Fara í innihald

Fæðingarþunglyndi

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Svava Guðrún Sigurðardóttir

Þetta er wikibók um fæðingarþunglyndi, einkenni þess og meðferðarúrræði.

Með hvaða hætti er líðan kvenna í kjölfar fæðingar? Menn kynnu að álíta sem svo að þá ríkti eintóm hamingja og taumlaus gleði enda meðgangan að baki og barnið komið í heiminn. Raunin er hins vegar sú að þetta tímabil er konum oft á tíðum mjög erfitt og mun algengara er að þær þjáist af andlegri vanlíðan stuttu eftir fæðingu en á öðrum tímabilum ævinnar.

Vanlíðan eftir fæðingu[breyta]

Mun algengara er að konur þjáist af andlegri vanlíðan í kjölfar fæðingar en á öðrum æviskeiðum. Meðal mögulegra áhrifaþátta eru hormónabreytingar, sálrænir og félagslegir þættir, þreyta, skortur á stuðningi, óvær börn, óöruggi, einangrun og fyrra þunglyndi. Þunglyndi í kjölfar fæðingar má skipta í þrjá flokka sem tengjast innbyrðis og geta mögulega herjað á konur samtímis eða í kjölfar hvers annars: sængurkvennagrát, fæðingarþunglyndi og fæðingarsturlun.


Sængurkvennagrátur[breyta]

Sængurkvennagrátur er algengasta og vægasta tegund fæðingarþunglyndis sem hrjáir allt að 80% nýbakaðra mæðra. Það er góðkynja skammtímaástand sem kemur fram u.þ.b. 2-3 dögum eftir fæðingu en gengur nokkuð hratt yfir. Eins og nafnið ber með sér er helsta birtingarmyndin tilefnislaus eða tilefnislítill grátur. Önnur einkenni eru m.a. kvíði, sveftruflanir, þreyta, listarleysi og skapsveiflur. Ef einkennin eru ekki horfin eftir hálfan mánuð getur það bent til þess að um fæðingarþunglyndi sé að ræða.

Fæðingarþunglyndi[breyta]

Fæðingarþunglyndi hrjáir um 14% kvenna. Það gerir oftast vart við sig á fyrstu mánuðum eftir fæðingu, en stundum á seinni hluta meðgöngu, og getur staðið yfir svo mánuðum skiptir. Fæðingarþunglyndi getur lagst misjafnlega þungt á konur og á sér margar ólíkar birtingarmyndir, allt frá þreytu og depurð yfir í þráhyggju og jafnvel sjálfsvígshugsanir. Algengt er að konur geri sér ekki grein fyrir eigin fæðingarþunglyndi fyrr en mörgum árum síðar.

Fæðingarsturlun[breyta]

Fæðingarsturlun er sjaldgæfasta og alvarlegasta tegund fæðingarþunglyndis. Það leggst á 1-2 konur af hverjum þúsund og kemur fram allt frá því fljótlega eftir fæðingu og upp í 3 mánuðum síðar. Frumeinkenni fæðingarsturlunar líkjast einkennum fæðingarþunglyndis en verða fljótlega mun alvarlegri og langvinnari. Konur þjást þá m.a. af ranghugmyndum, hegðunartruflunum og jafnvel ofskynjunum. Fæðingarsturlun getur verið bæði móður og barni lífshættuleg.

Þunglyndiseinkenni[breyta]

Fæðingarþunglyndi hefur svipaðar birtingarmyndir og annað þunglyndi. Einkennin eru misjafnlega alvarleg eftir því hvort um er að ræða sængurkvennagrát, fæðingarþunglyndi eða fæðingarsturlun. Meðal einkenna eru viðkvæmni, kvíði, depurð, svefntruflanir, lystarleysi, matargræðgi, einbeitingarskortur, kyndeyfð, þráhyggja, vanmáttakennd, einangrun, hegðunartruflanir, ofskynjanir og sjálfsvígshugsanir.

Hversu lengi getur þessi fæðingarsturlun varað?

Meðferðarúrræði[breyta]

Mismunandi meðferðum er beitt gegn þunglyndi í kjölfar fæðingar eftir því hversu alvarlegt það er. Varðandi sængurkvennagrát skiptir mestu máli að konan viti hvað um er að ræða, fái að gráta, hvílist vel og aðstandendur sýni henni skilning. Fæðingarþunglyndi getur verið misjafnlega alvarlegt, í vægari tilfellum getur sjálfshjálp nægt en oft á tíðum þarf samtalsmeðferð eða lyfjameðferð að koma til. Fæðingarsturlun er þess eðlis að þar þarf sjúkrahúsinnlögn, lyfjagjöf og læknismeðferð til að vinna bug á þunglyndinu.

Spurningar[breyta]

Hver eru helstu einkenni fæðingarþunglyndis?

Hver er munurinn á fæðingarþunglyndi og fæðingarsturlun?

Hversu algengur er sængurkvennagrátur?

Hvaða meðferðir gagnast við fæðingarþunglyndi?

Krossapróf:[breyta]

1 Hvað er sængurkvennagrátur?

Sjaldgæfasta tegund fæðingarþunglyndis.
Ungabarnagrátur.
Vægasta tegund fæðingarþunglyndis.

2 Hversu stór hluti kvenna upplifir andlega vanlíðan í kjölfar fæðingar.

Innan við 1% kvenna.
U.þ.b. 14% kvenna.
Um 25% kvenna.
Yfir 50% kvenna.

3 Hvað er til ráða fyrir konu sem þjáist af fæðingarsturlun?

Samtalsmeðferð.
Vera dugleg að hreyfa sig.
Innlögn á sjúkrahús.
Sofa meira og hvílast betur.

4 Hvað er til ráða þegar konur upplifa sængurkvennagrát?

Samtalsmeðferð.
Lyfjameðferð.
Hvíld.
Sjúkrahúsinnlögn.

5 Þunglyndi í kjölfar fæðingar er ...

Ólæknandi.
Sjaldgæft.
Algengt.
Smitandi.


Krossaprófið er einnig á Hot Potatos formi

Heimildir[breyta]

Anna Dagný Smith, Hjördís Birgisdóttir og Ingibjörg Ásgeirsdóttir. Andleg vanlíðan eftir fæðingu: algengari en margan grunar. Heilsugæslan í Reykjavík, 2001.

Borelius, Maria. Nú er ég orðin mamma. Bók um líkama og sál konunnar eftir fæðingu barns. Þýðandi Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir. Setberg, Reykjavík 1996.

Ítarefni[breyta]

Grein um fæðingarþunglyndi (enska wikipedia)

Dalton, Katharina og Holton, Wendy M. Depression After Childbirth: How to Recognize, Treat, and Prevent Postnatal Depression. Oxford University Press, 2001.

| Hvað er fæðingarþunglyndi? Grein á www.minlidan.is

Margrét Alda Karlsdóttir. Enginn mátti vita þetta: upplifun kvenna af fæðingarþunglyndi. Lokaritgerð við HA. Akureyri 2006.

Ólafur Bjarnason. [Fæðingarþunglyndi og fæðingarsturlun.]

Shields, Brooke. Down Came the Rain. Hyperion, New York 2005.