Fara í innihald

Saga þýska-ljóðsins

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir.

Þetta er wikilexía um sögu þýska-ljóðsins. Mikið af fallegustu tónlist sem samin hefur verið eru ljóðasöngvar. Söngvarar og tónlistarunnendur hafa úr ótrúlegu magni að moða af dýrindis ljóðum frá hinum og þessum löndum, svo sem norskum, spænskum, frönskum og þýskum svo eitthvað sé nefnt. Ljóðasöng er að finna allt aftur til ársins 1250 og hann hefur þróast í gegnum aldanna rás allt fram til dagsins í dag. Hægt væri að skrifa fleiri hundruð blaðsíður um hin og þessi ljóð eftir ólíka höfunda, frá ólíkum löndum. Hér verður einungis fjallað um þýska ljóðið, uppruna þess, þróun og einkenni og helstu höfunda.

Mynd:Söngkona og píanó.jpg

Uppruni, þróun, einkenni.

Mynd:Mynd nótur.jpg

Lied er skilgreint sem sönglag samið við þýskan texta og er venjulega átt við þýskt ljóð 19. aldarinnar. Þróun þýska ljóðsins er hægt að rekja allt aftur til Meistarasöngvara 1250-1550. Á 15. og 16. öld fékk ljóðið síðan fjölraddað form og var litið á það sem sérstakt tónlistarsvið. Síðan Barokk ljóðið (accompanied), þá þjóðlagaljóðið. Á 19. öld tíma rómantísku stefnunnar var það eitt af okkar helstu sönglagatónskáldum þ.e. Schubert sem jók mjög veg og virðingu þessa þýska ljóðræna sönglags, en það gerði hann með píanóundirleik.

Þótt að Schubert hafi verið fyrstur til að kanna óendanlega möguleika á samspili söngraddar og píanós, þá áttu Haydn, Mozart og Beethoven stóran þátt í því að undirbúa jarðveginn fyrir þýska ljóðið. Allir sömdu þeir gullfalleg ljóð og þykir Veilchen eftir Mozart hafa alla bestu kosti ljóðsins. E. T. A. Hoffman sem var þýskt skáld á þessum tíma sagði: „Tónlist Haydns minnir okkur á alsælu eilífrar æsku fyrir syndafallið. Mozart leiðir okkur inn í hugarheim ólýsanlegrar löngunar eftir ást og dapurleika, en tónlist Beethovens ýfir upp tilfinningar ótta og aðdáunar, ógna og þjáninga og óhemjanlega þrá, sem er kjarninn í rómantíkinni.“

Álfakonungur efir Goethe (á þýsku)

Samkvæmt þessu er Beethoven því rómantískt tónskáld en byggði auðvitað einnig á klassískri kunnáttu. Það má segja að uppruna þýska ljóðsins sé að finna í rómantískum hugsunarhætti 19. aldarinnar. Rómantíkin byggðist frekar á hugarfarsbreytingum en breytingum á undirstöðum tónsmíðarinnar. Hún bauð upp á ýmislegt nýtt eins og t.d. frjálsa einstaklingsbundna tjáningu tilfinninga, hið óræða varð einnig mikilvægur þáttur í rómantískri list. Uppruna rómantísku stefnunnar má rekja til þýskra bókmennta og heimspeki og voru þar skáldið Goethe og heimspekingurinn Kant fremstir í flokki. Ástin, hetjudáðir og dauðinn voru aðalviðfangsefni rómantískra listamanna, sem kepptust við að leggja hlustendum til mismunandi og margvíslega tilfinningalega upplifum. Óhætt er að segja að 19. öldin hafi verið öld orðsins.

Kveðskapurinn streymdi frá skáldum. Hér eru Schiller, Wilhelm og Alexander von Humboldt og Goethe í Jena

Kveðskapurinn streymdi frá skáldum eins og Goethe, Mörike, Eichendorff, Heine, Hölty, en allir sömdu þeir yndislega falleg ljóð. Píanóið tók við af Sembal og voru tónskáld fljót að nýta sér þetta nýja betrumbætta hljóðfæri. Píanóið bauð upp á endalausa möguleika við túlkun tilfinninga og kveðskapur og tónlist runnu saman í eitt. Þarna voru tónskáld 19. aldarinnar komnir með nýtt og spennandi form til að túlka það sem félagslegt andrúmslofts þessa tíma stuðlaði að, þ.e. endalausa rómantík. Heimspekingurinn Immanuel Kant trúði því að tilfinningin en ekki skynsemin væri uppspretta listarinnar og hann skilgreindi tónlist sem „list hins fagra samleiks tilfinninganna“. Það er einmitt samleikur söngraddar og píanós sem einkennir gott ljóð.

Þarna höfum við tvær tilfinninga uppsprettur sem með góðu samspili geta skapað himneska tónlist. Söngvarinn sem með rödd sinni og tjáningu túlkar orð ljóðsins með litbrigðum og innri tilfinningu, og undirleikarinn sem með kunnáttu sinni nær öllu því besta út úr píanóinu með innlifun og öryggi. Ljóð er því samspil söngraddar og píanós þar sem orðin skipta öllu máli og mjög mikilvægt er að sameina ljóðið tónlistinni eins fullkomlega og hægt er. Ljóð geta verið í ýmsum formum svo sem strófísk, gegnumsamin, ballötur og allt þar á milli. Þetta getur verið mjög mismunandi eftir tónskáldum, því engin semur jú eins, hver hefur sinn óvéfengjanlega stíl til að ávarpa hlustendur.

Found - Upplestur á enskri þýðingu á ljóðinu Gefunden eftir Goethe

Það voru aðvitað mörg tónskáld sem reyndu fyrir sér í þessu nýja listformi 19. aldarinnar. Má þar nefna menn eins og Haydn, Mozart, Beethoven, Strauss, Mahler, Mendelsohn og fleiri. Frægð þessara merku tónskálda byggist þó frekar á öðru heldur en sönglagagerð. Haydn er t.d. þekktur fyrir sinfóníur sínar og strengjakvartetta og Mozart og Strauss helst fyrir óperur sínar. Því skal hér í næsta kafla einungis talað um Schubert, Schumann, Brahms og Wolf, en þessi tónskáld eru þekktust fyrir sönglög sín, og hafa samanlagt samið yfir 1200 af dýrmætustu og fegurstu ljóðaperlum sem til eru.

Schubert

Mynd:Schubert Winterreise.jpg
Schubert Winterreise.

Franz Schubert er fæddur 1797 en dó 1828. Hann bjó alla ævi sína í Vínarborg og var nær því ókunnur sem tónsmiður í lifanda lífi, en talið er að frægð Beethovens hafi slegið þar skugga á. Schubert öðlaðist ekki frægð sína fyrr en áratugum eftir dauða sinn en þá svo um munar. Á 16 ára starfsskeiði samdi hann næstum því þúsund tónverk, þar á meðal fjársjóð meira en 600 sönglaga, dásamlegri og langtum meiri tónlist en heimurinn hefur tíma til að kynna sér, eins og sagt er dapurlega. Hann var ótrúlega hugkvæmur í lagasmíð og söngvarnir flæddu út frá honum í stríðum straumum.

Schubert er án efa mestur allra tónskálda í gerð sönglaga og sagt er að ekki sé til sönglag eftir Schubert sem ekki sé hægt að læra eitthvað af. Hann samdi allar útgáfur af ljóðum í alls kyns formum, sama hvað hann fékk í hendurnar hann gat samið fallegt sönglag við hvaða texta sem var. Í ljóðum Schuberts liggur laglínan á besta stað fyrir söngvarann, sömu sögu er að segja um píanóið fyrir píanistann. Hlutverk píanósins er fallega litað, fjölbreytt og lýsandi og laglínan, hljóðfæri og orð mynda eina samfellda heild. Oft er að finna í ljóðum Schuberts lýsingu á umhverfi nokkurs konar sveitastemmingu, eða hljóðum eins og t.d. hófadyn eða rokkhljóði sem hann framkvæmir með píanóinu. Má þar nefna lög eins og Gretchen am Spinnrade um unga stúlku sem situr ein við rokkinn og hugsar um elskhuga sinn, og Erlkönig um dauðasæringar áfakóngsins sem rænir að lokum sál drengsins. Dregnar eru upp myndir af næturreiðinni, hófadyn hestsins, kvíðafullum föður, óttaslegnum syni og óhugnanlega tælandi álfadjöfli. Schubert samdi einnig ljóðaflokkinn Winterreise og má þar finna mörg af hans bestu lögum. Schubert dó 31 árs gamall. Hvað hann kynni að hafa samið á lengri ævi verður aldrei vitað. Þrátt fyrir allt eru verk hans slík að honum er skipað í hóp mestu tónskálda heims. Grafskriftin fræga sem prýðir legstein hans segir: „Tónlistin ber hér til moldar mikinn auð og þó miklu fegurri vonir“.

Hljóðdæmi um tónlist Schuberts

Schumann

Robert Schumann fæddist árið 1810 en dó 1856. Hann var píanótónskáld áður en hann snéri sér að ljóðatónsmíðum, og í mörgum söngva hans skipar hljóðfærið stærra hlutverk en söngröddin. Fram til ársins 1840 samdi Schumann næstum ekkert nema fyrir píanó, en á því ári sneri hann sér að sönglagagerð og á einu ári samdi hann 138 af fegurstu ljóðalögum sínum. Sönglög hans eru einstæð fyrir rómantíska fagurnæmi, bókmenntalega fágun og gefa píanóinu einnig sinn skammt því inn á milli koma jafnan ýtarleg fljúgandi píanómillispil. Schumann var meistari í að skapa stemmingu dræma og fegurðar og eru lög hans mörg fínleg, blönduð einfaldleik, fágun, trega og háði. Þar á meðal eru stórglæsilegir ljóðaflokkar hans Dichterliebe, Frauenliebe und Leben og Liederkreis.

Hljóðdæmi um tónlist Schumanns:

Brahms

Mynd:Brahms gamall.jpg
Brahms sem gamall maður.
Mynd:Brahms ungur.jpg
Brahms ungur að árum

Johannes Brahms fæddist árið 1833, en dó árið 1897 og var skjólstæðingur Schumanns. Verk hans voru oft mjög hefðbundin í stíl þar sem hann leitaði oft langt aftur til fortíðar og varð hann því mikilvirkastur tónskálda 19. aldar í endurreisn klassískra gilda á sviði tónlistar. Brahms tileinkaði sér eigið tónmál sem er mjög persónulegt og í eyrum margra hlustenda sérlega elskulegt. Hann samdi sinfóníur, píanókonserta, kammertónlist og fleira, og samdi um 200 ljóð fyrir söngrödd og píanó og gaf út sjö hefti af þjóðlaga útsetningum. Brahms var hrifnastur af strófísku formi og virti laglínuna ávallt fram yfir píanóleikinn. Í ljóðum Brahms speglast bæði mikill tregi og létt og fjörleg stemning. Ljóð hans eru einnig oft mjög ástríðufull og sterk eins og t.d. Zigeunerlieder.

Hljóðdæmi um tónlist Brams:


Wolf

Hugo Wolf var fæddur árið 1860 og dó árið 1903. Frægð Wolfs byggist á næstum 300 sönglögum hans, sem líta má á sem hátind þýska ljóða-söngsins með munablíðum og oft glæsilega snjöllum píanóundirleik. Píanóið fer með aðalhlutverkið, eins og hljómsveit Wagner gerði í óperum hans, og mannsröddin gerir ekki annað en að syngja undir. Wolf hafði ekki til að bera hina fljúgandi einföldu lagrænu hæfileika Schuberts, en lög hans sýna ótrúlegan næmleika fyrir blæbrigðum orða, tilfinninga og skaplyndis og hárfínni samhljóman. Wolf var það tónskáld sem virti textann meir en nokkur annar, og var mjög sérvitur á þau ljóð sem hann notaði í lögum sínum. Ljóðin urðu að vera einstaklega góð og enginn mátti hafa notað þau áður. Wolf var snillingur í að sameina ljóðið tónlistinni og sagt er að jafnvel Schubert hafi ekki tekist það jafnvel og honum. Á aðeins þremur mánuðum samdi Wolf 43 lög við ljóð eftir Mörike. Í líkri sköpunarskorpu hespaði hann af lögum við kvæði Eichendorffs og Goethes. Hann samdi einnig flokka sem hann kallaði Spænsku og Ítölsku ljóðabækurnar.

Krossapróf

1 Tónskáldin Schubert, Schumann, Brahms og Wolf voru þekktust fyrir

óperur sínar
kammertónlist
sönglög sín
sinfóníur sínar

2 Hver samdi ljóðaflokkinn Winterreise.

Schumann
Brahms
Wolf
Schubert

3 Hvaða tónskáld bjó alla sína ævi í Vínarborg og var nær ókunnur sem tónsmiður í lifanda lífi.

Schubert
Brahms
Schumann
Wolf

4 Hvaða tónskáld fæddist árið 1810 og snéri sér fyrst að sönglagagerð árið 1840.

Brahms
Schumann
Wolf
Schubert

5 Hjá hvaða ljóðatónskáldi fer píanóið með aðalhlutverk eins og hljómsveit Wagners gerir í óperum hans.

Wolf
Schumann
Brahms
Schubert

6 Hver samdi ljóðaflokkinn Zigeunerlieder.

Schubert
Schumann
Wolf
Brahms

7 Hvað sömdu tónskáldin Schubert, Schumann, Brahms og Wolf samanlagt mörg sönglög.

Yfir 1200
Yfir 1300
Yfir 1400
Yfir 1500

8 Þróun þýska ljóðsins er hægt að rekja allt aftur til ársins

1550
1450
1350
1250

9 Hvað einkennir gott ljóð

Söngröddin
Píanóið
Samleikur söngraddar, píanós og fiðlu
Samleikur söngraddar og píanós

10 Hvaða tónskáld eru helst þekkt fyrir óperur sínar.

Haydn og Mozart
Strauss og Mahler
Mozart og Strauss
Beethoven og Schumann

11 Spilaðu hljóðskrána hér til hliðar.
Eftir hvaða tónskáld er lagið

Schumann
Brahms
Schubert
Wolf


Sama próf á Hot Potatos formi: Krossapróf um sögu þýska ljóðsins

Heimildir

  • Saga vestrænnar tónlistar. Jón Ásgeirsson þýddi. Ísafold, 1987.
  • The Oxford Junior Companion To Music. Oxford University Press, 1979.
  • Tónagjöf Fjölva. Fjölvaútgáfan í Reykjavík, 1989.

Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: