Íslenskar þjóðsögur

Úr Wikibókunum, frjálsa kennslubókasafninu
Stökkva á: flakk, leita
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Ásdís Haraldsdóttir

Norsk tröll

Hvað er þjóðsaga?

Þjóðsaga er frásögn sem hefur gengið sem munnmælasaga meðal alþýðu oft á tíðum lengi, jafnvel öldum saman. Stundum er að finna sannleikskorn í sögunum en oft eru þær hreinn uppspunni. Í þjóðsögum eru gjarnan frásagnir af ýmiss konar yfirnáttúrulegum atburðum og verum. Flestar ef ekki allar þjóðir eiga sínar þjóðsögur. Hluti þeirra byggir á sama kjarnanum, sérstaklega ævintýrin, sem hefur verið aðlagaður aðstæðum hverrar þjóðar. Þjóðsögur eða ævintýri eru því oft tilbrigði við svipaðar sögur í öðrum löndum. Þó í flestum tilfellum sé um að ræða munnmælasögur sem síðan eru ritaðar er einnig dæmi um þjóðsögur sem upphaflega voru ritaðar, geymdust svo í munnmælum og voru síðan aftur varðveittar í rituðu máli. Venjulega taka þjóðsögur miklum breytingum á meðan þær ganga sem munnmælasögur manna í millum. Bókleg áhrif þykja meiri í íslenskum þjóðsögum en hjá flestum öðrum þjóðum.

Einkenni

Sagan um gullgæsina

Frásögn þjóðsögu einkennist af því að atburðarrásin er í réttri tímaröð. Talan þrír er mjög sterkt einkenni sagnanna því bæði eru atburðir oft þríteknir, eitthvað gerist þrisvar sinnum, og einnig er oft fjallað um þrjár aðalpersónur. Í íslenskum þjóðsögum þekkist þetta vel. Dæmi úr sögunni um Gilitrutt þegar hún kemur þrisvar sinnum til húsfreyju og allt veltur á hvað gerist í þriðja sinnið. Þá koma persónurnar Ása, Signý og Helga fyrir í nokkrum sögum og Bakkabræðurnir Gísli, Eiríkur og Helgi. Annað einkenni þjóðsagna er að þær fjalla sjaldan um margar persónur og er þeim lýst í fáum orðum.

Um hvað fjalla þjóðsögur?

Í þjóðsögum birtast oft ýmsar gamlar trúarhugmyndir og alþýðutrú, hjátrú og hindurvitni. Oft eru persónurnar að takast á við ýmis náttúrufyrirbæri, óútskýrð fyrirbæri og reynt er að skýra mannlega hegðun. Í þeim er líka fjallað um vanmátt mannsins gagnvart náttúrunni og umhverfinu, drauga og forynjur, álfa, huldufólk og galdramenn og -konur. Í þjóðsögum má finna ágæta lýsingu á mannlífinu og lifnaðarháttum á ákveðnum tímum og hugsunarhætti. Þjóðsögur fjalla líka um skrýtnar persónur og uppátæki þeirra, svo sem Leirulækjar-Fúsa og fleiri.

Söfnun

Jón Árnason

Munnmælasögur voru ekki í hávegum hafðar hjá málvísindamönnum fyrr en rómantíska stefnan fór að hafa áhrif. Í upphafi 19. aldar hófst söfnun, skráning og útgáfa þjóðsagna í Þýskalandi með safni þeirra Jakobs og Wilhelms Grimm. Hafði safn þeirra áhrif víða í Evrópu, en það hafði að geyma sögurnar um Rauðhettu, Þyrnirósu, Mjallhvíti og dverganna sjö og Hans og Grétu. Þessar sögur komu fyrst út á Íslandi í þýðingu Theodórs Árnasonar á árunum 1922 til 1937. Á sama tíma er mikil gróska í íslenskum fræðum hér á landi og áhugi á að skrá þjóðsögur og ævintýri vaknaði. Skipulögð söfnun þjóðsagna hófst árið 1848 af þeim Jóni Árnasyni (1819-1888) og Magnúsi Grímssyni (1825-1860) og kom fyrsta safn þjóðsagna hér á landi, Íslensk ævintýri, út á þeirra vegum árið 1852.

Nokkrum árum síðar ferðaðist þýskur maður, Konrad Maurer, um Ísland og skráði munnmælasögur. Þær komu út í Leipzig árið 1860 og nefndust Isländische Volkssagen der Gegenwart. Konrad Maurer, ásamt Guðbrandi Vigfússyni og fleirum, aðstoðuðu Jón Árnason við útgáfu á þjóðsagnasafni eftir að Magnús Grímsson veiktist og féll síðan frá árið 1860. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I-II komu út í Leipzig á árunum 1862 til 1864. Jón Árnason hélt áfram að safna þjóðsögum eftir þetta og kom heildarsafn hans í sex bindum ekki út fyrr en á árunum 1954-1961 og höfðu Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson umsjón með útgáfunni. Margir hafa safnað þjóðsögum eftir daga Jóns og til dagsins í dag. Einna afkastamestur þeirra var Sigfús Sigfússon (1855-1935). Eiríkur Magnússon (1833-1913), prófessor í Cambridge, og fleiri, þýddu Þjóðsögur Jóns Árnasonar á enska tungu.

Tenglar

Krossapróf

1. Hverjir hófu fyrst markvissa söfnun íslenskra þjóðsagna?

Jón Sigurðsson og Guðbrandur Vigfússon
Jón Árnason og Magnús Grímsson
Jónas Árnason og Jón Múli Árnason
Jón Gíslason og Eggert Ólafsson

2. Hvenær kom fyrsta íslenska þjóðsagnasafnið út?

1845
1852
1900
1952

3. Hvaða eftirnafn báru þýsku bræðurnir sem hófu söfnun munnmælasagna?

Grimm
Green
Gross
Grüber


Hvað veist þú um þjóðsögur? http://elgg.khi.is/asdharal/files/1885/4752/Thjodsogur.htm

Heimildir

  • Hannes Pétursson, Bókmenntir. (1973) Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Reykjavík.
  • Stefán Einarsson, Íslensk Bókmenntasaga 874-1960. (1961) Snæbjörn Jónsson & Co. hf. The English Bookshop. Reykjavík.

Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: