Fara í innihald

Köngulær á Íslandi

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Vala Nönn Gautsdóttir Þetta er wikibók um köngulær á Íslandi og hentar sem ítarefni í náttúrufræði á unglingastigi.

Almennt um köngulær

[breyta]

Köngulær eru ekki skordýr heldur tilheyra þær þeim flokki liðdýra sem nefnast áttfætlur en aðalflokkar liðdýra eru krabbadýr, margfætlur, áttfætlur, þúsundfætlur og skordýr. Áttfætlur eru sundurleitur hópur dýra sem hafa það sameiginlegt að hafa átta fætur og sérstaka munnlimi sem nefnast klóskæri. Bolurinn er ýmist í einu lagi eða tvískiptur og skiptast áttfætlurnar meðal annars í köngulær, langfætlur, mítla og sporðdreka. Köngulóm má skipta með tilliti til lifnaðarhátta í vefköngulær og föruköngulær. Vefköngulærnar spinna vef úr silkiþræði til veiða en föruköngulær elta bráðina uppi, þær hafa spunakirtla en nota þráðinn til annars en að spinna vef, meðal annars til að spnna hjúp um egg sín og til þess að svífa um. Köngulær hafa sérstaka kirtla í afturbol sínum sem framleiða hráefnið í silkiþráðinn. Kirtlarnir eru margir og úr þeim kemur fljótandi silki sem flæðir út um op á þremur pörum spunavartna aftast á afturbolnum. Silkið harðnar um leið og það kemur úr vörtunum og verður að firnasterkum þræði. Allar köngulær eru rándýr og þegar þær hafa náð bráð drepa þær hana með eitri sem kemur úr eiturkirtlum sem þær hafa í höfðinu, eitrið sprautast svo úr oddi klóskæranna þegar þau hafa stungist í hol á bráðinni. Köngulóin ýmist drepur bráðina strax eða hún lætur nægja að lama hana og getur þá geymt hana lifandi þangað til hún verður svöng næst.

Á Íslandi finnast 84 tegundir af köngulóm af 10 ættum og hér verður sagt frá þessum ættum og lítilega frá hverri tegund. Varðandi nöfn á köngulónum er stuðst við bókina Íslenskar köngulær, eftir Inga Agnarsson, sem út kom 1996 en í þar er öllum íslensku tegundunum gefið íslenskt nafn, en margar höfðu það ekki áður. Hér verður einnig tiltekið latneska heitið á þeim, þannig að auðveldara sé að finna frekari upplýsingar um þær.

Hagaköngulær

[breyta]

Hagaköngulær (Gnaphosidae) (2 tegundir) Hagaköngulær eru einlitar sprettharðar föruköngulær. Þær veiða ekki í net heldur hlaupa bráðina uppi og kunna því vel við sig á opnu landi. Tvær tegundir hagaköngulóa finnast hér á landi þ.e. Hagakönguló (Haplodrassus signifer) og Hrafnakönguló (Gnaphosa lapponum). Hagakönguló er breytileg á litinn en getur verið mjög dökk og er algeng á láglendi. Hrafnakönguló er með gulbrúnan, stundum dökkbrúnan frambol og svarta skjaldarrönd, hún er frekar algeng á láglendi og nokkuð upp á hálendið.

Hnoðaköngulær

[breyta]

Hnoðaköngulær (Lycosidae) (5 tegundir) Sprettharðar föruköngulær og sem draga nafn sitt af því hátterni að bera ungviði sitt með sér í poka sem er festur við spunavörturnar aftast á búknum, en þessi poki kallast hnoða. Hér finnast fimm tegundir hnoðaköngulóa en það eru:

Skógkönguló (Pardosa hyperborea) sem er með brúnan langröndóttan frambol og eru rendurnar heiðgular og áberandi, hún er frekar sjaldgæf hérlendis.

Hnoðakönguló (Pardosa palustris) er með brúnan,langröndóttan frambol og eru rendurnar ljósbrúnar eða gular, hún er mjög algeng um allt land bæði á láglendi og hálendi. Sennilega algengasta og útbreiddasta köngulóartegund landsins.

Mýrakönguló (Pardosa sphagnicola) er með brúnan, langröndóttan frambol með rauðbrúnum röndum hún er útbreidd og algeng á láglendi og finnst gjarnan í hrísmóum og mýrum og birkikjarri.

Heiðakönguló (Arctosa alpigena) er með rauðbrúnan frambol með nokkrum dökkum rákum út frá miðju og er framhluti frambols þakinn grábrúnum hárum, hún er algeng á miðhálendinu og víða til fjalla en sjaldgæf á láglendi.

Laugakönguló (Pirata piraticus) er með brúnan langröndóttan frambol með ljósbrúnum röndum, hún þarf mikinn raka og er hitakær. Þessi tegund er ríkjandi tegund á jarðhitasvæðum en hefur þó fundist í auknum mæli fjarri þeim.

Húsaköngulær

[breyta]

Húsaköngulær (Agelenidae) (1 tegund)

Eru allstórar grábrúnar köngulær í hýbýlum, ein tegund finnst hér á landi en það er Húsakönguló (Tegenaria domestica) hún er með grábrúnan frambol, daufgeislóttann og nokkuð ílangan og er afturbolurinn ljósari en frambolurinn. Er frekar algeng í húsum og útihúsum á Suðvesturlandi sérstaklega í Reykjavík, ekki eins algeng í öðrum landshlutum, hefur eingöngu fundist í húsum hér á landi. Þær spinna trektlaga voðir í hornum og situr köngulóin í mjórri endanum.

Kambköngulær

[breyta]

Kambköngulær (Dictynidae) (1 tegund) Ein tegund er af þessari ætt hér á landi en það er Hrískönguló (Dictyna arundinacea), hún er með dökkbrúnan frambol með röðum af ljósum hárum frá bakrák yfir augun. Afturbolur er dökkbrúnn með gullbrúnum flikrum. Hefur fundist allt í kringum Mývatn og niður með Laxá í Suður Þingeyjarsýslu, heldur til í fjalldrapa hér á landi.


Krabbaköngulær

[breyta]

Krabbaköngulær (Thomisidae) (1 tegund) Krabbakönguló (Xysticus cristatus) þetta er krabbalaga könguló með tvö fremstu fótapörin áberandi löng, frambolurinn er brúnleitur með hvítu v-laga mynstri. Þær veiða bráðina ekki í vef heldur sitja gjarnan í blómum og veiða flugur sem leita þangað, krabbaköngulær geta spunnið þó þær geri sér ekki vef, t.d. spinna karlarnir sérstakan þráð sem þeir nota til að binda kerlingarnar með áður en mök hefjast og svo skjótast þeir í burtu að leik loknum á meðan kerlingin er að losa sig úr böndunum og sleppa þeir þannig við að verða étnir. Krabbaköngulóin er algeng um allt land utan hálendisins.


Krossköngulær

[breyta]

Krossköngulær (Araneidae) (5 tegundir) Eru stórar og digrar köngulær sem spinna hjólvefi í trjám, klettum og á húsum. Hér hafa fundist fimm tegundir. Þær hafa nægilega sterkt bit til að bíta í gegnum húð fólks en þeirra bit er mjög óalgengt.


Krosskönguló (Araneus diadematus) sem er með ljósbrúnan frambol oftast með þremur dökkum langrákum og ljósbrúnan afturbol með hvíta bletti sem mynda kross. Finnst um allt land á láglendi en er algengust á suður og suðvesturlandi. Er oft í miklum fjölda utan á húsveggjum í Reykjavík. Hún er frekar hitakær og er algengust utan á húsveggjum og klettum sem snúa mót suðri, finnst einnig í gróðri í suðurhlíðum.

Skartkönguló (Araneus marmoreus) er með ljósbrúnan frambol, dökkan í jaðarinn með dökkri miðlægri langrák. Afturbolur annaðhvort grænleitur með stórum svörtum flekki eða dökkgrænn með ljósum blettum sem mynda mynstur. Hún er mjög sjaldgæf hérlendis.

Sveipkönguló (Larinioides cornutus) er með ljósbrúnan frambol og brúnan og gulhvítan afturbol mjög munstraðan. Hún er nokkuð algeng sérstaklega norðanlands, á láglendi þar sem hún heldur til í háu grasi, runnum og trjám, hún spinnur sér gjarna eggjabú í snarrótarpunti.

Maurkönguló (Larinioides patagiatus) er með brúnan frambol með ljósari blett neðan vð bakrákina, afturbolur er brúnn eða ljósbrúnn. Hún hefur fundist víða um land en virðist samt vera nokkuð sjaldgæf, hún er algengust norðanlands og er nokkuð algeng við Mývatn þar sem hún er á runnum í trjám og í klettum.

Ylkönguló (Zygiella x-notata) er með brúnan framhluta með fínni dökkri rák í jaðri, afturbolur er brúnn með ljósu eða hvítu mynstri. Finnst hér á landi í tengslum við gróðurhús.

Leggjaköngulær

[breyta]

Leggjaköngulær (Pholcidae) (1 tegund) Leggjakönguló (Pholcus phalangioides) er með nær hringlaga frambol ljósan á lit, afturbolur er sívalur og ílangur ljós á litinn. Lappirnar eru mjög langar. Þessi tegund berst hingað öðru hvoru með ýmsum varningi en er sennilega að taka sér bólfestu hér. Hún heldur sig í tengslum við mannabústaði og hefur aðeins fundist innanhúss hérlendis.


Randaköngulær

[breyta]

Randaköngulær (Tetragnathidae) (2 tegundir) Mjóslegin langfætt könguló með tvær gular rendur langs eftir afturbolnum neðanverðum og með áberandi stóra bitkróka, spinnur hjólvefi. Hér á landi finnast tvær tegundir

Randakönguló (Tetragnatha extensa) með gulbrúnan frambol og langan og grannan afturbol með dökkum rákum langsum. Þessi tegund er frekar algeng í Þingeyjarsýslum en hefur fundist stöku sinnum á láglendi annarsstaðar. Heldur til í runnum, sefi eða hávöxnu grasi gjarnan nálægt vatni.

Kjarrkönguló (Metallina mengei) er með ljósbrúnan frambol með dökku V laga mynstri. Hefur einungis fundist í Skaftafelli en er frekar sjaldgæf – finnst í trjágróðri og runnum.

Slútköngulær

[breyta]

Slútköngulær (Theridiidae) (5 tegundir) Hér á landi finnast fimm tegundir af þessari ætt þ.e.

Búldukönguló (Achaearanea tepidariorum) sem er með ljósbrúanan daufgeislóttan frambol og ljósbrúnan afturbol þakinn ljósum og hvítum doppum. Lifir í gróðurhúsum hér á landi er mjög hitakær.

Klettakönguló (Rugathodes bellicosus) er með gulbrúnan frambol stundum með dökkan ferhyrndan blett fyrir aftan augun og afturbolur er brúnn eða ljósbrúnn oft með gráleitum flekkjum, hún er mjög sjaldgæf hér á landi en heldur til í sprungum í klettum og undir steinum.

Hróakönguló (Robertus arundineti) er með brúnan frambol og gráan afturbol finnst aðeins á láglendi á sunnanverðu landinu en er frekar óalgeng, finnst oftast undir steinum, í grasi og mosa.

Bragkönguló (Robertus lyrifer) er mjög lík Hróakönguló í útliti hefur fundist við Mývatn og í Borgarfirði er gjarnan í deigu kjarrlendi og hrísmýrum.

Dvergkönguló (Theonoe minutissima) er mjög smávaxin könguló með gulbrúnan eða brúnan frambol og gráleitan afturbol, er mjög sjaldgæf hér á landi.

Voðköngulær

[breyta]

Voðköngulær (Linyphiidae) (61 tegund) Þetta er langstærsta ætt köngulóa hér á landi, þær eru mun smávaxnari en aðrar köngulóartegundir og yfirleitt ber lítið á þeim. Á haustin skríða þær upp í strá eða greinar og spinna langan þráð sem vindurinn grípur svo með könguló og öllu og feykir þeim þannig til nýrra heimkynna. Það þótti boða harðan vetur ef mikið bar á slíku og kallaðist þetta fyrirbæri vetrarkvíði. Hnyðjuló (Ceratinella brevipes) er frekar algeng víða um land á láglendi, algengari sunnanlands og finnst oftast í frekar deigum eða blautum gróðurlendum eða í kjarri. Hnubbaló (Walckenaeria nodosa) er sjaldséð en hefur fundist nokkuð víða á láglendi, sérstaklega sunnannalds og finnst helst í deiglendi og í skógum eða undir steinum í þurrlendi. Brekkuló (Walckenaeria nudipalpis) er frekar algeng víða um land á láglendi, algengari sunnanlands og finnst í deigum eða blautum gróðri en einnig undir steinum og spýtum í þurrlendi. Finuló (Walckenaeria clavicornis) er algeng víða á láglendi og á hálendi og finnst gjarnan undir steinum og spýtum. Flipaló/Hnýfilló (Walckenaeria cuspidata) er mjög sjaldséð en hefur fundist á örfáum stöðum suðvestan- og norðaustanlands finnst þá í deigu eða blautu graslendi eða mosa. Skógaló (Walckenaeria atrotibialis) hefur fundist í Skaftafelli og við Mývatn og finnst í birkiskógi, kjarri go hrísi. Hnúfuló (Entelecara erythropus) hefur fundist á örfáum stöðum mjög dreift um landið og virðist mjög sjaldgæf heldur til í grasi eða mosa. Gamburló (Entelecara media) hefur fundist einu sinni á Íslandi, í Skaftafelli 1962, erlendis finnst hún helst í barrskógum. Buskaló (Hylyphantes graminicola) hefur fundist einu sinni á Barkarstöðum í Fljótshlíð en erlendis heldur hún til í kjarri og ýmsum lággróðri oftast í deiglendi. Krúnuló (Dismodicus bifrons) virðist vera frekar algeng víða á láglendi þar sem hún heldur til í deigum gróðurlendum með hávöxnum gróðri og í skógum. Situr gjarnan á trjám. Roðaló (Gonatium rubens) er algeng um allt land upp í 6- 700 metra hæð bæði í þurru og deigu gróðurlendi. Lænuló (Maso sundevalli) er lítið útbreidd og sjaldgæf hér, hefur þó fundist í nokkru magni við Mývatn, hún er gjarnan í birkiskógum, kjarri og hrísi oft undir steinum. Sléttuló (Silometopus ambiguus) hefur fundist nokkuð víða en þó ekki á austur- eða suðausturlandi, er frekar sjaldséð, virðist bundin við láglendi þar sem hún finnst nær eingöngu í lágvöxnu graslendi. Gáraló (Cnephalocotes obscurus) er frekar sjaldgæf en er þó nokkuð algeng allra syðst á landinu oftast í deigum eða blautum búsvæðum. Svarðló (Tiso aestivus) hefur fundist víða um land bæði á hálendi og láglendi og virðist vera algeng. Hún lifir í yfirborði jarðvegs og grassverði. Gránuló (Tapinocyba pallens) hefur fundist einu sinni í Skaftafelli í rjóðri í birkiskógi. Hlöðuló (Microctenonyx subitaneus) er sjaldséð en lifir í nánum tenguslum við mannabústaði, hefur fundist í gömlu heyi og grasleifum. Haugaló (Thyreosthenius parasiticus) er sjaldséð en lifir í nánum tengslum við mannabústaði, finnst gjarnan í gömlu heyi og safnhaugum, gjarnan í hlöðum. Snoppuló (Savignya frontata) er mjög algeng um allt land á láglendi en sjaldgæf á hálendi. Finnst mjög gjarna undir steinum í mjög fjölbreyttum búsvæðum oftast þó deigum. Algengust í deigu blómlendi og graslendi. Þursaló (Diplocephalus cristatus) er algeng á láglendi um sunnanvert landið en virðist sjaldgæf í öðrum landshlutum. Virðist vera nokkuð hitakær og er algengust í þurru graslendi og finnst gjarnan undir steinum oft í hlíðum mót suðri. Laugaló (Diplocephalus permixtus) er mjög sjaldgæf og hefur einungis fundist þrisvar í nágrenni heitra lauga og hvera og er hér á landi hugsanlega háð jarðhita en hún þolir vel seltu. Holtaló (Scotinotylus evansi) er nokkuð algeng norðanlands og á hálendi en finnst einnig á fleiri stöðum á landinu. Hún heldur sig í grasi, mosa og ýmsum lággróðri og á melum, mjög gjarnan undir steinum. Melaló (Mecynargus borealis) er sjaldséð og hefur einungis fundist á hálendi þar sem hún lifir í efsta lagi jarðvegarins og finnst því sjaldan nema í jarðvegssýnum. Móaló (Mecynargus morulus) hefur fundist nokkuð víða, er sennilega mjög algeng en finnst frekar sjaldan vegna lífshátta, öllu algegari á hálendi. Hún kýs frekar þurr búsvæði þar sem hún lifir gjarnan í efsta lagi jarðvegs og í grassverði. Kembuló (Collinsia holmgreni) mjög algeng á miðhálendinu og til fjalla og allra nyrst á landinu (Grímsey) en mjög sjaldgæf annarsstaðar þar finnst hún helst á gróskulegum svæðum svo sem í deigum móum, mýrlendi, grasvíði og ýmsum gróðri. Finnst mjög gjarnan undir steinum. Fjallaló (Collinsia spitsbergensis) lifir til jfalla í um og yfir 1000 metra hæð og finnst því sjaldan, virðist vera nokkuð algeng staðbundið, heldur sig í mosa og undir steinum hátt til fjalla. Bjarkarló (Diplocentria bidentata) hefur fundist á örfáum stöðum en mjög dreift um landið, aðallega á láglendi, í birkiskógi og kjarri og í hrísmóum og mýrum, einnig í greniskógum. Álfaló (Wabasso questio) hefur fundist við Mývatn í allmiklum mæli en er mjög staðbundin – heldur sig í frekar deigu kjarrlendi og í frekar þurru graslendi á báðum stöðum var mikill mosi í sverði. Sortuló (Erigone atra) er mjög algeng á láglendi en afar sjaldgæf á hálendi. Þetta er ein algengasta köngulóin á túnum og þó hún finnist í ýmiskonar búsvæðum er hún langalgengust í frekar deigu graslendi, séstaklega í ræktuðum túnum og bithaga. Er einnig algeng í görðum og finnst gjarna á húsveggjum, þolir seltu nokkuð vel. Finnst oft í háloftasvifi og er ein af áðurnefndum tegundum sem mynda vetrarkvíða. Blökkuló (Erigone arctica) er mjög algeng um mestallt landið á láglendi og töluvert upp á hálendi. Hún er á margskonar búsvæðum en finnst þó síst í birkiskógum, kjarri og mýrlendi. Mjög algeng víða í túnum og eining á melum. Þolir seltu vel og finnst í graslendi við sjó. Fitjaló (Erigone longipalpis) finnst oftast í votlendi og er mjög algeng staðbundið á sjávarfitjum á vestanverðu landinu hefur einnig fundist fjarri sjó á láglendi, fjarri sjó er hún algengust í mýrum og dýjum. Hún hefur ekki fundist á austanverðu landinu. Heiðaló (Erigone tirolensis) er ein algengasta tegundin á miðhálendinu, finnst einnig víða til fjalla og stöku sinnum á láglendi. Hún þrífst í deiglendi eða raka undir steinum, algengust á melum og í mossaþembum. Dýjaló (Erigone capra) finnst frekar sjaldan en er útbreidd og stundum nokkuð algeng staðbundið í votlendi t.d. við Mývatn. Finnst bæði á láglendi og nokkuð upp á hálendið. Hún þrífst best í votlendi, einkum í dýjum og mýrum en stöku sinnum í deigu graslendi og á sjávarfitjum. Mýraló (Erigone psychrophila) er staðbundin en getur verið mjög algeng í votlendi á hálendi, finnst stöku sinnum á láglendi. Hún er algengust í mýrum, dýjum og engjum. Finnst einnig einstöku sinnum á sjávarfitjum en sjaldan í mýrlendi á láglendi. Auðnuló (Latithorax faustus) hefur fundist víða og virðist vera mjög algeng, hún hefur fundist allt upp í 700 m. hæð og er sennilega víða í gróðurvinjum á hálendi. Hún finnst oftast í deigum eða blautum búsvæðum, virðist þó algeng í hrís- og runnamýrum og í kjarri og birkiskógum. Ljósaló (Islandiana princeps) er víða á hálendinu en lítið á láglendi, hún finnst sjaldan í miklum fjölda og verður að teljast frekar sjaldgæf. Hún finnst oftast á frekar gróðurrýrum svæðum, gjarnan undir steinum á melum og á heiðum. Skurðaló (Leptorhoptrum robustum) er mjög algeng um mestallt land á láglendi og upp í 6-700 m. hæð. Finnst nánast alltaf í deiglendi og er hún mjög algeng í graslendi í skurðum og á árbökkum og einnig fitjum. Einnig algeng í ýmiskonar mýrlendi, oft nærri heitum laugum, sennilega vegna rakans frekar en hitans. Hnokkaló (Drepanotylus uncatus) er mjög sjaldséð, líklega vegna lífshátta, hefur aðeins fundist á láglendi þar sem hún finnst helst í deiglendi, mýrum og engjum og í raka undir steinum. Hæruló (Leptothrix hardyi) er algeng á láglendi víða um landið þar sem hún finnst gjarnan í sendnum búsvæðum, bæði þurrum og blautum, einnig algeng í grasmóum. Freraló (Hilaira frigida) er algeng um mestallt landið bæði á láglendi og hálendi, mun algengari á hálendi og er ein algengasta hálendistegundin. Finnst í við margskonar skilyrði en oftast þó undir steinum, algengust í deiglendi en finnst þó einnig í þurrlendi og er bæði í gróðursælu og gróðurrýru landi. Fjöruló (Halorates reprobus) hefur fundist við strendur á nokkrum stöðum í kringum landið. Finnst eingöngu í sjávarfjörum og er algengust neðst á fitjum og niður í miðja fjöru. Bleikjuló (Ostearius melanopygius) hefur fundist tvívegis hér á landi í og við gróðurhús sunnanlands. Brekaló (Porrhomma convexum) er útbreidd en frekar sjaldséð. Finnst bæði á láglendi og hálendi við ýmiskonar aðstæður oftast við á frekar deigum stöðum svo sem undir steinum á árbökkum og á melum og í mosa, grasi og í gróðurleifum á skógarbotni. Hulduló (Porrhomma oblitum) hefur fundist einu sinni á Möðruvöllum í Kjós. Erlendis finnst tegundin á árbökkum og bökkum vatna á láglendi. Syrtuló (Porrhomma hebescens) hefur fundist nokkuð víða á láglendi og hálendi en hvergi í miklum fjölda. Finnst gjarnan undir steinum í deigum eða frekar þurrum gróðri, sérstaklega í graslendi eða mosaþembu en einnig þar sem gróðurþekja er lítil. Buraló (Agyneta decora) finnst víða um land á láglendi en hefur einnig fundist í Þjórsárverum í um 500 m. hæð. Er frekar algeng og finnst aðallega í deigu eða frekar þurru landi, gjarnan í gróðri þar sem mikill mosi er. Finnst undir spýtum og steinum. Mosaló (Agyneta similis) er nokkuð algeng og finnst víða á láglendi og eitthvað upp á hálendið. Er algengust í þurrum eða frekar þurrum lággróðri, gjarnan þar sem mosi er þéttur. Urðaló (Agyneta nigripes) er algeng bæði á láglendi og hálendi a.m.k. upp í 1200 m. hæð. Finnst helst á melum og sendnum ströndum sjávar og vatna og öðrum gróðurstrjálum svæðum t.d. nærri skriðjöklum, á áreyrum og víðar þar sem gróður hefur ekki numið land að fullu. Putaló (Maro lehtineni) hefur fundist einu sinni við Ytri-Sólheima, erlendis finnst hún í mosa á skógarbotnum og í ýmsum deiglendum gróðri, íslenska eintakið fannst í röku blómlendi. Nóraló (Maro minutus) er frekar sjaldgæf og hefur aðeins fundist á láglendi sunnanlands þar sem hún finnst gjarnan í mosa og jurtaleifum á skógarbotnum eða í kjarri. Einnig þar sem mosi er þéttur í sverði. Húmaló (Centromerus prudens) er sjaldséð hefur fundist á láglendi í Suðursveit en þar fyrir utan bara allra syðst á landinu og í Vestmannaeyjum. Hún þrífst í hávöxnum, gróskumiklum gróðri svo sem í hvannastóði, háliðagrasi og hávöxnu blómlendi. Hjarnló (Centromerita bicolor) fannst fyrst í Heimaey en hefur síðan fundist sunnan- og suðvestanlands og er mjög algeng þar. Finnst við mjög fjölbreytilegar aðstæður en er þó einna algengust í deigu graslendi, gjarnan á bökkum skurða og tjarna og í trjálundum, kjarri og birkiskógum. Hún er einnig mjög algeng í görðum gjarnan við húsveggi eða aðra hitagjafa. Drangaló (Saaristoa abnormis) hefur einungis fundist á litlum bletti í Drangshlíð undir Eyjafjöllum í gróskulegum gróðri í hlíð móti suðri. Væðuló (Bathyphantes gracilis) fannst fyrst við Mývatn og virðist vera þar nokkuð algeng, hefur síðan fundist nokkuð víða, hún er algengust í deiglendi eða votlendi sérstaklega í blautum skurðum og á skurðbökkum. Snæló (Bolyphantes index) er nokkuð algeng víða um landið á láglendi og upp á hálendi þar sem kjarr er að finna. Er gjarnan í gróskumiklum gróðri í þurrum eða deigum jarðvegi. Hún gerir sér gjarnan vef í snjó að vetrarlagi. Kompuló (Lepthyphantes leprosus) er algeng víðat hvar á byggðu bóli, er nátengd mannabústöðum og virðist sækja nokkuð í raka. Finnst í íbúðarhúsum en er líka algeng í gripahúsum og í gömlum torfbæjum. Finnst einnig stöku sinnum utanhúss nærri byggð. Flákaló (Lepthyphantes zimmermanni) er algeng á láglendi um allt land, aðallega neðan við 300 m. hæð. Hún er algengust í graslendi, sérstaklega hávöxnu og deigu, gjarnan á bökkum skurða. Finnst oft undir steinum og spýtum. Randaló (Lepthyphantes mengei) er mjög algeng um allt land á láglendi, sérstaklega í hrísmóum, deigum hrísmýrum, kjarri og birkiskógi. Finnst oft undir steinum og spýtum. Doðaló (Lepthyphantes pallidus) er mjög sjaldgæf, hefur aðeins fundist á stöku stað í Skaftafellssýslum í deiglendi eða skógi gjarnan undir steinum. Ranaló (Lepthyphantes complicatus) er nokkuð algeng bæði á láglendi og hálendi, hefur fundist í grasmóa, deigu graslendi, þurrkuðum mýrum, mosaþembu og í kjarri og skógum. Mjög gjarnan undir steinum og spýtum. Burstaló (Allomengea scopigera) er mjög algeng um allt land á láglendi, sérstaklega við ströndina en finnst ekki á hálendi. Finnst aðallega á bökkum fljóta, vatna, skurða og sjávar – mjög algeng á sjávarfitjum. Einnig algeng á jöðrum votlendis og í deigu kjarri en sjaldséðari í þurrari gróðri.


Krossapróf

[breyta]

Krossapróf um köngulær


Ítarefni

[breyta]

Hafa köngulær tennur?

Af hverju er fólk hrætt við köngulær?

Er hægt að stoppa upp köngulær og langfætlur?

Hvers vegna éta kvenkyns köngulær karldýrin eftir mökun?

Af hverju festast köngulær ekki í sínum eigin vef?

Hver er stærsta köngulóin í heiminum? En á Íslandi?

Er það rétt að til sé köngulóartegund á Íslandi sem getur bitið í gegnum skinn á manni?

Hvort er rétt að skrifa kónguló eða könguló?

Upplýsingar um köngulær á ensku wikipediu

Heimildir

[breyta]

Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson og Erling Ólafsson. 2002. Dulin Veröld: Smádýr á Íslandi. Reykjavík: Mál og mynd.

Hrefna Sigurjónsdóttir og Sólrún Harðardóttir. 1993. Köngulær: námsefni í líffræði fyrir 8. – 10. bekk. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Hurd, Dean. 1999. Lifandi veröld. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Ingi Agnarsson. 1996. Íslenskar köngulær. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Pöddur: Skordýr og áttfætlur. 1989. Reykjavík: Landvernd.