Vefgerð í kennslu með opnum hugbúnaði
Bakgrunnur
[breyta]Nemendur og kennarar á öllum skólastigum hafa aðgang að ýmis konar opnum hugbúnaði. Sumt af því sem er í boði er sérhannað fyrir nám og kennslu. Sá hugbúnaður getur verið hentugur, en um leið er hann gjarnan heftandi. Ástæðurnar eru tvær: þessi hugbúnaður er oft greiðsluskyldur og síðan er umgjörðin venjulega einfölduð til þess að gera hugbúnaðinn auðveldari í notkun. Sá hugbúnaður sem ætlaður hefur verið fyrir atvinnuforritara hefur einnig verið greiðsluskyldur og einnig óþarflega flókinn fyrir kennara og nemenur. Á síðustu árum hefur hins vegar verið þróaður opinn, ókeypis hugbúnaður sem er notaður af milljónum forritara út um allan heim til að búa til vefefni. Nú er svo komið að þessi hugbúnaður er aðgengilegur og nýtanlegur einstaklingum sem eru ekki atvinnuforritarar. Allir hafa þannig aðgang að fyrsta flokks hugbúnaði án nokkurrar greiðslu og einnig er aðgangur að miklu kennsluefni ókeypis á netinu. Kennarar sem hafa áhuga á að nýta sér þessa möguleika sjálfir, eða vilja gefa nemendum sínum kost á að prófa sig áfram, geta það á tiltölulega einfaldan hátt. Hér verður tekinn fyrir sá opni hugbúnaður sem heppilegur er fyrir kennara sem vilja standa að vefsíðugerð. Bæði verður skoðaður hugbúnaður til að búa til flatar síður, þ.e. án gagnagrunnstengingar, og einnig hugbúnaður til að búa til síður sem eru tengdar gagnagrunni á vefþjóni. Það má sjá fyrir sér að kennarar og nemendur á öllum skólastigum eigi að geta sett upp vefsíður til ýmissa nota.
Möguleikar við vefefnisþróun í skólum
[breyta]Það þarf t.d. ekki nema 1-2 einstaklinga í áfanga í framhaldsskóla, ýmist kennara eða nemendur, sem kunna á ákveðinn hugbúnað, til að setja upp sérhannaða síðu þar sem eitthvert efni er tekið fyrir, æft eða þróað. Það er síðan tiltölulega einfalt fyrir aðra einstaklinga að koma að þeirri vinnu að hjálpa til við þróun efnisins, svo sem í gegnum gagnaöflun. Vistun á efni ætti í flestum tilvikum ekki að vera vandamál, því skólastofnanir geta venjulega vistað slíkt efni. Ef þokkaleg þekking er til staðar í skólastofnun geta mismunandi einstaklingar hjálpað til við mismunandi þætti. Tiltekinn kennari þekkir kannski þokkalega vel til vefforritunar, en kann ekki að setja upp gagnagrunnsforrit eða vefþjónskóða. Það þarf þá ekki nema einn annan einstakling sem kann á þann þátt til að setja þá upp og hjálpa til við grunnskipanir. Hér verður farið yfir hvaða hugbúnað er heppilegur til þess að búa til gagnagrunnstengdan vef í kennslu. Hér er einungis tekinn fyrir opinn hugbúnaður. Ekki er tekin fyrir uppsetning hugbúnaðar eða hýsing á honum. Möguleikarnir á því að skapa sitt eigið sérhæfða vefefni hafa aldrei verið meiri. Kennarar sem vilja sérþróa efni geta gert það á tiltölulega einfaldan hátt. Kennarinn getur sjálfur haft frumkvæði að þróunarvinnu eða nemendur geta gert það.. Hér er yfirlit yfir heppilegan opinn hugbúnað til að nota þegar kennari vill búa til sitt eigið efni eða gefið nemendum kost á því. Það má skipta vefsíðum í tvennt: flatar vefsíður og gagnagrunnstengdar netsíður.
Flatar vefsíður
[breyta]Ef kennari ætlar að búa til flata vefsíðu (e. static web page) þarf hann einungis html-kóða. Nýjasta útgáfan af html heitir html5 og með henni má skrifa vefsíður með öflugri virkni. Kennari getur búið til kynningar og annað efni, með miklum texta og fjölda mynda á flatri vefsíðu. Ef hugmyndin er að bæta við efni á einfaldan hátt og að gera ekki ráð fyrir mikilli gagnvirkni er þetta nægilegt. Það er einnig eðlilegt að kennari sem hefur áhuga á að byggja upp gagnagrunnstengda síðu byrji á flatri síðu til að fá tilfinningu fyrir því hvernig allt virkar. Html er nokkuð takmarkað því það er fyrst og fremst mál sem lýsir umgörð vefsíðu. Til þess að byggja upp alskyns gagnvirkni inn í síðuna er hægt að tengja sérstök vefforritunarmál við html. Af þessum málum er JavaScript það mikilvægasta.
JavaScript
[breyta]JavaScript er langvinsælasta forritunarmálið fyrir vefinn. JavaScript er óvenjulegt forritunarmál að því leyti að hegðun þess getur verið svolítið sérstök. Ástæða þess er uppruni málsins, en það var upphaflega ekki skrifað sem heildstætt mál heldur sem einfaldur skipanapakki. Það er því æskilegt fyrir notendur að nota málið í umgörð eins og jQuery. Ýmsir forritarar sem skrifa þungavigtarforrit fyrir vefinn nota forritunarmál sem eiga það öll sameiginlegt að vera umgörð utan um JavaScript, þ.e. kóðinn er skrifaður í viðkomandi máli, en er síðan pakkað inn í JavaScript-kóða. Þetta eru forritunarmál eins og CoffeeScript, TypeScript og Dart. Fyrir venjulega kennara og nemendur er þó best að halda sig við JavaScript og þá væri góður kostur að nota umgjörð eins og jQuery.
Gagnagrunnstengdar vefsíður
[breyta]Ef kennari hefur hins vegar áhuga á að gera eitthvað metnaðarfyllra, með gagnagrunntengingu, þarf hann að bæta við tvenns konar hugbúnaði (http://webdesign.about.com/cs/databases1/a/aa120699.htm). Fyrst skal nefna gagnagrunnshugbúnað. Þar kemur ýmislegt til greina, en vinsælasti opni hugbúnaðurinn er MySql. Að lokum þarf hugbúnað sem tengir saman vefsíðuna og gagnagrunninn á vefþjóninum. Þar kemur aftur ýmislegt til greina, en þar er líklega þægilegasta lausnin forritunarmálið php. Önnur mál sem koma til greina eru Python, Perl og Node.js
MySql
[breyta]MySql er opinn gagnagrunnshugbúnaður. Í MySql er hægt að byggja upp gagnagrunna með ýmis konar upplýsingum og tengja þær upplýsingar saman. Það er t.d. hægt að setja inn upplýsingar um kennsluefni og síðan einnig upplýsingar um þá nemendur sem nota efnið. Þá er hægt að tengja þessar upplýsingar við vefsíðu og búa til sérhæfða lausn fyrir hvern nemanda. Góð leið til að vinna í MySql er að setja upp Workbench-umhverfið, sem er m.a. til fyrir Windows, og vinna í MySql þar.
php
[breyta]Til þess að láta vefsíðu ná í upplýsingar úr gagnagrunni og til þess að senda upplýsingar frá vefsíðu í gagnagrunn þarf að nota forritunarmál sem getur sinnt því hlutverki. Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi, en tveir af vinsælustu möguleikunum eru php og node.js. Hvort tveggja er opinn hugbúnaður. Php er nokkuð flókið í notkun, og heppilegt að notandi sé búinn að fá nokkra reynslu í að forrita á öðrum málum. Á móti kemur að oft eru tiltölulega fáar skipanir sem þarf að skrifa í php til að eiga samskipti og þannig getur kennari virkjað php með því að skilja þokkalega helstu hugmyndirnar.
Yfirlit
[breyta]Hægt er að vinna í þessum hugbúnaði í Windows, Apple-stýrikerfi eða Linux-stýrikerfi. Vinsælt er að nota Linux-stýrikerfið, og að nota síðan netþjóninn Apache til að geyma gögnin. Notandi sem gerir þetta kann þá að nota eftirfarandi hugbúnað: Html5 og Javascript fyrir vefsíðuna, Apachthe-vefþjón geymdan á Linux-tölvu, með gagnagrunnsefni á MySql, með Php sem tengingarmál. Slík kerfi eru oft kölluð LAMP, þ.e. Linux, Apache, MySql og Php. Kennarar sem ætla að þróa efni í kennslu sinni geta þó auðveldlega haldið sig við Windows ef þeir eru vanir því kerfi.
Kennsluefni fyrir kennara og nemendur
[breyta]Efni fyrir javascript
[breyta]www.w3schools.com/js/ https://www.codeschool.com/courses/javascript-road-trip-part-1
Efni fyrir MySql
[breyta]http://www.w3schools.com/sql/ http://www.lynda.com/MySQL-training-tutorials/260-0.html
Efni fyrir php
[breyta]http://www.w3schools.com/php/ http://www.learn-php.org/