Íslenskir jöklar

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Dagný Birnisdóttir

Markmiðið með þessu námsefni er að nemendur kynnist 5 stærstu jöklum Íslands. Efnið er einkum ætlað nemendum í 4.-6. bekk grunnskólans. Efnið tengist námsgreininni náttúrufræði en einnig t.d. samfélagfræði, íslensku og stærðfræði.

Séð í Snæfellsjökul frá Breiðafirði

Inngangur[breyta]

Við Íslendingar eigum erfitt með að ímynda okkur landið okkar án jökla. Jöklar þekja um 10% af þurrlendi Íslands. Þeir myndast þannig að meiri snjór fellur en nær að bráðna yfir sumartímann og smám saman myndast massi af ís. Frumskilyrði þess að geta kallast jökull er að hann hreyfist undan eigin þunga. Þetta getur gerst til dæmis þannig að jökull skríði yfir undirlag sitt og sígi fram fyrir sig líkt og deig.Jöklar eru flokkaðir á ýmsan hátt, til dæmis eftir útliti eða hitadreifingu. Ef farið er eftir hitadreifingu eru flokkarnir tveir; þíðjöklar þar sem hiti í jöklunum er um 0 gráður og gaddjöklar þar sem hiti í jöklunum er fyrir neðan 0 gráður. Íslenskir jöklar eru þíðjöklar. Vatn, t.d. rigningarvatn getur runnið í gegnum þíðjökul án þess að frjósa, síðan verður þetta vatn að jökulám. Stærð jökla getur tekið þó nokkrum breytingum eftir veðurfari. Jöklar voru til dæmis frekar litir hér á landi þegar landnámsmenn komu en stækkuðu þegar kólna fór í veðri á miðöldum. Núna virðast þeir aftur vera að hopa vegna hlýnandi veðurfars.Stærstu jöklar Íslands eru sunnanlands. Ástæða þess er sú að þar er úrkoma meiri en í öðrum landshlutum. Fimm stærstu jöklar Íslands eru, taldir eftir stærð, Vatnajökull, Langjökull, Hofsjökull,Mýrdalsjökull og Drangajökull. Aðrir þekktir jöklar eru til dæmis Eyjafjallajökull, Eiríksjökull og Snæfellsjökull.

Gervihnattarmynd af Íslandi

Vatnajökull[breyta]

Vatnajökull er stærsti íslenski jökullinn. Hann þekur um 8% af Íslandi. Hann er 8.100 ferkílómetrar að flatarmáli og er að meðaltali um 400-500 metra þykkur en þar sem hann er þykkastur er hann um 1000 metra þykkur. Eldgos eru tíð undir jöklinum og þar er einnig öflugt jarðhitasvæði. Þetta veldur því að undan jöklinum koma jökulhlaup sem mótað hafa landslagið umhverfis jökulinn. Jökulhlaup eru sambland af vatni, ís, gjósku og grjóti. Við suðurjaðar Vatnajökuls rís hæsta eldfjall Íslands, Öræfajökull. Á Öræfajökli er hæsti tindur landsins, Hvannadalshnúkur, sem lengi var talinn 2.119 metra hár en reyndist við síðustu mælingu 2.109 metra hár. Vorið 1362 hófst gos í Öræfajökli. Gosið er mesta gjóskugos í Evrópu síðan eldfjallið Vesúvíus á Ítalíu lagði borgina Pompeii í auð árið 79 e. Krist. Ár sem flytja vatn frá Vatnajökli eru Jökulsá á Dal, Jökulsá á Fjöllum,Lagarfljót, Skjálfandafljót og Þjórsá. Vatnajökull er sá jökull Íslands sem best er rannsakaður. Rannsóknir á jöklinum hófust fyrir alvöru árið 1934 þegar gaus í Grímsvötnum en við gosið jókst áhugi manna á jöklinum. Frá miðjum 9. áratug síðustu aldar hefur Vatnajökull rýrnað, vegna hlýnandi veðurfars, um 1/2 - 1 metra á ári. Það sama má segja um Langjökul og Hofsjökul en fylgst er nákvæmlega með stærð þessara jökla.

Langjökull[breyta]

Langjökull

Langjökull er annar stærsti jökull Íslands.Hann er 953 ferkílómetrar að flatarmáli. Stærsti hluti jökulsins er í 1200-1300 metra hæð yfir sjávarmáli. Talið er að jökullinn sé um 700 metra þykkur. Margir skriðjöklar ganga út frá Langjökli og umhverfis hans eru einnig smájöklarnir Eiríksjökull, Þórisjökull og Hrútafell. Austan við Langjökul liggur fjallvegurinn Kjölur sem tengir saman Norður- og Suðurland. Langjökull er vinsæll ferðamannastaður því hann frekar auðveldur yfirferðar þó svo að á honum séu sprungsvæði eins og á öðrum jöklum.


Hofsjökull[breyta]

Hofsjökull er kenndur við bæinn Hof í Vesturdal í Skagafirði. Jökullinn er um 925 ferkílómetrar að flatarmáli og 1.765 metra hár þar sem hann er hæstur. Jökullinn er vestan við Sprengisand og gróðursvæðið milli jökulsins og Sprengisands kallast Þjórsárver. Í Þjórsárverum eru stærstu varpstöðvar heiðargæsa í heiminum. Talið er að 1/3 heiðargæsa heimsins verpi þar. Jökullinn hvílir á stóru eldfjalli og margir skriðjöklar ganga niður frá honum. Jökullinn er frekar brattur og þurfa menn að gæta sín vel á sprungum. Mikið vatn kemur frá Hofsjökli og frá honum renna jökulárnar Blanda, Jökulfall, Jökulsá eystri, Jökulsá vestari og Þjórsá. Starfsemi Blönduvirkjunar, Sultartangavirkjunar og Búrfellsvirkjunar byggist á vatni sem kemur frá jöklinum. Við suðausturhorn jökulsins eru fjöllin Arnarfell hið mikla og Arnarfell hið litla. Áður fyrr var Hofsjökull oft kallaður Arnarfellsjökull eftir Arnarfelli hinu mikla. Suðurbrekka þess fjalls er ótrúlega gróin miðað við hve hátt hún stendur yfir sjó og hafa fundist 97 tegundir blómplantna á henni. Ekki svo langt frá Arnarfellunum eru rústir af kofa þar sem síðustu útilegumenn Íslands höfðust við í fjóra daga haustið 1848. Þetta voru tveir menn sem flúið höfðu á fjöll til að komast hjá refsingu vegna þjófnaðar.

Séð til Hofsjökuls

Mýrdalsjökull[breyta]

Mýrdalsjökull er syðsti jökull Íslands og sá fjórði stærsti. Hann er tæplega 600 ferkílómetrar að flatarmáli og um 1480 metrar þar sem hann er hæstur. Meðalþykkt hans er um 230 metrar en þar sem hann er þykkastur er þykktin um 740 metrar. Í jöklinum er ein virkasta eldstöð landsins, Katla. Talið er að Katla hafi eitt sinn verið gríðarstór eldkeila sem sigið hefur í miðjunni og orðið að öskju sem er um 10 kílómetrar í þvermál. Tuttugu stórgos hafa orðið í Kötlu á sögulegum tíma, þar af 18 síðustu 1000 árin. Síðast gaus í Kötlu árið 1918. Kötlugosum fylgja gríðarstór jökulhlaup og vegna þeirrar hættu sem skapast af þeim er Katla ein hættulegasta eldstöð landsins. Katla er ekki einn gígur og staðsetning hennar er nokkuð á reiki. Svæðið í kringum Kötlu er vaktað. Í því felst að fylgst er með svæðinu með jarðskjálftamælingum, mælingum á jarðskorpuhreyfingum og vatnamælingum. Einnig er eftirlit með breytingum á yfirborði jökulsins. Vestan til í Mýrdalsjökli er skriðjökull sem heitir Sólheimajökull. Á hann er auðvelt að komast, aðeins um 20 mínútna akstur frá þjóðvegi 1 og er hann því vinsæll meðal ferðamanna.

Mýrdalsjökull

Drangajökull[breyta]

Drangajökull

Drangajökull er norðarlega á austanverðum Vestfjörðum. Hann er nyrsti jökull landsins og eini jökull Íslands sem ekki nær 1000 metra yfir sjávarmál. Hæsta bunga hans heitir Jökulbunga og er hún 925 metra há. Nafn sitt fær jökullinn frá sjö dröngum sem ganga út í sjó frá Drangafjalli á Ströndum. Drangarnir kallast Drangaskörð. Um Drangajökul lá alfaraleið meðan Hornstrandir voru í byggð. Bændur við Ísafjarðardjúp sóttu sér rekavið á Strandir og drógu hann á hestum yfir jökulinn. Drangajökull er nú um 160 ferkílómetrar að flatarmáli og hefur minnkað mikið síðustu áratugina. Fjallið Reyðarbunga er nú að koma upp úr jöklinum en í þetta fjall sást ekki fyrr en eftir 1920.


Krossapróf:[breyta]

1 Hvað þekja jöklar stóran hluta Íslands?

Um 8 % landsins.
Um 10 % landsins.
Um 1 % landsins.
Um 20 % landsins

2 Hvað er Hvannadalshnúkur álitinn hár?

2.109 metrar
2.209 metrar
2.009 metrar
1.109 metrar

3 Hver er annar stærsti jökull Íslands?

Hofsjökull
Langjökull
Eiríksjökull
Mýrdalsjökull

4 Eldstöðin Katla er í

Langjökli
Vatnajökli
Hofsjökli
Mýrdalsjökli

5 Eini jökullinn sem er á Vestfjörðum heitir

Snæfellsjökull
Eyjafjallajökull
Drangajökull
Eiríksjökull

6 Einn af íslensku jöklunum var stundum kallaður Arnarfellsjökull. Hvaða jökull var það?

Langjökull
Vatnajökull
Hofsjökull
Mýrdalsjökull

7 Algengt var í gamla daga að fara yfir einn jökulinn til að ná sér í rekavið. Hvað heitir þessi jökull?

Drangajökull
Snæfellsjökull
Vatnajökull
Hofsjökull

8 Hverjir eftirfarandi jöklar ná yfir 1000 metra yfir sjávarmál?

Drangajökull, Mýrdalsjökull, Vatnajökull og Hofsjökull.
Langjökull, Drangajökull,Vatnajökull og Mýrdalsjökull.
Langjökull, Vatnajökull, Mýrdalsjökull og Hofsjökull.
Hofsjökull, Langjökull, Drangajökull og Mýrdalsjökull.

9 Frá hvaða jökli rennur áin Blanda?

Vatnajökli
Hofsjökli
Drangajökli
Langjökli

10 Hvað er Vatnajökull þykkur þar sem hann er þykkastur?

Um 400-500 metrar.
Um 600-700 metrar.
Um 800-900 metrar.
Um 1000 metrar.


Hér er sama krossapróf úr námsefninu á Hot potatos formi:

Krossapróf um jökla


Fleiri verkefni[breyta]

Rannsóknartengd verkefni:


Verkefni tengd stærðfræði:

Stærðfræðiefninu Geisla fylgir þemaheftið Jöklar eftir Guðrúnu Angantýsdóttur og þar í eru kennsluhugmyndir sem tengjast jöklum og stærðfræði


Nemendur geta t.d. samið eða búið til:

  • ljóð um jökla
  • söngva um jökla
  • dans um jökla
  • leikrit um ferðalag á jökul
  • upplýsingar um hvað ber að varast á ferðalögum á jöklum
  • kynningar um jökla t.d. í Powerpoint, Photostory, MovieMaker, Publisher
  • frásagnir af slysförum á jöklum t.d. um Geysisslysið á Vatnajökli 1950
  • ritgerðir um jökla, t.d. varðandi áhrif hækkandi hitastigs í heiminum á þá eða þá orku sem er falin í þeim sbr. virkjun jökuláa
  • myndir af jöklum
  • líkön af jöklum og umhverfi þeirra

Heimildir[breyta]

  1. Jörðin. JPV, 2005 ISBN 9979781858
  2. Sigurður Þórarinsson og Gunnar Hannesson. Vatnajökull: tignarheimur frosts og funa. Heimskringla, 1975.

Vefheimildir[breyta]

  1. Hagstofa Íslands
  2. Jarðvísindastofnun Háskólans
  3. Nordic Adventure Travel
  4. Norðlingaskóli
  5. Vísindavefurinn

Ítarefni[breyta]

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: