Taubleyjur

Úr Wikibókunum

Höfundur: Jóhanna María Þorvaldsdóttir

Þetta er wikibók um taubleyjur. Hér geta áhugasamir fræðst um sögu taubleyja, efni og tegundir þeirra.

Vissir þú að það er bæði umhverfisvænna og hagkvæmara að nota taubleyjur en bréfbleyjur? Barn sem notar einnota bleyjur notar 5000 stykki eða 240 kíló yfir bleyjutímabilið sem er u.þ.b. 2,5 ár og að hver bleyja er allt að 500 ár að eyðast úr umhverfinu?[1].

Sögulegt samhengi[breyta]

Barn með gasbleyju

Snemma á 19 öld voru eingöngu notaðar taubleyjur þær voru að mestu búnar til úr bómul eða flannel og minna þær einna helst á nútíma gasbleyjur eða ælustykki svokölluð. Þær voru brotnar saman á ákveðin hátt og síðan vafið utan um bleyjusvæði barnsins og festar með öryggisnælu. Á þessum tíma voru bleyjurnar sjaldan þvegnar, þær voru einungis þurrkaðar á milli bleyjuskipta og síðan notaðar aftur. Þegar seinni heimstyrjöldin stóð yfir í kringum árið 1940 fór fólk að gera sér betur grein fyrir mikilvægi þess að hugsa vel um húð og hreinlæti ungbarna og fór þá fyrst að sjóða gasbleyjurnar á milli bleyjuskipta [2]. Árið 1950 voru gerðar stórar breytingar á þeim þegar Hellerman kynnti og setti fram hönnun sína á prefolds bleyjum. Þá var gasbleyjan brotin saman á ákveðin hátt og auka lög af bómullarinnleggjum saumuð í miðjuna á gasbleyjunni. Innleggin komu í mismunandi stærðum og hentuðu því flestum börnum. Taubleyjurnar héldu áfram að þróast á árunum 1980-1990 með nýrri tækni. Notuð voru léttari, rakadrægari og vatnsheld ásamt því að ný snið voru kynnt til sögunnar[2]. Taubleyjur hafa þróast mikið í gegnum tíðina og eru enn þann dag í dag að þróast og breytast.

Snemma á níunda áratug 20 aldar hófu stór taubleyju fyrirtæki rekstur og var þeim tekið fagnandi sérstaklega af þeim sem höfðu áhyggjur af umhverfisáhrifum þess að nota einnota bleyjur. Árið 1995 var fyrirtækið Motherease stofnað og hóf það að selja taubleyjur í einni stærð sem passa á flest börn frá fæðingu og þar til þau hætta að nota bleyju[2].

Efni í taubleyjum[breyta]

Efni sem notuð eru í taubleyjur eru einna helst pólýester efni eða pul efni sem er vatnshelt efni og hylur bleyjuna að utan. Stundum er einnig notast við hlíf úr ull yfir bleyjuna sjálfa. Efnið sem er næst barninu er ýmist úr bómull, flís, hamp eða bambus svo dæmi séu tekin. Það er einnig mjög vinsælt að efnið sem er næst húð barnsins sé úr efni sem hleypir öllum raka í gegnum sig og heldur þannig húð barnsins þurri[3]

Nútíma taubleyjur[breyta]

Taubleyja með riflás

Taubleyjur í dag eru mjög frábrugðnar þeim sem tíðkuðust hér áður fyrr. Þó eru gömlu gasbleyjurnar enn í notkun en ýmsum nýjungum hefur verið bætt við þær, til dæmis hefur öryggisnælunum verið skipt út fyrir sérstakar bleyjufestingar til þess að halda bleyjunni saman. Yfir gasbleyjuna nota flestir hlíf eða skel úr vatnsheldu efni til þess að halda bleyjunni betur saman en einnig til þess að koma í veg fyrir að bleyjan blotni í gegn. Flestar nútíma taubleyjur hafa annað hvort riflás sem má að sumu leyti líkja við þær festingar sem eru á bréfbleyjum eða smellur.

Taubleyju tegundir[breyta]

Taubleyjur eru í dag gríðarlega fjölbreyttar. Helstu snið taubleyja eru vasableyjur, allt í einni eða svokallaðar AIO bleyjur og allt í tveimur eða AI2 bleyjur. Taubleyjur einnig í fjölbreyttum stærðum og gerðum, því það getur verið misjafnt hvaða bleyjur henta hverjum og einum einstaklingi. Einnig er hægt að fá bleyjur sem hægt er að stækka og minnka allt eftir þörf þeirra sem notar þær.

Allt í einni bleyja


Vasableyjur:Ytra lag bleyjunnar er úr pul efni og innra lagið er oftast nær úr efnum sem hleypa vökva í gegnum sig, en það getur einnig verið úr náttúrulegum efnum. Þessi tvö efni eru saumuð saman nánast allan hringinn, en skilin er eftir rifa til þess að setja innleggið í. Þetta er einskonar vasi og þaðan dregur bleyjan nafn sitt. Innleggið er stór renningur sem minnir einna helst á stórt dömubindi.

Allt í tveimur bleyja

Allt í einni (e. AIO) Þessi gerð taubleyja er sú bleyja sem líkist einnota bleyjum einna helst. Þá er búið að sauma bleyjuna og innleggið saman, en það er misjafnt hvernig það hefur verið gert. Stundum er búið að sauma allt innleggið fast í bleyjuna, stundum að hluta og stundum er innleggið smellt í svo hægt sé að taka innleggið frá þegar það er þvegið en með því móti er bleyjan fljótari að þorna eftir að hafa verið þvegin. Mjög oft er líka vasi á svona bleyjum svo hægt sé að bæta við auka innleggi til að auka rakadrægni bleyjunnar enn frekar.

Allt í tveimur (e. AI2) samanstendur af vatnsheldri hlíf úr pul efni og innleggi, þá er innlegginu smellt í skelina eða sett undir flipa á skelinni. Helsti kosturinn við þetta kerfi er að ekki þarf að þvo alltaf alla bleyjuna heldur er einungis skipt um innlegg og sama skelin notuð aftur og aftur. Þessi gerð taubleyja tekur minnsta plássið svo í stað þess að ferðast til dæmis með fimm bleyjur er er hægt að hafa 1 hlíf og 5 innlegg.

Fitted bleyjur eru bleyjur úr mjúku rakadrægu efni til dæmis bómull, stundum eru þær með föstum innleggjum aðrar eru með vasa fyrir auka innlegg og sumar eru ekki með neinu innleggi. Gjarnan eru settar vatnsheldar hlífar yfir slíkar bleyjur.

Þvottur og umhirða[breyta]

Óhreinar bleyjur er gott að geyma í bleyjupoka úr pul efni eða í bleyjufötu. Þær eru ýmist geymdar í vatni eða ekki. Það er ekki nauðsynlegt að bleyjurnar séu geymdar í vatni vegna þess að þvottavélar í dag eiga að vera það góðar að bleyjurnar þurfa ekki að liggja í bleyti áður en þær eru þvegnar. Einnig er hægt að setja þvottavélar á auka skol til þess að skola aukalega úr bleyjunum ef þess er þörf .

Framleiðendur Pul efna mæla sumir gegn því að þvo bleyjurnar á hærra hitastigi en 40 gráðum vegna aukinnar hættu á að efnið aðskilji sig og að smellur bráðni. Hver og einn framleiðandi setur fram ákveðnar þvottaleiðbeiningar fyrir sínar bleyjur sem gott er að kynna sér vel. Almennt má þvo bleyjurnar á 40 gráðum og margar á 60 gráðum. Innlegg má flest setja á suðu eða á 60 gráður. Mikilvægt er að nota mild þvottaefni eins og t.d. neutral til að koma í veg fyrir ofnæmiseinkenni. Forðast skal notkun mýkingarefna vegna þess að það gerir innra lag bleyjurnar vatnshelt[4]. Eins skal forðast notkun bleikiefna, klór er afar óumhverfisvænt efni ásamt því að geta valdið vondum fnyk. Í sumum þvottaefnum er að finna ensím eða lífhvata sem notað er til þess að brjóta upp óhreinindi. Þetta efni sest í bleyjurnar og verður ekki virkt fyrr en bleyjurnar blotna sem kemur fram í útbrotum þegar börnin væta bleyjuna. Það þarf ekki að nota fullan skammt af þvottaefni vegna þess að á Íslandi höfum við kalklítið vatn. Það getur einnig verið slæmt að nota ekkert þvottaefni vegna þess að þá hreinsast bleyjurnar ekki nægilega vel. Það er sýra í þvagi sem verður að ná úr bleyjunum í þvotti og ef hún næst ekki úr getur hún safnast upp og valdið ertingu.

Sumir kjósa að þvo innlegg og bleyjur sér en það fer eftir því hvað hverjum og einum þykir þægilegast. Þegar sólin skín er tilvalið að hengja bleyjurnar út til þerris og láta sólina sjá um að þurrka þær enda er sólarljósið náttúrulegur blettaeyðir. Sumir kjósa hins vegar að setja bleyjur og innlegg í þurrkarann. Það eru til taubleyjur sem þola ekki að fara í þurrkara en það ættu að vera viðeigandi merkingar á þeim sem segja til um það. Ef enn er lykt af bleyjunum eftir þvott getur verið gott að þvo bleyjurnar aukalega með því að setja þvottavélina á langt prógramm á þvottavélinni eða setja matarsóda í hólfið þar sem mýkingarefnið fer vanalega.

Krossapróf[breyta]

1 Hvers konar taubleyjur voru notaðar snemma á 19.öld?

Prefolds bleyjur
Gasbleyjur
Allt í tveimur bleyjur

2 Hvenær fór fólk fyrst að sjóða taubleyjurnar á milli notkunar?

Þegar fyrri heimstyrjöldin reið yfir
Þegar seinni heimstyrjöldin reið yfir
Á seinni hluta 19 aldar

3 Allt í einni bleyjur___

Samanstanda af lausu innleggi og skel
Eru bleyjur þar sem innleggið er sett ofan í vasa
Eru bleyjur sem líkjast hve mest einnota bleyjum

4 Mýkingarefni gerir

Bleyjurnar mýkri
Bleyjurnar vatnsheldar
það að verkum að auðveldara er að brjóta þær saman


Heimildir og ítarefni[breyta]

  1. Landvernd og Umhverfisráðuneytið. (2008). Skref fyrir skref  upplýsingarit um vistvænan lífstíl fyrir fólk eins og mig og þig. sótt afhttps://www.stjornarradid.is/media/umhverfisraduneyti-media/media/pdf_skrar/skreffyrirskref.pdf
  2. 2,0 2,1 2,2 Diaperjungle. (2016, 1.október) The History of Diapers - Disposable and Cloth. sótt af https://www.diaperjungle.com/pages/history-of-diapers
  3. The natural baby company. (e.d.). Common materials used in cloth diapers. Sótt af https://www.thenaturalbabyco.com/pages/common-materials
  4. Hulda María Hermannsdóttir. (e.d.) Meðhöndlun taubleia). Sótt af https://obbossi.is/thvottaleidbeiningar/

Duna Nova. (2012, 9.júlí). Taubleyju/taubleiu upplýsingar á Íslensku! [myndskeið]. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=U2wcC1E2I-g