Fara í innihald

Þarfirnar, lífsgild og sáttmálar um samskipti.

Úr Wikibókunum

Elín Yngvadóttir 2021.

Þarfirnar, lífsgildi og sáttmálar um samskipti.

Börn að dansa í hring, þau haldast í hendur og virðast glöð.
Börn að leika sér

Samkvæmt hugmyndafræði Diane Gossen varðandi Uppbygging eða Restitution er allt sem við gerum drifið áfram af þörfum okkar. Þarfirnar flokkar hún í fimm undirflokka. Fyrsta skal telja þörfina fyrir öryggi, þar undir flokkast allar grunnþarfir okkar. Þarna birtast þarfir okkar fyrir fæðu, húsaskjól, heilsu, hreyfingu og að fjölga okkur svo eitthvað sé nefnt. Þörfin fyrir öryggi er ekki æðri hinum þörfunum en í eðli sínu skyggir sú þörf á allar hinar eða ýtir þeim til hliðar sé öryggi okkar ógnað á einhvern hátt. Hinar fjórar þarfir er svo þörfin fyrir Ást og umhyggju (e. Love and belonging), þörfin fyrir áhrif (e. Power), þörfin fyrir gleði (e. Fun) og loks þörfin fyrir frelsi (e. Freedom). Öll nærumst við á þessum þörfum og þær hvetja okkur áfram við leik og dagleg störf. Öll höfum við allar þarfirnar en þær eru afar misgildar í lífi hver og eins okkar. Við getum fengið þörfum okkar uppfyllt á jákvæðan og neikvæðan hátt. Þannig getur þörfin fyrir ást og umhyggju birt í vinsældarerjum milli vina eða gleðin með því að fólk upphefji sig á kostnað annarra með niðrandi bröndurum eða kaldhæðni. Þörfinni fyrir frelsi er mætt á jákvæðan hátt með því að hafa val og sjá allar hliðarnar á teningnum og þegar við náum markmiðum okkar blómstrar þörfin fyrir áhrif.

Sáttmálar

Unglingar setja fætur sína saman og mynda hring og sýna einingu.
Sameinumst um lífsgildi

Það er mikilvægt að við kynnum þörfum okkar, gerum okkur grein fyrir því hvernig við uppfyllum þær á jákvæðan hátt fyrir okkur og þá sem eru samferða okkur í samfélagi. Þegar við áttum okkur á hvernig þarfir okkar birtast og hvað þær eru mikill partur af okkur áttum við okkur á mikilvægi þess að aðrir taki tillit til þarfa okkar og um leið mikilvægi þess að við tökum tillit til þarfa annarra í kringum okkur. Þannig gefur aukin skilningu og vitneskja okkar á þörfum okkar, okkur aukið tækifæri til þess að ræða saman um draumaveröld okkar og hvernig við og samferða fólk okkar getum gert með okkur sáttmála um samskipti, hegðun og framkomu sem einkennist af umhyggju. Í gegnum daginn ættum við öll að gefa okkur tíma til að hugsa um það sem gefur okkur lífsfyllingu og veitir okkur ánægju. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvað það er sem veitir okkur og öðrum ánægju. Við eigum að vinna að því meðvitað að gera meira og meira af því, fyrir okkur sjálf og félaga okkar líka. Á sama hátt er mikilvægt að við áttum okkur á því að þegar við erum orkulaus. Hvað veldur óánægð og gerir okkur ómöguleg, finna út hvað það er í hegðun okkar, háttum og umhverfi sem dregur úr okkur alla orku og veldur leiða í þeim tilgangi að losa okkur undan því og gera það meðvitað. Við verðum að átta okkur á því að við höfum val. Við höfum val um hegðun. Það eru þarfirnar sem gefa okkur kraft og fylla okkur gleði. Ef við erum ekki að sinna þeim þá líður okkur ekki vel. Eins ef við erum farin að sinna þörfunum á neikvæðan hátt þá verðum við líka að öðlast þroska til að meta það og átta okkur á því hvernig við getum áfram uppfyllt þarfirnar okkar en gert það á jákvæðan hátt. Þegar við gerum mistök og við áttum okkur á því eða okkur er bent á það þá er mikilvægt að við látum af þeirri hegðun en hugsum í framhaldinu út í hvað við getum gert í staðinn. Alveg eins og þegar við leiðbeinum börnunum okkar og kennum. Þá er ekki nóg að vera með boð og bönn. Þau eru drifin áfram af þörfunum og við verðum að beina sjónum þeirra að öðrum sem þau geti gert til að fá sömu útrás og hvatti þau upphaflega af stað. Annars hættir þeim til að taka aftur upp sömu eða svipaða hegðun því þau eru áfram drifin af þörfunum. Best er ef þessi vinna getur fari fram án þess að börnin okkar þurfi að misstíga sig eða fara illilega út af brautinni og fái þannig uppbyggingu fyrir fram í stað viðreisnar eftir á. Bæði eru þetta orð sem nota má yfir enska orðið Restitution sem hugmyndafræðin sér hér er rætt um, byggist á. Orkan okkar á að fara í að leiðbeina og kenna í stað þetta að setja fram boð og bönn þar sem við viljum hafa börnin okkar eins og strengjabrúður sem fá verðlaun fyrir að gera það sem við viljum og refsingu fyrir það sem við viljum ekki að þau geri. Því þegar okkar nýtur ekki við hafa þau ekki þróað með sér mikla skoðun á því hvernig hegðun eða framkomu þau vilji sýna. Það geta þau gert ef þau hafa fengið tækifræi til að kynnast þörfum sínum. Þá vita þau í hvernig umhverfi þeim liður vel og hafa tækifæri til að nýta sér það val sem við höfum öll um hegðun. Vinna eftir árekstra eða hnökra sem upp kunna að koma í samskiptum verða einnig einfaldari ef grunnvinnan við þarfirnar og draumaheiminn okkar hefur tekist vel. Þá er hægt að vinna með það hvaða hegðun það er sem þarf að breyta þannig að umhverfi okkar verði aftur vinsamlegt. Það er því mikilvæg að allir sem deila samneyti hafi fengið tækifæri til að setja sér sameiginleg lífsgildi t.d. með bekkjarsáttmála, starfsmannasáttmála eða jafnvel sáttmála um sóttvarnir. Þá þarf enginn að lifa í skömm, ótta við ásakanir eða eiga á hættu að misstíga sig gagnvart öðrum á einhvern óútskýrðan hátt. Heldur er alltaf hægt að ræða um æskilega hegðun, hegðun sem allir hlut að eigandi geta sætt sig við og liðið vel með.


Lífsgildi

Sjáum aftan á vini sem halda hver utan um annan og horfa út á haf
Umhyggjusamt samfélag

Á bak við viðmið eða samskiptareglu ættu að vera lífsgildi. Ef við þekkjum lífsgildi á bak við reglur og þær samræmast gildum okkar þá er mun líklegra að við förum eftir þeim. Við þurfum að sjá tilgang með reglunum sem er verið að setja annars förum við líklega ekki eftir þeim a.m.k. ekki þegar enginn er að fylgjast með okkur. Flestir ef ekki allir sem hafa bílpróf hafa líklega einhvern tímann á lífsleiðinni ekið yfir löglegum hámarkshraða og meira að segja gert það viljandi. Því þeir sjá ekki alveg tilganginn með því að aka aldrei aðeins hraðar. En sama fólk er ekki að keyra á 130 eða 150 km/klst. hraða því það er orðið afar hættulegt og ógnar öryggi okkar. Fólk fer heldur ekki viljandi yfir á rauðu umferðarljósi. Við þekkjum hvað það getur verið hættulegt. Þannig förum við oftar eða betur eftir þeim reglum sem við sjáum tilgang með að fara eftir. Alveg sama gegnir um framkomu okkar og hegðun gagnvart öðrum ef við áttum okkur á mikilvægi þess að koma vel fram hvert við annað, sýna virðingu og tala fallega hvert við annað. Með því að kynnast þörfum okkar, kenna börnum okkar og nemendum okkar um sínar þarfir og skapa aðstæður til þess að ræða um lífsgildi okkar og gera með okkur sáttmála byggjum við upp umhyggjusamt samfélag.

Uppbygging sjálfsaga - Uppeldi til ábyrgðar

Á íslandi er starfandi félag áhugafólks um hugmyndafærði uppbyggingar (e. Restitution). Á heimasíðu félagsins er hægt að sækja meira af áhugaverðum fróðleik.


Spurning 1 - 10

[breyta]

1 Hvernig reglum er líklegast að fólk fari eftir?

Reglum sem skólastjórar setja
Reglur sem byggja á lifsgildum viðkomandi
Reglum sem valdar eru af handahófi
Reglum með sterkum viðurlögum

2 Hvað er hægt að byggja upp með því að þekkja þarfir sínar og annarra og setja saman sáttmála um samskipti?

Gleði og frelsi
Vinahópa / klíkur
Lærdómssamfélag
Umhyggjusamt samfélag

3 Hvað heitir hugmyndasmiður hugmyndafræði um uppbyggingu eða Restitution?

Diane Gossen
William Glasser
Judy Anderson
Cindy Brown

4 Hvaða þörf getur skyggt á allar hinar þarfirnar sé öryggi okkar ógnað?

Þörfin fyrir áhrif (Power)
Þörfin fyrir Ást og umhyggju
Þörfin fyrir frelsi eða gleði
Þörfin fyrir öryggi

5 Hvað drífur okkur áfram?

Ytri styrking
Áreiti í umhverfi okkar
Við erum drifin áfram af þörfunum
Tilfinningar, eðlishvöt og næring

6 Hvers vegna er mikilvægt að stöldrum við og hugsum um hvernig okkur líður?

Til þess að geta farið glöð að sofa
Til þess að geta oftar og oftar uppfyllt þarfirnar okkar á jákvæðan hátt
Til þess að geta hefnt okkar á þeim sem eiga það skilið
Til þess að geta leiðbeint og kennt öðrum

7 Hverjum stjórnum við?

Þeim sem við kennum
Aðeins okkur sjálfum
Þeim sem eiga að fara eftir okkar reglum
Öllum sem vilja verðlaun, annars fá þeir refsingu

8 Hvað ætti að standa í sáttmála um samskipti?

Sáttmáli er lýsing á því hvernig þeir sem hann eiga, vilja koma fram hver við annan
Sáttmáli er mælitæki fyrir framkomu
Reglur um hvað þú átt að gera til að ná árangri og verða betri en aðrir
Reglur og viðurlög við þeim

9 Hvað get ég gert ef ég hef gert mistök?

Skammast mín dugleg og tekið út mína refsingu
Gert þér plan um aðra og jákæðari hegðun ef/þegar ég lendi í sömu eða svipuðum aðstæðum aftur
Passa að segja engum frá
Finna þann sem hægt er að kenna um það sem ég gerði

10 Hvers vegna er mikilvægt að skilja að við höfum val um hegðun?

Til þess að geta tekið meðvitaða ákvörðun um að vera besta útgáfan af sjálfum mér
Til þess að sýna framkomu sem aðrir vilja sjá hjá mér, þegar mér hentar
Til þess að gera alltaf það sem mér sýnist
Til þess að hegðun mín trufli örugglega ekki annað fólk