Vitund mannsins - Heimspekikenning

Úr Wikibókunum

Höfundur Sigurður Kristjánsson

Þetta er síða sem birtir ágrip af kenningum mínum um það hvernig vitund mannsins virkar. Ég hef skrifað nokkrar greinar í blöð um þetta efni og byggi ég það sem hér birtist á því og fleiru sem mér hefur opinberast eða komið í hug um þetta efni. Ég verð að viðurkenna það að mér finnst ég eiga ákveðinn höfundarrétt á þessu en mér finnst þó einnig heillandi að hér geti þetta verið opið til skoðunar og umræðna og svo framvegis. En ég vil að vitnað verði til þess hvaðan það er komið sem ef til vill verður vitnað í af þessu sem hér er. Blöðin sem birt hafa fyrir mig greinar um þetta efni eru Heilsuhringurinn [1], blað um hollefni og heilsurækt og Tíbrá [2], blað um dulræn málefni. Hins vegar er það svo að mér finnst þetta ekki endilega þurfa að flokkast undir dulræn málefni, mér finnst þetta fjalla á vissan hátt um allt sem fyrirfinnst í lífinu. Þegar ég reyndi fyrir mér hjá Morgunblaðinu var sagt að greinin sem ég sendi þangað væri of löng en þegar ég sendi síðan grein sem var lengri en fjallaði um atvinnumál á Austurlandi, þá var ekkert kvartað um of langan texta svo mig grunar að Morgunblaðið sé með ,,síu" á efni sem ekki er alveg í tísku að tala um.


Lýsing[breyta]

Ég sé vitund mannsins fyrir mér sem sívalning og er hann að minnsta kosti í fjórum lögum. Ysta lagið nefni ég Dagvitund, næsta lag Undirvitund, hið þriðja Ytri kjarna og hið innsta sem ef til vill er enn meir lagskipt hef ég nefnt Innri kjarna. Ef ég hef skilið geðlækna og sálfræðinga rétt skipta þeir yfirleitt vitund okkar í tvö lög: Meðvitund og undirvitund. Þegar ég hins vegar fór að veita því athygli sem fram fór í vitund minni tók ég eftir því að það var eins og það sem kom upp í hugann kæmi ekki allt frá sama staðnum. Mér fannst munurinn svo mikill að ég komst á þá skoðun að um væri að ræða fleiri staði en undirvitundina eina svo þessi ,,kenning" varð til. Reyndar komu þær myndir sem ég teikna stundum af vitundinni fram í hugleiðslu. Þetta eru myndir sem má kalla venjulegar á sinn hátt en settar í þetta samhengi hef ég hvergi séð þær. Hér er tengill á tvær myndir af nákvæmlega því sem ég var að lýsa. [3]

Um möguleikana sem búa í vitund okkar[breyta]

Ég er þeirrar skoðunar að það sem stundum er nefnt innri þrá hvers og eins sé einhvers konar boð sem komi innst úr kjarna viðkomandi. Ég get ekki séð annað en hindranirnar sem við sjálf, í víðasta skilningi orðsins (allir hlutar vitundarinnar) höfum í raun komið fyrir milli vitundarhluta okkar hafi orðið til meðal annars vegna þess að við höfum komið okkur í þær aðstæður að fæðast í fjölskyldum sem búa yfir ýmiskonar hindrunum í erfðaefni sínu sem valda jafnvel fötlunum eða lítilli félagslegri færni. Innsta þráin kallar meðal annars eftir því að leysa upp sumar þessar hindranir ef það er í mannlegu valdi. Þetta getur hljómað fjarstæðukennt en þó eru ýmis dæmi um það alls staðar í kring um okkur að kraftar fleiri en viðurkenndir hafa verið fram að þessu eru að verki. Meðal annars sé ég þá vinna þegar lyfleysuáhrif svokölluð lækna fólk af sjúkdómum þegar viðkomandi taka inn einhvers konar lyf sem reynast ekki vera annað en sykurtöflur eða eitthvert annað ,,áhrifalítið" efni en samt tekst sumum að læknast við það eitt að taka inn slík ,,lyf". Þar get ég ekki séð annað en til komi kraftur sem manneskjan getur sótt í handan við hina línulegu hugsun sem er svo ríkjandi í umhverfi okkar. Gleggsta dæmi um línulega hugsun er stjórnmálaumræðan þar sem við getum helst ekki verið annað en vinstri eða hægri eða umhverfissinnar eða ekki og svo framvegis. Það er nefnilega þannig að þegar tekið er tillit til fleiri vídda í mannlegri vitund og lífinu yfirleitt að við getum borið með okkur þversagnir sem ekki virðast geta gengið í tvívíðri hugsun en í heimi sem fer handan við yfirborð afstæðisins geta þversagnir farið saman en hætta að vera andstæður í hinni gömlu merkingu orðsins. Veröldina handan hins afstæða heims á yfirborði vitundar okkar nefni ég ,,hinn algilda heim".


Framtíðarsýn[breyta]

Í framtíðinni spái ég að í ljós komi að lyfleysuáhrifin eða sá kraftur sem lýsir sér meðal annars í birtingu þeirra muni verða viðurkenndur. Í framhaldi af því spái ég því einnig að viðhorf til lyfja og matar muni snarbreytast þegar manneskjunni verður ljóst hvers konar fyrirbæri hún í raun er en það hefur ekki verið skýrt að fullu og mun ekki líklega aldrei verða þannig því möguleikarnir til sköpunar eru slíkir að hugtök eins og ,,endanlegur sannleikur" verða ónothæf eða merkingarlaus. Satt að segja hefur þessu ekki verið gefinn nægilegur gaumur hverjir möguleikar manneskjunnar eru og skilaboð samfélagsins til okkar bæði frá skólakerfinu og öðrum eru gjarnan þau að við séum miklum mun takmarkaðri en við erum í raun og sann. Þetta tel ég að valdi að miklu leyti þeirri togstreitu sem fyrirfinnst hjá mörgu fólki þegar skilaboð samfélagsins segja allt annað heldur en það sem af og til kemur upp á yfirborð vitundarinnar frá kjarnanum sem í rauninni veit betur. Hins vegar eru svo miklar hindranir á milli vitundarhluta okkar að mörg okkar trúa frekar því sem umhverfið segir en því sem kjarninn hvíslar upp í dagvitundina þegar færi gefst. Skilaboð samfélagsins eru oft í því formi að telja okkur trú um að við verðum að treysta öðrum en okkur sjálfum fyrir mörgum hlutum í lífi okkar því við séum ekki fær um að leysa úr mörgum málum nema gerast sérfræðingar fyrst. Þar hafa læknar og fleiri verið duglegir við að leitast við að taka af okkur ábyrgðina á heilsufari okkar sem ætti að vera sem mest í okkar eigin höndum. Þó er ekki nein smán að því að leita læknis, síður en svo meðan fólk er að finna heilsu sína og leitast við að skapa sinn eigin raunveruleika sjálft.