Fara í innihald

Listamenn í Hveragerði 1940-1965

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Njörður Sigurðsson

Þetta er wikibók um listamannahverfið í Hveragerði 1940-1965. Wikibókin er hugsuð fyrir alla þá sem vilja fræðast um þennan þátt í sögu Hveragerðis og gæti nýst sem kennsluefni fyrir nemendur úr Hveragerði á öllum aldri um sögu síns sveitarfélags. Nemendur geta kynnt sér efni þessarar wikibókar, heimsótt listamannahverfið og skoðað þar hús sem listamennirnir bjuggu og svo glímt við verkefni sem eru neðst á þessari síðu.


Inngangur

[breyta]
Götukort sem sýnir listamannahverfið sem samanstóð af götunum Laufskógum, Frumskógum og Bláskógum.

Á árunum upp úr síðari heimsstyrjöld og fram á miðjan 7. áratug 20. aldar dvaldi fjöldi þjóðþekktra listamanna í Hveragerði – tónskáld, listmálarar, myndhöggvarar, rithöfundar og skáld. Settust þeir flestir að við þrjár götur vestarlega í þorpinu eins og það var á þeim tíma, við Laufskóga sem var gata tónskáldanna, Frumskóga þar sem skáldin bjuggu og Bláskóga þar sem listamenn fundu sér samastað. Hveragerði var ekki stórt þegar listmenn hófu að flytja í þetta sérkennilega þorp þar sem hverir og heitt vatn sauð við hvert fótmál, aðeins nokkrar moldargötur og þýfðir móar og hraungrýti þar á milli. Listamennirnir voru stór hluti íbúa Hveragerðis og settu því sterkan svip á mannlífið í þorpinu. Má í raun segja að ekkert annað byggðarlag á Íslandi hafi nokkurn tíma komist nær því að geta kallast listamannanýlenda eins og víða var þekkt erlendis.


Listamannahverfið og listamennirnir

[breyta]

Ásgeir Jónsson, járnsmiður, hefur jafnan verið nefndur fyrsti listamaðurinn sem bjó í Hveragerði en þar bjó hann á árunum 1933-1941. Þekktastur er hann fyrir Langömmuvísur sínar. Eiginlegt tímabil listamannanna í Hveragerði hófst þó ekki fyrr en um það leiti sem Ásgeir flutti úr þorpinu. Árið 1940 fluttu bæði þeir Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum til bæjarins, Sr. Helgi Sveinsson árið 1942 og Gunnar Benediktsson og kona hans Valdís Halldórsdóttir ári síðar. Þar bjuggu þau öll í sömu götu sem fékk heitið Skáldagata (heitir nú Frumskógar) vegna fjölda skálda sem þar bjuggu á tímabili.

Við Skáldagötu (Frumskóga) bjuggu eftirfarandi listamenn:


  • Karl Jónatansson, hljóðfæraleikari. Bjó í Reykjaborg (Frumskógar 4) árið 1948.
  • Gunnar Benediktsson, rithöfundur og kona hans Valdís Halldórsdóttir rithöfundur. Bjuggu í Gufuskála (Bláskógum 15) 1943-1944 og Vin (Frumskógar 5) 1944-1974.
  • Kristján frá Djúpalæk, rithöfundur. Bjó í Bræðraborg (Frumskógar 6) 1950-1961.
  • Sr. Helgi Sveinsson bjó í Ljósafelli (Frumskógar 7) 1942-1964.
  • Kristmann Guðmundson, rithöfundur. Bjó á Melavöllum (Breiðumörk 18) 1940-1941 og í Garðshorni (Frumskógar 9), 1941-1960.
  • Jóhannes úr Kötlum, rithöfundur. Bjó í Miðseli (Frumskógar 10), 1940-1946. Flutti í Hnitbjörg (Brattahlíð 9) og bjó þar 1947-1959.
  • Gunnlaugur Scheving, listmálari. Bjó í Miðseli (Frumskógar 10), 1946-1949.
  • Ríkarður Jónsson, myndlistamaður. Byggði sumarhúsið Smáragrund (Frumskógar 11) árið 1941 og dvaldi þar löngum á sumrum.

Við Bláskóga bjuggu eftirfarandi listamenn:

Við Laufskóga bjuggu eftirfarandi listamenn:

  • Ingunn Bjarnadóttir, tónskáld. Bjó á Hraunteigi (Laufskógum 4) frá 1946.

Árni Björnsson, tónskáld dvaldi á sumrum í Garðarshólma (Laufskógum 5) 1951-1965.

  • ristján Bender, rithöfundur. Bjó í Laufskógum 31 1956-1963.

Af hverju fluttu listamenn til Hveragerðis?

[breyta]

Finna má nokkrar ólíkar ástæður þess að listamenn fundu sér athvarf í Hveragerði um miðja 20. öld. Í Hveragerði voru lóðir ódýrar auk þess sem ódýrt var að kynda húsin með jarðhita sem nóg var af. Viðvarandi húsnæðisskortur í Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldar hafði jafnframt sín áhrif auk þess sem listamennirnir losnuðu við ys og þys höfuðstaðarins sem þó var í seilingarfjarlægð. Þá hefur umhverfið og náttúran höfðað til listamannana, Reykjafjall og Vorsabæjarhamar ásamt Kömbum mynda umgjörð utan um byggðina, Varmá rann silfurtær hjá þorpinu og hverirnir settu sérstakan svip á landslagið. Þorpið var ungt en fyrstu íbúar settust þar að árið 1929. Þorpsbúar voru því allir aðfluttir og engin hefð var fyrir neinu. Ekki er ólíklegt að þessar aðstæður í Hveragerði, hversu ómengað og óbundið þorpið var, hafi höfðað til listamannanna sem þangað fluttu.

Það er jafnframt athyglisvert að listamennirnir sem til Hveragerðis fluttu áttu ekki tengsl við Ölfus né nærsveitir. Jafnframt vekur athygli að fæstir listamannanna báru þar beinin og fluttu þeir flestir til Reykjavíkur eftir búsetuna í Hveragerði.

Áhrif listamannanna á mannlífið í Hveragerði

[breyta]

Eins og gefur að skilja hafði þessi fjöldi listamanna mikil áhrif á mannlífið en þeir tóku virkan þátt í félagslífinu í Hveragerði. Höskuldur Björnsson listmálari málaði jafnan leiktjöld fyrir leiksýningar Leikfélags Hveragerðis og á hinum árlegu garðyrkju- og listamannböllum voru Hveragerðisskáldin hrókur alls fagnaðar. Þar fluttu skáldin m.a. annála Hvergerðinga í bundnu formi auk þess sem margar ógleymanlegar vísur urðu þar til.


Mörg þeirra skálda sem bjuggu í Hveragerði fengust við kennslu þar sem rithöfundalaun dugðu ekki til framfærslu, kenndu þau m.a. í barna- og miðskólanum í Hveragerði, Garðyrkjuskóla ríkisins og Kvennaskólanum á Hverabökkum. Allsstaðar þar sem Hveragerðisskáldin komu saman urðu til kvæði og vísur við minnsta tilefni og varð ein sem hefur lifað lengi til á kennarastofu barnaskólans í Hveragerði. Einn morguninn kom þar inn ungur kennari að nafni Bjarni Eiríkur Sigurðsson en fyrir sátu í kennslustofunni Gunnar Benediktsson og Sr. Helgi Sveinsson.


Bjarni sagði: Góðan dag Gunnar Ben.

Gunnar svaraði: Góðan dag Bjarni

Þá spyr Sr. Helgi: Er það satt að Ottesen eigi von á barni?

(Oddgeir Ottesen var nágranni þeirra Helga og Gunnars og bjó í Frumskógum 3).


Listamennirnir létu einnig til sín taka á sviði stjórnmálanna. Má þar nefna aðkomu þeirra Kristmanns Guðmundssonar og Gunnars Benediktssonar að stofnun Hveragerðishrepps út úr Ölfushreppi árið 1946 en Gunnar sat jafnframt í fyrstu hreppsnefnd sveitarfélagsins. Eitt sinni orti Gunnar um stofnun hreppsins og landleysi hins nýja sveitarfélags sem ekki hafði efni á að setja niður kirkjugarð innan hreppsmarkanna. Í ljóðinu má jafnframt kenna nokkurs hrepparígs við Ölfus:


Hér er kominn hreppur nýr

hann er sagður kostarýr

Þegar lífs við brjótum brýr

bæði segi og skrifa.

Í öllum hreppnum engin mold

Í að greftra látið hold.

Við neyðumst til að nuddast við að lifa.


En svo er aftur önnur sveit

einstaklega kostafeit

enga frjórri augað leit

um að tala og skrifa.

þar er þessi þykka mold

þar má greftra látið hold,

þar eru menn sem þurfa ekki að lifa.



Margar tækifærisvísur urðu til er skáldin mættust á förnum vegi í Hveragerði. Frægt var þegar Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum hittust á símstöðinni í Hveragerði og Jóhannes kastaði fram eftirfarandi vísu:


Lít ég einn sem list kann.

Löngum hafa þær kysst hann,

— Kristmann.


Kristmann svaraði um hæl:


Einkum þó vér ötlum,

að þær fari úr pjötlum

— í Kötlum.


Eitt sinn átti Jóhannes í Kötlum leið um Skáldagötuna og sá þar að Kristján frá Djúpalæk var að aðstoða nágrannakonu sína Guðfinnu að nafni við garðyrkju. Kallaði þá Jóhannes til Kristjáns:


Finnfirðingur furðuslyngur

Finnu kringum dansar glatt

Mokar, stingur, másar, springur

með sinn skringilega hatt.


Kristján svaraði að bragði.


Meðan ég er að moka skít

meyja ást og virðing hlýt.

Skammir gegnum gluggann les

Goddastaða-Jóhannes.

Verkefni

[breyta]

Hér fyrir neðan eru hugmyndir að verkefnum sem kennarar, sem hafa hug á að nýta þessa wikibók í kennslu, geta lagt fyrir nemendur sína. Verkefnin má taka upp eins og þau eru hér sett fram, breyta og aðlaga eftir því sem hentar. Verkefnin gætu nýst í kennslu í sögu, landafræði, íslensku eða bókmenntum.

  • Látið nemendur finna ljóð eftir eitt af Hveragerðisskáldunum. Möguleiki er að láta nemendur greina ljóðið nánar, þ.e. um hvað það er? eru myndlíkingar að finna í ljóðinu? stuðlar og höfuðstafir? o.s.frv. Þá má fá nemendur til að flytja ljóðið fyrir bekkinn.
  • Ræðið við nemendur um ástæður þess að listamenn sóttu í að búa í Hveragerði eða eiga þar sumarbústað. Var það rómantísk þrá til sveitarinnar? Eða var það aðeins hentugt af fjárhagslegum ástæðum að setjast þar að? Ætli nábýlið við aðra listamenn hafi verið skapandi fyrir listamennina, eins og t.d. í erlendum listamannanýlendum?
  • Skoðið með nemendum gamlar myndir og kort af Hveragerði og sérstaklega listamannahverfið í Hveragerði. Farið svo í göngutúr með nemendur um listamannahverfið. Hvað hefur breyst frá gamla kortinu og myndunum? Húsin? Göturnar? Gróðurinn? Möguleiki er að sýna nemendum hvernig byggðin þróast og vex í gegnum tíðina og einnig hvernig húsin og gróðurinn breytist í gegnum tíðna.


Krossapróf

[breyta]

1 Hvaða Hveragerðisskáld samdi vísu um stofnun Hveragerðishrepps og kirkjugarðsleysi í hreppnum?

Gunnar Benediktsson
Kristmann Guðmundsson
Jóhannes úr Kötlum
Kristján frá Djúpalæk

2 Hvað var gatan kölluð sem flest skáldin og rithöfundarnir bjuggu við?

Listamannagatan
Skáldagatan
Málaragatan
Ljóðagatan

3 Hvað hét fyrsta Hveragerðisskáldið?

Kristmann Guðmundsson
Sr. Helgi Sveinsson
Kristján frá Djúpalæk
Ásgeir Jónsson

4 Hverjar voru m.a. ástæður þess að listamenn hófu að flytja til Hveragerðis og setjast þar að?

Ódýrt húsnæði
Húsnæðisskortur í Reykjavík
Engin hefð var fyrir neinu í Hveragerði
Falleg og ómenguð náttúra

5 Hvaða tvö Hveragerðisskáld áttu þátt í stofnun Hveragerðishrepps?

Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum
Valdís Halldórsdóttir og Gunnar Benediktsson
Kristmann Guðmundsson og Gunnar Benediktsson
Jóhannes úr Kötlum og Kristján frá Djúpalæk


Krossaspurningar úr wikibók um listamannahverfið í Hveragerði á Hot potatos formi

Heimildir

[breyta]

Prentaðar heimildir:

  • Björn Pálsson: "Hveragerði og upphaf mannvistar þar." Árnesingur IV (1996), bls. 9-62.
  • Pjetur Hafstein Lárusson: Hveragerðisskáldin 1933-1974. Hveragerði 2004.

Vefheimildir:

Óprentaðar heimildir:

  • Inga Lóa Hannesdóttir: "... heimsins bezti staður". Skáldabærinn Hveragerði. Óprentuð ritgerð til B.A. prófs við Háskóla Íslands 2004.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn kirkna. Arnarbælissókn – sóknarmanntöl . BC/11 1937-1947 og BC/12 1948-1952.

Ítarefni

[breyta]