Fara í innihald

Hvít blóðkorn

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Gyða Hrönn Einarsdóttir

Hvít blóðkorn eru einn hluti blóðsins okkar, önnur efni sem eru í blóðinu eru rauð blóðkorn, blóðflögur og blóðvökvi. Hvítu blóðkornin skiptast í margar tegundir og gegna misjöfnum hlutverkum en þau eru meginuppistaðan í ónæmiskerfi líkamans og taka stóran þátt í vörnum líkamans gegn sýkingum. Eðlilegur fjöldi hvítra blóðkorna er í kringum 4,0 – 10,5 milljarður blóðkorn í einum lítra af blóði en hlutfall hverrar tegundar er misjafnt eftir aldri, sem dæmi um það þá er hlutfall eitilfrumna hærra hjá börnum á aldrinum nýfædd til tveggja ára en hjá eldri börnum og fullorðnum. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir flokkun hvítra blóðkorna og lýsing á helstu hlutverkum þeirra.

Mynd úr rafeindasmásjá, talið frá vinstri, rautt blóðkorn, blóðflaga og hvítt blóðkorn.

Flokkun.

[breyta]

Blóðkornunum er oft skipt í tvo flokka, kleyfkjarnafrumur (polymorphonuclear cells) og hnattkjarnafrumur (mononuclear cells). Kleyfkjarnafrumur hafa klofinn, eða skiptan kjarna og til þess flokks teljast kornfrumur eða kornóttar hvítfrumur. Til hnattkjarna frumna teljast eitilfrumur og hnattkjarna átfrumur. Eftirfarandi mynd skýrir tengsl og útlit þessara frumna nánar.

Kornfrumur.

[breyta]

Basafruma Daufkyrningur - fullþroska skiptur kjarni Daufkyrningur - staflaga kjarni Rauðkyrningur

Kornfrumur skiptast í þrjár tegundir sem þroskast allar frá sömu móðurfrumunni. Þær hafa ákveðin sameiginleg einkenni, korn í umfrymi, og þroskast á sama hátt. Það sem aðgreinir þær í útliti er litur kornanna í umfryminu. Dauffrumur/daufkyrningar eru ljósar, með litlaust umfrymi og fíngerð, blá eða rauð korn. Sýrufrumur/rauðkyrningar eru með grófari, rauð korn og venjulega með tvískiptan kjarna. Basafrumur/lútsækin korn eru með mjög gróf, blá korn í umfryminu.

Útlit.

[breyta]

Fullþroskaðar dauffrumur eru með skiptan kjarna sem litast blár í blóðstroki, umfrymið er að mestu litlaust og þaðan er enska nafnið komið (neutrophil). Í umfryminu er samt að finna korn ýmist blá eða rauð, sem eru þó ekki mjög áberandi. Þessar frumur eru undir venjulegum kringumstæðum á bilinu 25 - 75% af hvítum blóðkornum í blóðstroki. Þegar frumurnar eru ekki alveg fullþroska er kjarninn bjúglaga, ekki orðinn alveg skiptur, og kallast frumurnar þá stafir. Það er eðlilegt að sjá nokkrar slíkar frumur í blóðstroki, yfirleitt undir 5% Rauðkyrningar eru með mjög áberandi og gróf rauð korn í umfryminu, þau eru venjulega ekki fleiri en 7% í eðlilegu blóðstroki og kjarninn er tví eða þrískiptur. Basafruma er með gróf blá korn í umfryminu, oft getur verið erfitt að sjá kjarnann en hann er venjulega tví- til fjórskiptur.

Hlutverk.

[breyta]

Hlutverk kornfrumnanna er að berjast gegn bakteríum og öðrum aðskotahlutum sem þær komast í kast við. Frumurnar hafa þó örlítið mismunandi hlutverk í ónæmiskerfinu eftir því af hvaða tegund fruman er. Dauffrumur eru átfrumur sem eru með bakteríudrepandi efni í kornunum í umfryminu. Þetta eru þær frumur sem fyrstar koma á vettvang þegar vart verður við bakteríur og þær losa kornin úr umfryminu, efnin festast á bakteríurnar og gera þeim og öðrum átfrumum kleyft að taka húðuðu bakteríurnar upp í umfrymið og eyða þeim þannig úr blóðrásinni. Einnig eru þeir með ýmis boðefni sem kalla á aðrar frumur ónæmiskerfisins og fleiri átfrumur. Rauðkyrningar gegna stóru hlutverki í baráttunni gegn veirum og sníkjudýrum, þeir hafa líka hlutverki að gegna í ofnæmisviðbrögðum líkamans og oft má sjá aukningu rauðkyrninga hjá þeim sem hafa króníska bólgusjúkdóma eða asthma. Í granúlum sínum hafa rauðkyrningar meðal annars svokölluð cytokines sem eru prótein sem koma af stað og virkja ónæmiskerfið. Basafruma flytur histamín og önnur prótein ónæmiskerfisins um blóðrásina en histamín er eitt lykilefnið í ónæmissvari líkamans, basafrumur gegna því stóru hlutverki í bólgusvari.

Hnattkjarna átfrumur.

[breyta]

Útlit.

[breyta]

Hnattkjarna átfrumur hafa eins og nafnið gefur til kynna hnöttóttan kjarna, ekki skiptan en þó ekki alveg hringlaga. Flestar hnattkjarna átrumurnar eru svipaðar á að líta í blóðstroki, þær hafa bláan kjarna, oft svolítið teygðan, jafnvel í fellingum og ljósfjólublátt umfrymi, stundum holótt. Átfrumurnar eru í blóðrásinni í einn til þrjá daga og flytja sig svo út í vefi. Í eðlilegu blóðstroki eru hnattkjarna átfrumur oft á bilinu 3-9% af heildarfjölda hvítra blóðkorna. Á meðan frumurnar eru í blóðrásinni eru þær oft kallaðar smáætur. Þegar frumurnar eru komnar í vefina breytast þær í mismunandi tegundir stóræta eftir staðsetningu vefs.

Hlutverk.

[breyta]

Smáætur taka upp bakteríur líkt og dauffrumur, þessari virkni þeirra er stundum líkt við ryksugun. Smáætur eru þó lengur í blóðrásinni en dauffrumur. Þessar átfrumur hafa líka annað hlutverk, þær taka part af bakteríunum, svokallaða mótefnavaka og sýna þá T-eitilfrumum sem búa til sértæk mótefni fyrir þessa tilteknu vaka, þetta er hluti af frumumiðlaða ónæmiskerfinu. Stórætur (í vefjum) eru kallaðar þangað af öðrum frumum sem senda frá sér boðefni sem stóræturnar bregðast við. Þetta geta verið allir staðir þar sem eitthvað þarf að hreinsa upp í líkamanum, leifar dauðra frumna, leifar úr sári sem er að gróa, bakteríuleifar eða hvað sem er. Þegar stóræturnar koma á staðinn þá taka þær leifarnar upp í umfrymi sitt, melta það og gera skaðlaust. Sumar stórætur eru fastar í ákveðnum vefjum, aðallega vefjum þar sem mikið er um utanaðkomandi áreiti sem og hreinsistöðvar líkamans, og hafa þá sértækt útlit og nafn. Í lungum heita þeir til dæmis dust cells og hreinsa meðal annars í burtu ryk úr lungunum.

Eitilfrumur.

[breyta]

eitilfrumavirkjaðar eitilfrumurplasma fruma

Útlit.

[breyta]

Í blóðstroki eru eitilfrumur með þéttan dökkan, yfirleitt nokkuð hringlaga kjarna og ljósblátt umfrymi. Í venjulegri eitilfrumu er kjarnin ámóta stór rauðu blóðkorni, um það bil 7µm í þvermál. Einnig geta þó sést eitilfrumur sem eru með miklu meira umfrymi og teygjast að næstu frumum, kantur umfrymisins er oft dekkri eða jafvel allt umfrymið, þetta eru virkjaðar eitilfrumur sem geta haft töluvert mismunandi útlit og það er algengt að þeim fjölgi í veirusýkingum, en það getur einnig sést aukning á þeim við annars konar ástand í líkamanum. Undir eðlilegum kringumstæðum eru eitilfrumur á bilinu 18 - 54% af heildarfjölda hvítra blóðkorna í blóðstroki. B-eitilfrumur geta þroskast í plasma-frumur sem venjulega sjást ekki í blóðstroki, þær hafa sérstakt einkennandi útlit, hliðlægan kjarna og ljósari baug í umfryminu nálægt kjarnanum. Ekki er hægt að greina aðrar eitilfrumur í undirtegundir með blóðstroki, til þess þarf að nota aðrar aðferðir og greina ákveðnar sameindir á yfirborði frumnanna.

Hlutverk.

[breyta]

Það eru þrjár tegundir eitilfrumna sem skiptast eftir hlutverkum. Þetta eru drápsfrumur, T-eitilfrumur and B-eitilfrumur. Drápsfrumur eru hluti af frumumiðlaða ónæmiskerfinu og þær ráðast á sýktar frumur sem sýna framandi prótein á yfirborði sínu vegna vírussýkinga. Um leið og þær finna veirusýkta frumu losar drápsfruman frumudrepandi efni úr granúlum sínum sem eyða sýktu frumunni. Þessar frumur eru skilgreindar sem stórar eitilfrumur, oftast kornóttar, sem drepa frumur án þess að hafa vakasértækan viðtaka en það þýðir að ekki þarf að virkja drápsfrumur sérstaklega áður en þær geta sinnt hlutverki sínu en B- og T- eitilfrumurnar þarf að virkja áður með því að sýna þeim mótefnavaka sem eru utanaðkomandi. T-eitilfrumurnar gegna einnig stóru hlutverki í frumumiðlaða ónæmiskerfinu en B-eitilfrumurnar eru aftur á móti þáttakendur í vessaborna ónæmiskerfinu þar sem mótefni eru aðal miðillinn. B-eitilfrumurnar eru skilgreindar sem önnur megingerð eitilfrumna sem tjáir himnubundið mótefni sem vakaviðtaka og getur seytt samsvarandi mótefni eftir ræsingu. T- og B-eitilfrumurnar eru ólíkar Drápsfrumunum að því leyti að þær eru líka minnisfrumur (bæði B- og T-eitilfrumurnar) og taka þátt í áunna ónæmsikerfinu, þær muna hvaða sýkingar líkaminn hefur fengið svo hægt sé að bregðast hraðar og kröftugar við sýni sýkillinn sig aftur. B-eitilfrumur geta þroskast í plasmafrumur sem eru mjög virkar og seyta miklu magni af mótefnum. T-eitilfrumur verða einnig mjög virkar í návist mótefnavaka og seyta ýmsum próteinum.

Orðalisti.

[breyta]

Hér á eftir fylgir ganglegur orðalisti þar sem ensku heiti frumnanna eru þýdd yfir á íslensku með hjálp orðabanka íslenskrar málstöðvar sem byggir meðal annars á íðorðasafni lækna.

Krossapróf:

[breyta]

1 Hvaða kornfrumur hafa dökkblá gróf korn í umfryminu og hvert er innihaldið?

Rauðkyrningar og kornin innihalda meðal annars histamín.
Daufkyrningar og í kornunum eru boðefni.
Basafrumur og kornin innihalda meðal annars histamín.
Basafrumur og kornin innihalda meðal annars cytokín og boðefni.
Daufkyrningar og kornin eru cytokín.

2 Við hvaða frumu á þessi lýsing best við: „Fruman hefur þéttan kjarna sem er á stærð við rautt blóðkorn og yfirleitt lítið bláleitt umfrymi."

Smáætu.
Kornfrumu.
Eitilfrumu.
Stórætu.
Dauffrumu.

3 Hvaða frumur taka þátt í vessaborna ónæmiskerfinu?

Eitilfrumur.
Stórætur.
Dauffrumur.
B-eitilfrumur.
Rauðkyrningar.

4 Rauðkyrningar eru

Með gróf rauð korn í umfryminu sem eru full af histamíni.
auknir hjá þeim sem eru mað asthma og bakteríusýkingar.
Með skiptan kjarna.
oft með loftbólur í umfryminu sem myndast þegaqr þær éta bakteríur og aðra aðskotahluti.
Með þéttan kjarna á stærð við rautt blóðkorn og rauð korn í umfryminu.

5 Eftirfarandi frumur eru átfrumur og eru fyrstar á vettvang og byrja að taka upp aðskotahluti og senda frá sér boðefni sem kalla á aðrar átfrumur.

Dauffrumur.
Stórætur.
Smáætur og Stórætur.
Smáætur.
Dauffrumur og Smáætur.

6 Eitilfrumur eru

Í eitlunum.
Af nokkrum tegundum sem flokkast eftir viðtökum á yfirborði þeirra.
Kornfrumur sem bera mótefni.
Átfrumur með kringlóttan kjarna á stærð við rauð blóðkorn.
Drápsfrumur.

7 Hvít blóðkorn eru flokkuð eftir hlutverkum sínum og útliti. Hvaða frumur eru átfrumur sem sjást ekki í blóðstroki en eru staðsettar í vef.

Eitilfrumur.
Smáætur.
Stórætur.
Rauðkyrningar.
Dauffrumur.

8 Eðlilegur fjöldi hvítra blóðkorna í heilbrigðum fullorðnum einstaklingi er

2.0 - 15.0 milljón frumur í blóðinu.
6.0 - 10.0 milljón frumur í einum lítra blóðs.
4.0 - 8.0 milljón frumur í einum millilítra blóðs.
4.0 - 10.5 milljón frumur í hverjum líter blóðs.
6.5 milljón frumur í hverjum millilítra blóðs

9 Hvaða frumur eru sérhæfðar til að berjast við veirur?

Dauffrumur.
Eitilfrumur.
Kornfrumur.
Dauffrumur og átfrumur.
Smáætur.

10 Hvaða frumur eru sérhæfðar til að berjast við bakteríur?

Dauffrumur og átfrumur.
Eitilfrumur.
Smáætur
Dauffrumur.
Kornfrumur.


Hér er sama krossapróf úr námsefninu á Hot potatos formi:

Krossapróf

Heimildir:

[breyta]

Heimildir eru fengnar af ensku wikipedia, úr íðorðasafni lækna og myndir úr wikicommons. Hægt er að nálgast það sem ekki var tengt í greininni á eftirfarandi tenglum:

Íðorðasafn lækna - http://herdubreid.rhi.hi.is:1026/wordbank/search

Enska wikipedia - http://en.wikipedia.org

Wikicommons - http://commons.wikimedia.org

Athugasemdir höfundar:

[breyta]

Þessi wikibók er verkefni mitt í áfanga í Kennaraháskóla Íslands sem nefnist Kennarinn í starfi, en verkefnið var að útbúa námsefni á vef. Ég tel wikibókina nú fullunna en ávallt er samt hægt að bæta og breyta.

Gyða Hrönn Einarsdóttir.

--Gydaeina 09:59, 24 apríl 2007 (UTC)

Ég bætti við krossaprófinu á quiz formi --Salvör Gissurardóttir 4. október 2007 kl. 20:26 (UTC)