Þingvellir

Úr Wikibókunum
Þingvellir

Þingvellir eru flatir, grasi grónir vellir norðan við Þingvallavatn á bökkum Öxarár, sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn, sem er stærsta stöðuvatn á Íslandi. Þjóðgarður var stofnaður árið 1928 og nær hann yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Í Öxará er Öxarárfoss, þar sem áin steypist ofan í Almannagjá. Rennur áin síðan eftir gjánni og svo út úr henni og niður á vellina. Almannagjá er sprunga við vestanverða sigdældina á milli úthafsflekanna tveggja sem Ísland liggur á.


Sagan[breyta]

Öxaráfoss

Íslenska þjóðin og Þingvellir hafa átt samleið í yfir 1000 ár. Landnámsmenn fóru að huga að stofnun þings laust upp úr 900 og varð úr að Alþingi var stofnað um 930. Höfðingjar Íslands sendu sendiboða til Noregs, Úlfljót til að kynna sér lög sem mættu hafa að fyrirmynd í hinu nýja ríki. Hann sneri til baka með ný lög í farteskinu sem kölluð eru Úlfljótslög og eru það fyrstu lög Íslands. Grímur geitskör, fósturbróðir Úlfljóts ferðaðist um landið til að afla stuðnings við stofnun hins nýja þings, sem og að finna hentugan þingstað. Það varð úr að þingið yrði stofnað og skildu það koma saman í Bláskógum, sumarið 930. Þá varð nafninu breytt í Þingvellir. Ingólfur Arnarson hafði þá þegar stofnað þing á Kjalarnesi og höfðu niðjar hans mikil áhrif og er talað að það hafi jafnvel ráðið staðarvali Alþingis.

Þingvellir var vel í sveit sett gagnvart góðum samgöngum og lágu allar leiðir þangað. Þar voru einnig góðir hagar fyrir hossin, nægt vatn fyrir menn og skepnur og eldiviður. Staðurinn hentaði vel fyrir þinhald þar sem að voru miklir sléttir vellir og hallandi landslag sem minnir á samkomuhús nútímans með góðum hljómburð.

Lögberg[breyta]

Lögberg var mikilvægasti staður þinghaldsins. Þar sat lögsögumaður sem að staðfesti lögin sem staðfest höfðu verið. Hann þurfti að vera vel að Guði gerður og hafa afbragðs minni þar sem honum var fólgið að muna öll lögin rétt. Lögsögumaðurinn var fyrsti lögmaður Íslands. Hann var kosinn til þriggja ára af þinginu og var eini starfsmaður þingsins sem fékk laun fyrir vinnu sína. Hann var valdamesti maður landsins en á milli þinga hlaut hann aðeins virðingar fyrir sitt mikilvæga hlutverk.

Lögberg

Málfrelsi var í hávegum haft á Lögbergi og máttu allir leggja mál í belg og flytja ræður. Lögberg var einnig allsherjar samkvunda þar sem að fréttir voru sagðar af mönnum og málleysingjum.

Þingsetning og þingslit fóru fram á Lögbergi og þar voru allir úrskurðir Lögréttu (þingsins) tilkynntir. Tímatal landsins rétt, stefnur birtar og önnur tíðindi tilkynnt er vörðuð alla þjóðina. Ein af stærstu atburðum Íslandssögunar gerðust á Lögbergi þegar kristnitakan var lögfest. Í Brennu-Njálssögu er þeim atburði lýst vel:

"Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál."

Sjálfstæði Íslands[breyta]

Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld urðu Þingvellir að miklu sameiningartákni. Þinghald til forna var fólki hugleikið og kváðu skáld um fornhetjur og vöktu til lífsins í hugum fólks drauminn um Alþingi. Þetta varð til þess að umræða um staðsetningu Alþingis fór á flug. Ekki voru allir á eitt sáttir hvar Alþingi skildi staðsett en Þingvellir komu sterkir inn í umræðuna.

Kristján 8. Danakonungur gaf út konungsúrskurð um stofnun þings á Íslandi sem skyldi heita Alþingi og kæmi það fyrst saman 1. júlí 1845 og var það staðsett í Reykjavík. Árið 1848 var þó þingfundur haldinn á Þingvöllum þar sem sett var saman bænaskrá til konungsins þar sem beðið var um veitingu þjóðþings með sömu réttindi og Danir hefðu.

Þingið kom saman á Þingvöllum, óreglulega, allt til ársins 1907. Vegna þessa funda sem og þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem hafði orðið til urðu Þingvellir enn á ný helsti samkomustaður íslensku þjóðarinnar. Enn þann dag í dag er virðing fyrir Þingvöllum í hávegum höfð og kemur þjóðin þar saman til að fagna saman stærstu atburðum Íslandssögunnar.

Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum þann 17. júní 1944 og fyrsti forseti Íslands var Sveinn Björnsson. Ein af fyrstu lögum Alþingis sem sett voru þennan dag voru lög um gerð og notkun þjóðfána Íslandsins.

Þjóðgarðurinn[breyta]

Almannagjá
Fólk á hestbaki niður Almannagjá

Bandaríkjamenn eru sporgöngumenn annarra þjóða í að friða ýmis náttúruundur. Þeir byrjuðu á þessari stefnu sinni um 1850. Þessar hugmyndir þeirra bárust víða um heim, meðal annars til Íslands, upp úr árinu 1900. Árið 1907 skrifaði Matthías Þórðarson grein í tímaritinu Skírni sem bar heitið "Verndun fagurra staða og merkra nátturumenja." Hann tiltók sérstaklega Almannagjá og svæði umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem þyrfti að friða á Íslandi. Hann tók þó jafnframt fram að búið væri að skemma Almannagjá með akvegi sem var þá búið að leggja. Árið 1913 birtist önnur grein eftir Guðmund Davíðsson. Sú grein átti eftir að hreyfa við umræðunni um stofnun þjóðgarðs á Þingvöllum. Þessi grein hér "Þingvellir við Öxará" og birtist í Eimreiðinni. Guðmundur sparaði ekki orðin og lýsti hann slæmri umgengni og virðingarleysi þjóðarinnar við þennan sögulega stað landsins. Guðmundur skrifaði meðal annars:

"Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga"

Hann nefndi einnig dæmi um þjóðgarði í Bandaríkjunum og hvatti þjóðina til þess að fara sömu leið.

Íslenski fáninn

Um 1930 urðu þau tímamót í sögu þjóðgarða á Íslandi og náttúruverndar að þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður og var hann jafnframt fyrsti Þjóðgarður landsins.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum skipar stóran sess í þjóðarvitund Íslendinga og hafa þar í gegnum árin verið haldnar þjóðarhátíðir, t.d. þegar minnst var 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi.

Fjölmargir ferðamenn sækja Þingvelli heim jafnt innlendir sem erlendir. Þjóðgarðurinn býður upp á margt. Þar eru hinar ýmsu gönguleiðir og má segja að að hápunkturinn sé að ganga niður Almannagjá og líta augum Öxaráfoss. Ennfremur hefur köfun í Silfru notið sívaxandi vinsælda á undanförnum árum.

Heimsminjaskrá[breyta]

Þann 2. júli árið 2004 í Suzhou í Kína voru Þingvellir samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofununar Sameinuðu þjóðanna á fundi heimsminjanefndarinnar. Þar með eru Þingvellir orðnir einn af þeim rúmlega 1000 staða í heiminum sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina.

Spurningar[breyta]

  1. Hvenær var Lýðveldið Ísland stofnað?
  2. Hver var fyrsti forseti lýðveldisins?
  3. Um hvað voru fyrstu lög hins nýstofnaða lýðveldis?

Krossapróf[breyta]

1 Um hvaða leiti var Alþingi stofnað?

Um 840
Um 930
Um 970
Um 1130

2 Hvert var fyrra nafn Þingvalla?

Bláskógar
Akurvellir
Rauðamýri
Húsafell

3 Hver var mikilvægasti staður þinghaldsins?

Silfra
Þingvallakirkja
Sjoppan á Þingvöllum
Lögberg

4 Hvenær var Þjóðgarðurinn á Þingvöllum stofnaður?

1887
1910
1930
1974

5 Hver var einn af stærstu atburðum Íslandssögunnar sem gerðust á Þingvöllum?

Ísland gerðist meðlimur í NATO
Alþjóðaskátamótið var haldið 1958
Kristnitakan
Kjarval málaði myndir


Heimildir og ítarefni[breyta]