Spænska í Mexíkó

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema
Mynd:800px-MexicoCity2.jpg
Séð yfir Mexíkóborg

Höfundur María Hjálmtýsdóttir

(Heimildir fengnar af Wikipedia)

Mexíkóborg er ein stærsta borg í heimi með yfir 20 milljónir íbúa á höfuðborgarsvæðinu, en í landinu öllu búa í dag yfir 100 milljónir. Höfuðborgin, sem í dag heitir á frummálinu Ciudad de México, var einnig höfuðborg Aztekanna áður en Spánverjar komu til landsins og þá hét hún Tenochtitlán.

Aztekarnir í Tenochtitlán töluðu (og margir tala enn) indíánamálið Nahuatl. Úr Nahuatl má finna ýmis orð sem er að finna í spænsku allstaðar í dag, en einnig koma þaðan orð sem við þekkjum jafnvel í íslensku, s.s. súkkulaði (xocolātl), tómatur (xitomatl), Chili (chilli), kakó (cacahuatl) og fleira. Spænskan sem notuð er í Mexíkó er þó undir mun meiri áhrifum af Nahuatl en standard spænskan í heiminum og blandast hin ýmsu orð inn í málið þar sem öðrum þætti erfitt eða jafnvel ómögulegt að skilja.


Tungumál töluð í Mexíkó

Helsta tungumál sem talað er í Mexíkó er spænskan. Spænskan er opinbert tungumál landsins, en hin rúmlega 60 índíánamál sem eru töluð af frumbyggjum eru einnig skráð sem opinber tungumál Mexíkó.

Nahuatl er þar stærst allra en talið er að rúmlega 37 þúsund íbúa í Mexíkóborg einni eigi Nahuatl að móðurmáli og tali málið að staðaldri.


Helstu indíánaþjóðir í Mexíkó

Þjóð Fjöldi

Náhuatl 2.445.969

Maya 1.475.575

Zapoteco 777.253

Mixteco 726.601

Otomí 646.875

Totonaca 411.266

Tzotzil 406.962

Tzeltal 384.074

Mazahua 326.660

Mazateco 305.836


Spænska

Spænskan er rómanskt tungumál og er eitt af sex opinberum tungumálum Sameinuðu þjóðanna. Hún er þriðja mest talaða tungumálið í heiminum og er töluð af u.þ.b. 460 milljónum manns.

Hin upprunalega útgáfa af spænskunni er komin úr latínu, en þrátt fyrir ýmiskonar þróun málsins er grunnurinn allstaðar sá sami í dag. Hin ýmsu spænskumælandi lönd hafa þó þróað með sér mismunandi áherslur, framburð og heiti yfir ýmsa hluti. Að auki má greina áhrif frá tungumálum frumbyggja Ameríku í orðaforða hvers lands fyrir sig.

Land Fjöldi spænskumælandi
1 Mexíkó 106,255,000
2 Kólumbía 46,500,000
3 Spánn 44,000,000
4 Argentína 41,248,000
5 Venezuela 26,021,000
6 Perú 23,191,000
7 Chile 15,795,000
8 Kúba 11,285,000
9 Ecuador 10,946,000
10 Dóminíkanska Lýðveldið 8,850,000
11 Guatemala 8,163,000
12 Hondúras 7,267,000
13 Bólivía 7,010,000
14 El Salvador 6,859,000
15 Nicaragua 5,503,000
16 Paraguay 4,737,000
17 Costa Rica 4,220,000
18 Puerto Rico 4,017,000
19 Uruguay 3,442,000
20 Panama 3,108,000
21 Filipseyjar 3,180,000
22 Miðbaugs Gínea 447,000

Spænskan í Mexíkó

Mexíkóborg var lengi miðpunktur einnar helstu nýlendustjórnar Spánverja í rómönsku Ameríku á svæði sem náði frá miðju þess sem í dag eru Bandaríki Norður-Ameríku og niður til Panama í suðri. Hið stjórnmálalega mikilvægi borgarinnar átti stóran þátt í útbreiðslu þeirrar spænsku sem nýlenduherrarnir töluðu á þessu svæði, en þeir komu að mestum hluta frá Castilla héraði á Spáni.

Muninn á spænskunni sem töluð er í Mexíkó í dag og þeirri spænsku sem er töluð á Spáni mætti helst bera saman við muninn sem er á ensku í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Í Mexíkó eiga sérhljóðar til að veikjast á meðan samhljóðar eru skýrt bornir fram. Það er talið vera vegna áhrifa hins flókna kerfis samhljóða sem ríkir í Nahuatl. R og s eru yfirleitt borin skýrt fram og þá eiga sérhljóðarnir til að hverfa, sbr: Cómo ’stás, 'cómo estás’, nec’sito, ‘necesito’, palabr’s ‘palabras’, much’s gras’s, ‘muchas gracias’ (þýð. hvernig hefurðu það?, ég þarf, orð, kærar þakkir). Þessi framburður er þó ekki talinn ,,fínn" þó svo að hann sé algengur.

Eins og annarstaðar í spænskumælandi Ameríku er c (á undan e og i) og z ekki borið fram eins og hið íslenska þ, en það tíðkast næstum eingöngu á Spáni.

Algengt er á ýmsum svæðum þar sem töluð er spænska að s í enda orða veikist eða hverfur. Sá framburður er ekki ríkjandi í Mexíkó, þó svo að það megi finna á svæðum við strendur landsins. Sérstaklega er þetta veika s algengt í Karabíahafinu, á Kúbu, Puerto Rico, Dóminíkanska lýðveldinu og á þeim svæðum Venezuela og mið-Ameríku sem liggja við hafið.

Annað einkenni spænskunnar við Karabíahafið er brottfall stafsins d á milli tveggja sérhljóða, sbr: „amado“, „partido“ og „nada“ yrði „amao“, „partío“ og „naa“ (þýð. elskaður, flokkur, ekkert) Í Mexíkó þykir hið síðarnefnda merki um „lélega“ spænsku.

Á Spáni er persónufornafnið „þið“ (2. p. ft.) - vosotros, en ustedes í þérun. Í Mexíkó eins og á flestum stöðum spænskumælandi Ameríku er vosotros ekki notað, en ustedes er notað hvort sem um þérun er að ræða eða ekki. „Þú“ - (2.p.et), er almennt notað, en usted er notað þar sem venja er að þéra þá sem eldri eru eða þá sem tilheyra hærri stöðu en sá sem talar (s.s. yfirmaður, kennari, stjórnmálafólk, tengdaforeldrar).

Eitt af fjölmörgum sérkennum spænskunnar í Mexíkó (og á einstaka svæðum í mið-Ameríku) er sú venja að svara með ¿Mande? þegar viðkomandi hefur ekki heyrt og vill láta endurtaka það sem sagt er, eða sem svar ef kallað er á einhvern. Þetta er komið af sögninni mandar (að skipa) eins og mándeme usted (skipið þér mér fyrir). Fleiri dæmi um sérkenni væru orð eins og !Aguas! (passaðu þig!, bókstafleg þýðing: vötn), Chamaco eða esquincle (strákur), güero (maður ljós yfirlitum), naco (óheflaður maður, lúði, ósmekklegur), Órale (ókey, flott, skrýtið, oflr.) og margt fleira.

Mexíkó er stórt land og svæðisbundinn munur er á spænskunni sem þar er töluð. Þrátt fyrir að hin staðlaða útgáfa sem notuð er opinberlega sé skiljanleg öllum er einhver munur á orðaforða og málfræði á milli svæða. Sem dæmi er „bollo“ notað yfir ákveðna tegund af brauði í Mexíkóborg en á Yucatán skaga er sama orð notað yfir hægðir. Í Chiapas héraði er „mecos“ notað yfir ljóst fólk á meðan hið sama er notað á ófágaðan hátt í Mexíkóborg um sæði eða hor. „Mecos“ þýðir hins vegar skítug manneskja í Morelos héraði.

Í Mexíkó eru minnkunarendingar (-ito og -ita) og stækkunarendingar (-ote eða -ota) mikið notaðar, sbr. cafecito, cervecita, chavito (kaffi, bjór, strákur), en einnig er minnkunarendingin sett aftan við nöfn, oft á börnum eða til að sýna væntumþykju, sbr. Marcos = Marquitos, Juan = Juanito eða Ana = Anita. Endingarnar eru oft endurteknar svipað og þegar á íslensku er talað um að eitthvað sé pínupínupínulítið sem í Mexíkó væri þá chiquititititita (endinguna má endurtaka eins oft og vill).

Albur

Ekki aðeins er hægt að greina hvaðan úr Mexíkó fólk er eftir því hvernig það talar. Einnig má greina mun á því hvernig talað er eftir því hvaða stétt viðkomandi tilheyrir. Í Mexíkóborg hefur orðið til ákveðin lágstéttarútgáfa af spænsku á meðal verkamanna sem vildu geta talað um kynlíf án þess að kirkjunnar menn eða siðprúðar konur skiptu sér af. Byrjað var að beita tvöfaldri meiningu orðanna þannig að orð sem þýðir eitt var notað í staðinn fyrir orð sem þýðir eitthvað annað en hljómar svipað. Úr þessu hefur myndast svokallað Albur sem er klúrt götumál sem flest ungmenni á höfuðborgarsvæðinu skilja í dag þó svo að spænskumælandi fólk frá öðrum löndum og jafnvel öðrum svæðum í Mexíkó skilji það ekki. Ástæða þess að aðrir geta ekki skilið þó svo að orðin séu á spænsku er hin tvöfalda meining sem orðin hafa en ekki er auðvelt að sjá í gegnum meininguna fyrir óvana.

Spænsk orð fengin úr Nahuatl

Quetzalcoatl einn helsti guð Aztekanna
Súkkulaði er upprunalega frá Mexíkó

Eftir aldalanga sambúð tungumálanna tveggja í Mexíkó (Nahuatl og spænsku), hafa ýmis orð verið fengin að láni í báðar áttir. Mörg þeirra orða sem voru fengin að láni inn í spænskuna eru nöfn á dýrum, plöntum og mat frá mið-Ameríku sem engin orð voru til yfir á spænsku, enda óþekkt í Evrópu á þeim tíma. Eftirfarandi er listi yfir orð sem notuð eru í spænsku í dag og komin eru úr Nahuatl. Svigarnir á eftir orðunum þýða: (A)- orðið er notað í almennri spænsku eða(M)- orðið er bara notað í spænsku í Mexíkó.


Dýr

  • Chapulín (A) (chapol-in)= Engispretta.
  • Coyote (A) (coyō-tl)= Sléttuúlfur.
  • Guajolote (M) (wueh-xōlō-tl)= Kalkúni (Í almennri spænsku kallaður pavo).

Ávextir og grænmeti

Lárpera
  • Aguacate (A) (āwaka-tl 'eista')= Lárpera.
  • Cacao (A) (kakawa-tl)= Kakó.
  • Chile (A) (chīl-li)= Chili.
  • Elote (M) (ēlō-tl)= Maísstöngull.
  • Jitomate/Tomate (A) (xīx-toma-tl / toma-tl)= Tómatur.

Matur og drykkur

Staðarnöfn

  • Guatemala (kwaw-temal-lan 'Þar sem mikið er af örnum').
  • Mexico.
  • Michoacán (michoa-kān 'Staður fiskimannanna').
  • Nicaragua (Nika(n)-nāwac 'Nálægt staðnum').
  • Azteca (A) (asteka 'Frá Aztlán').

Krossapróf

1 Fjöldi íbúa í Mexíkóborg er um og yfir

4 milljónir
10 milljónir
16 milljónir
20 milljónir

2 Nahuatl er

Frægur trúarleiðtogi
Forn helgistaður
Indjánamál
Helgirit

3 Albur er tungumál sem er

klúrt götumál þar sem orð hafa tvöfalda merkingu
mállýska sem sem töluð er í norðurhluta Mexíkó
táknmál og tímatal í Mexíkó
opinbera tungumálið meðal embættismanna

4 Ef orð endar á -ito og -ita þá veistu að

það fjallar um eitthvað sem gerist í nútímanum
það er smækkandi ending
það er sögn sem er dregin af nafnorði
það er kvenkyns orð


Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: