Fara í innihald

Hið illa auga

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Guðrún Sólonsdóttir

Þetta er wikibók um trúna á "hið illa auga". Hún er ætluð fyrir alla með áhuga á þjóðfræði.

Hið illa auga

[breyta]

Í trúnni á hið illa auga er öfund aðalaflið og getur leitt til mikillar ógæfu. Hvort sem það er öfund vegna veraldlegra eigna eins og búpenings eða fegurðar, heilsu eða barna. Algengasta form trúarinnar er það að öfundsjúk manneskja gefi annarri illt auga vegna öfundar ómeðvitað. En þetta er misjafnt milli menningarheima og þekkist einnig að fólk geti gefið illt auga og lagt álög á fólk og eigur þess. í flestum menningarheimum eru ungabörn í mestri hættu þegar illt auga á í hlut. Vegna þess að þau eru oft og iðulega lofuð og dásömuð af ókunnugum og sérstaklega barnlausum konum.

Það er einnig þekkt í löndunum kringum Miðjarðarhafið að hafa hluti ekki of fullkomna. Það er t.d. algengt að finna villur með vilja gerðar í handofnum teppum til að varna öfund og illu auga.

Útbreiðsla trúar á "hið illa auga"

[breyta]

Trúin á hið illa auga er mjög útbreidd en alls ekki almenn alls staðar í heiminum. Samkvæmt henni getur einstaklingur með augntilliti eða lofi gert það að verkum að sá sem fyrir verður veikist, deyr eða eitthvað slæmt hendir eitthvað í hans eigu t.d. húsdýr drepast. Þessi hugmynd um að illilegt augntillit geti skaðað manneskju eða eigur hennar er mjög gömul. Á þessa trú er minnst í biblíunni og textum frá Súmerum sem gerir hana minnst fimmþúsund ára gamla. Þessi trú hefur verið útbreidd allt frá Indlandi til Írlands og algeng meðal indó-evrópskra þjóða fyrr og nú. Það er einmitt þessi útbreiðsla sem þykir sýna hversu gömul þessi þjóðtrú er. Innflytjendur til nýja heimsins frá löndunum í kring um Miðjarðarhafið fluttu síðan trúna með sér yfir hafið og er hún enn í blóma meðal afkomenda þeirra þar. Trúin á hið illa auga er samt sterkust í miðausturlöndum, mið og suður Asíu og Evrópu sérstaklega Miðjarðarhafssvæðinu.

Alls kyns skartgripir og glingur eru sérstaklega algengir í Tyrklandi til varnar hinu illa auga. Litríkar perlur, armbönd, hálsfestir og ökklabönd eru framleidd til varnar hinu hilla auga. Og það er algengt að sjá allt fá smábörnum, hestum, inngöngum, farsímum og jafnvel flugvélum skreyttum táknum til varnar hinu illa auga.

Trúin á "hið illa auga" á Íslandi

[breyta]

í Eyrbyggja sögu kemur fyrir trúin á illt auga. Geirríður Þórólfsdóttir, húsfreyja í Mávahlíð kemur að Holti til Kötlu. "Geirríðr varp af sér skikkjunni ok gekk at Kötlu og tók selbelg, er hon hafði haft með sér, og færði hann á höfuð Kötlu; síðan bundu förunautar þeira at fyrir neðan.(Eyrbyggja k. 20) En þegar eitthvað er dregið yfir höfuð illþýðis er það vegna óttans við illt augnaráð og álög. Þetta kemur líka fram í Laxdæla sögu þegar ambátt tælir Stíganda útilegumann til að leggja höfuð sitt í kjöltu hennar og svæfir hann þar. Ólafur og fleiri koma þar að og bregða belg um höfuð hans. Stígandi vaknar við þetta en það vill svo til að það er gat á belgnum og sá hann út um gatið á fagra hlíð, en eftir að hann leit þangað gegnum gatið bar svo við að það var sem hvirfilbylur færi þar yfir og óx þar aldrei gras eftir þetta.(Laxdæla k. 38) Laxdæla er rituð á árunum 1230-1260 og Eyrbyggja á árunum milli 1230-1250. Í dag er kannski ekki hægt að segja að trúin á illt auga sé sterk á Íslandi en samt er oft talað um að "gefa einhverjum eða senda einhverjum illt augnaráð" og þykir ekki gott. Engir verndargripir eða hindranir eru samt notaðir í dag á Íslandi til að varna illu augnaráði.

Varnir gegn illu auga

[breyta]

Margar þjóðir eiga fjöldann allann af verndargripum gegn hinu illa auga. Í Tyrklandi eru þessir verndargripir sérstaklega almennir og finnast sem skartgripir, sem blá gleraugu hangandi utan á húsum, bílum og bátum og eru þar nefndir "Nazar". Þessir verndargripir eru til þess gerðir að endursenda hið illa auga aftur til sendandans. Þar sem bláeygt fólk er í mörgum löndum framandi og oft talið hættulegt, og talið að það sé verið að gjalda líku líkt með því að hafa augun blá. Hamsa höndin er einnig þekkt varnartákn gegn hinu illa auga og þá með bláu auga í miðjum lófanum. Hjá gyðingum er hamsa höndin kölluð "Hönd Miriam" en hjá múslimum "Hönd Fatimu". Hjá gyðingum eru fiskar taldir ónæmir fyrir hinu illa auga þess vegna eru fiskatákn einnig algeng á hamsa höndinni. Rauður þráður á að geta varið smábörn gegn hinu illa auga. Því er hjá sumum þjóðum lagður rauður þráður á kodda ungabarna þegar þau eru sýnd í fyrsta skipti.

Í Róm til forna var því trúað að reðurtákn gætu varið gegn hinu illa auga. Þessi tákn voru kölluð "fascinum" á latínu komið af sögninni fascinare. Þaðan er komin enska sögnin "to fascinate" eða "to cast a spell" eins og hinu illa auga. Meðal rómverja og afkomenda þeirra við Miðjarðarhafið hafa einnig verið notuð kynferðisleg merki, táknuð með höndum, í stað reðurtákna til varna gegn hinu illa auga. Á myndinni hérna til hægri sést illur andi (kakodaimon) við hlið hins illa auga. Hann heldur á litlu spjóti og er með horn og langan reður sem hangir milli fóta hans. Illa augað er umkringt hrafni, þríforki, sverði, sporðdreka, snák, margfætlu og hundi. Augað með þessum dýrum og vopnum í kring er talið eitt alengasta táknið til varnar hinu illa auga.

Í Grikklandi eru bænir þekktar sem vörn gegn hinu illa auga. Þá er farið með bænina þrisvar sinnum og krossmarkið gert þrisvar sinnum og loks spýtt út í loftið þrisvar sinnum. Á w:Indlandi, í Íran,Írak, Afganistan,Pakistan og fleiri löndum er fjöldi leiða þekkar til að hrekja burt áhrif og mátt hins illa auga. T.d. er það þekkt á Indlandi að setja w:Kum Kum (búið til úr möluðu túrmerik kryddi og límónu) á kinnar nýgiftra hjóna og smábarna til varnar illu auga. Þar sem börn eru yfirleitt talin fullkomin eru þau sérstaklega talin í hættu fyrir hinu illa auga. Mæður setja því oft kolalit kring um auga barna sinna til að þau séu ekki eins falleg og ella, þá eru þau ekki í eins mikilli hættu. Í Bangladesh er oft settur svartur blettur á enni barna í sama tilgangi.

Í Mexikó og Mið-Ameríku eru smábörn einnig talin í mikilli hættu fyrir hinu illa auga (mal del ojo) og eru því oft með armbönd með auga málað á sem verndargrip. Önnur vörn er að leyfa þeim sem dáðst að börnunum að koma við þau til að koma í veg fyrir öfund. Í Mexikó eru hrá hænuegg einnig notuð til varnar. Þá eru hráu eggi snúið yfir þeim sem er talinn hafa orðið fyrir illu auga. Síðan er eggið brotið í glas og skoðað. Form gulunnar er talin upplýsa hvort sá sem sendi illa augað var maður eða kona. Hjá fólki í suðvestur Bandaríkjunum af suð- og mið Amerískum uppruna er það einnig þekkt að færa egg yfir sjúkling og brjóta það síðan í skál með vatni. Krossmark er síðan gert yfir það með stráum eða öðru og sett undir höfuð sjúklings meðan hann sefur, eða þá gert krossmark yfir höfði sjúklings með skálinni. Síðan er form eggsins skoðað að morgni til að fá niðurstöður.

Alhliða vörn gegn lofi er munnvatn eða hráki. Að væta augað með munnvatni hefur verið notað í Skotlandi. Aðrar góðar varnir hafa verið háð og að gera lítið úr gjörvileika. Hvítlaukur og að nefna hvítlauk hefur einnig virkað fyrir utan alls kyns skartgripi og verndargripi sem fólk hefur á sér til að draga athyglina frá sjálfu sér.

Lof og last

[breyta]

Eins og áður sagði eru ungabörn talin í mestri hættu fyrir hinu illa auga. Það er t.d. þekkt hjá Osmanli fólkinu í Tyrklandi að láta ungabörn alveg afskipalaus en ef einhver lítur í áttina að barninu þá lætur sá yfirleitt fylgja einhver ljót orð um barnið t.d. skítugi, ljóti óþekktaranginn þinn og til öryggis er betra að spíta líka á barnið. Það þekktist svo nýlega sem á síðustu öld að mæður í Skotlandi reyndu að halda börnum sínum frá lofi annara. Til varnar ef barnið varð fyrir lofi var því stungið þrisvr gegnum pilsið sem móðirin klæddist þegar hún fæddi barnið. Fullorðnir hafa einnig hræðst lof í eigin garð og einnig hefur það verið talið hættulegt að lofa sjálfan sig of. Narcissus varð svo hrifinn að spegilmynd sinni í polli og veslaðist upp og dó. Að sýna ást og umhyggju, sérstaklega barni, gat þýtt aðdáun og gat verið banvænt vegna þess að það gat valdið afprýðisemi hjá guði.

Fólk gat einnig skaðað húsdýr sín og búpening eins og sjálft sig með of miklu lofi. Munnvatn var talin besta leiðin til varnar í Skotlandi, Íralndi og fleiri stöðum, dýrum sem urðu fyrir of miklu lofi. Það var þekkt að bleyta fingur með munnvatni og bera í auga sér eða hreinlega spýta á dýrin. Að falast eftir að kaupa dýr sem ekki var til sölu varð örugglega til þessa að dýrið mundi deyja.

Gamalt enskt orðatiltæki segir "praise the day when it is over". Í Þýskalandi, Danmörku og Íslandi er sagt "Dag skal að kvöldi lofa". Hver sem hjátrúin er að baki þessum orðum minna þau á orð heimspekingsins Solons sem sagði að ekki skyldi lofa gæfu manns meðan hún gæti enn breyst.

Heimildir

[breyta]
  • Alan Dundes: The Evil Eye: a casebook. The University of Wisconsin Press 1992
  • Laxdæla Saga. Íslenzk Fornrit V. Bindi. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Hið íslenska fornritafélag, Reykjavík MCMXXXIV
  • Eyrbyggja Saga. Íslenzk Fornrit IV. Bindi. Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út. Hið íslenska fornritafélag, Reykjavík MCMXXXV

Ítarefni

[breyta]