og er það tiltölulega auðugt miðað við þennan landshluta.

Spendýr

Minkur settist að í kringum 1960 og heldur hann sig einkum á votlendissvæðum. Hagamýs eru algengar en tófur eru sjaldséðir en vitað er um nokkur greni.

Líf í vatni

Þegar líða tekur á sumarið gengur silungur í Jökulsá og í lækjum má víða finna stðabundin bleikjuafbrigði. Í Ástjörn er mikið af hornsílum en það er ein aðalfæða flórgoðans. Smákrabbar og vatnasniglar eru einnig í Ástjörn og fleiri tjörnum.

Gróðurfar

[breyta]
Gróður í Ásbyrgi

Fjölbreyttur gróður þrífst í skjóli hamra og kletta. Fundist hafa 230 tegundir háplantna á gljúfrasvæðinu. Mestu skógarnir eru nyrst í Jökulsárgljúfrum og þá helst í kringum Ásbyrgi og Áshöfða. Víða í gljúfrunum eru fallegir skógarlundir ein og t.d. í Vesturdal og Hólmatungum.

Birki er mjög áberandi en einnig gulvíðir og loðvíðir en þeir verða óvenju hávaxnir. Í Ásbyrgi var töluvert gróðursett af erlendum trjátegunum á árunum 1947 til 1977 en gróðursetning var mest á árunum 1947 til 1960. Gróðursett voru skógarfura, lerki, rauðgreni, hvítgreni, sitkagreni, blágreni og broddgreni nokkra þétta lundi sem eru dreifðir um Ásbyrgi. Inn á milli þessara lunda er birkið farið að skjóta sér upp. Hæst trjáa í Ásbyrgi verður lerkið en hæst er það um 12 - 14 metrar en það er líka eina barrtréð á Íslandi sem fellir barrið á haustin. Grenitrén ná ekki yfir 10 metra.

Mikill munur er á botngróðri eftir því hvernig skóglendi farið er um. Fjölbreyttast er það í birkiskóginum en þétt og hávaxið lerkið og grenitrén hleypa litlu sólarljósi niður á botninn og gróður þar er því mun fábreyttari. Þar sem birkiskógurinn er lávaxinn og gisinn eru lyng, einir og víðitegundir algengar. Blómgróður er ríkulegur með bláberjalyngi, blágresi, hrútaberjalyngi og brennisóley. Af sjaldgæfum tegundum má nefna ferlaufasmára, sigurkúf og fuglaertur sem finnast í grennd við Ásbyrgi.

Þegar líða tekur á sumarið er oft mikið af sveppum, einkum kúalubba en þar má einnig sjá berserkjasvepp auk annarra tegunda.

Jarðfræði

[breyta]
Stuðlaberg í Jökulsárgljúfrum

Jökulsárgljúfur eru í virka gosbeltinu og eru því ung á jarðsögulega vísu. Samspil Jökulsár á Fjöllum og eldvirkni hefur skapað mörg af þeim gersemum sem þjóðgarðurinn hefur að geyma. Dæmi um það eru Hljóðaklettar sem eru í Vesturdal.

Ef við hverfum um aftur til loka síðasta jökulskeiðs, þá hefur landslag verið töluvert frábrugðið því sem er í dag. Öxarfjörður var mun lengri og inn af honum dalur sem Jökulsá rann eftir. Í lok síðusti ísaldar voru uppi mikil eldgos á Reykjaheiði og flæddi það hraun austur og ofan í dalinn sem Jökulsá rann eftir. Talið er að þau gos hafi verið fleiri en eitt á skömmum tíma (100 - 500 árum). Það var svo fyrir um 8000 árum sem eldsumbrot áttu sér stað í gljúfrunum, þá gaus á 6 km langri bogadreginni sprungu sem nær frá Stöllum í suðri að Rauðhólum í norðri. Á svipuðum tíma hefur líklega gosið töluvert sunnar í gljúfrunum eða í gossprungu sem kennd er við Sveina og Randarhóla. Sú gossprunga liggur norðaustur yfir gljúfrin rétt norðan við Dettifoss. Í báðum þessum gosum hlóðust upp miklar klepra- og gjallkeilur. Bæði þessi hraunflóð stífluðu Jökulsá, en hún ruddist yfir þau og kældi. Hefur þetta sampil þegar áin flæmist yfir heitt hraunið verið mikið sjónarspil.

Ferð um Jökulsárgljúfur gefur okkur kost á að bera augum fjölda jarðmyndana. Meðal þess sem hægt er að sjá er:
Stuðlaberg
Gjall
Hraunlög
Öskulög
Klettaeyjar
Byrgi
Gígtappar

Fossar í Jökulsá á Fjöllum

[breyta]
Selfoss

Norðan Vatnajökuls rennur Jökulsá um aflíðandi hásléttu, skreytta stökum móbergsfjöllum. Við hálendisbrúnina lækkar landið straumurinn eykst og áin fellur í gljúfrunum 30 km löngum niður á flatlendið fyrir botni Öxarfjarðar þar sem hún dreifist um víðáttumikla sanda við sjóinn.
Frá hálendisbrúninni fellur Jökulsá í nokkrum fossum norður gljúfrin. Syðstur þeirra er Selfoss sem er allbreiður en mun lægri en sá næsti sem er Dettifoss. Hann er 44 metra hár og nálægt því að vera 100 metra breiður, hann er talin vera einn af orkumestu fossum Evrópu. Eilítið norðar er komið að Hafragilsfossi en til þess að komast nálægt honum þarf að ganga töluverðan spöl niður á Hafragilsundirlendið. Nyrstur fossa í Jökulsá á Fjöllum er Réttarfoss en aðgengi að honum er beggja vegna ár en ganga þarf þá frá Hólmatungum sé farið að vestan en frá Forvöðum sé farið að austan.
Eitt sinn var einn foss til viðbótar í Jökulsá, það var Vígabjargsfoss en um miðja síðustu öld breytti áin um farveg og hætti að renna um stallinn þar sem fossinn féll fram af og hefur þess í stað grafið sig niður í þröngan stokk sem heitir Katlar.

Ásbyrgi

[breyta]

Ásbyrgi er einn þekktasti viðkomustaður ferðamanna sem leggja leið sína um Vatnajökulsþjóðgarð Jökulsárgljúfrum og Norðurland.
En hvernig myndaðist Ásbyrgi?
Fjölmargar hugmyndir hafa verið á lofti um myndun þess, sagan segir að eitt sinn þegar Óðinn var á ferð um himinhvolfin á áttfætta hestinum sínum honum Sleipni og að þarna hafi hann óvart stigið niður fæti og myndað hið hóflaga Ásbyrgi.
Í dag er talið að Ásbyrgi hafi myndast í gífurlegum hamfarahlaupum fyrir um 2200 - 4500 árum. Hlaup þessi áttu upptök sín undir jökli. Hlaupfarvegurinn er svipaður og núverandi farvegur Jökulsár á Fjöllum. Ummerki þessara hlaupa má meðal annars sjá uppi á barmi Ásbyrgis.

Krossapróf

[breyta]

1 Hvaða ár var þjóðgarðurinn stofnaður?

1937
1973
1963
1970

2 Hvað heitir áin sem gróf út Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi?

Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Dal
Jökulsá á Brú
Kreppa

3 Jökulsá á Fjöllum er ein af lengri ám landsins hvað er hún löng?

602 km
300 km
206 km
2006 km


Heimildaskrá

[breyta]

Theódór Gunnlaugsson 1975. Jökulsárgljúfur Íslenzkur undraheimur.Bókaforlag Odds Björnssonar Akureyri.
Umhverfisstofnun .Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Gutenberg
Sigurvin Elíasson 1992. Jarðsaga Jökulsárgljúfra. Náttúruverndarráð Reykjavík


Ítarefni

[breyta]
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: