Táknmál

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Anney Þórunn Þorvaldsdóttir

Á þessu myndbandi er verið að tala franskt táknmál. Myndbandið er 1. mín og 4 sekúndur

Þetta er wikibók um táknmál. Hún hentar þeim sem vilja vilja fræðast ögn um táknmál, málfræði þess og helstu einkenni.

Hvað er táknmál?

Mynd:277734433 12c282153c.jpg
  • Táknmál er fullkomið mál rétt eins og íslenska, danska, enska og önnur raddmál.
  • Táknmál hefur málfræði líkt og önnur mál.
  • Táknmál er tjáð með samspili handa, höfuðs, líkama og munn -og andlitshreyfingum.
  • Táknmál er hárbeitt samskiptatæki.
  • Táknmál er móðurmál heyrnarlausra.


Hvað er táknmál ekki?

Mynd:54757703 169827c0da.jpg
  • Alþjóðlegt
  • Auðvelt að læra
  • Endurspeglun raddmálsins
  • Tákn með tali


Munur táknmála og raddmála

Táknmál eru mjög ólík raddmálum að myndun og uppbyggingu. Talfæri táknmálsins eru hendur, höfuð, andlit og líkami en talfæri raddmálsins eru öndunarfærin, barki, kok, munnur og nef. Táknmálið er numið með sjóninni en raddmál með heyrninni. Líkams –og höfuðhreyfingar, augnstefna og svipbrigði skipta líka máli í samtölum á raddmáli. Samt sem áður teljast þau ekki til talfæra.

Málfræði táknmálsins

Svona er táknið á þýsku fyrir borgina Elmshorn

Engar rannsóknir voru til um táknmál fyrr en um 1960. Þá sýndi bandarískur málfræðingur, William Stokoe, fram á að táknmálið væri ekki einhverjar tilviljanakenndar bendingar út í loftið. Hann sýndi fram á að táknmálið væri fullgilt mál með flókna málfræðin. Stokoe benti á að táknmálinu væri skipt í grunneiningar, myndunarstað, handform, hreyfingu, afstöðu og látbrigði.

  • Myndunarstaður:

Hvar táknið er myndað í táknrýminu, er það myndað á höfði, á líkama, hönd, andliti eða jafnvel fyrir framan líkamann.

  • Handform:

Hvernig lögun handarinnar er meðan á myndun táknsins stendur.

  • Hreyfing:

Nánast öll tákn fela í sér hreyfingu en algengustu hreyfingarnar eru til hægri, vinstri, upp, niður eða í hring. Þó eru til fleiri og flóknari hreyfingar.

  • Afstaða:

Með afstöðu handarinnar er átt við hvernig höndin snýr þegar táknið er myndað. T.d. hvort lófinn snýr að líkama, að gólfi eða upp.

  • Látbrigði:

Látbrigði, þ.e. svipbrigði og andlitshreyfingar, er stór og mikilvægur hluti táknmálsins og með málfræðilega þýðingu. Án þeirra væri táknmálið óskiljanlegt og málfræðilega rangt.

Táknmálsbann

Mynd:180992554 9ba4439511 m.jpg

Árið 1880 var haldið þing fyrir kennara heyrnarlausra í Mílanó. Aðeins heyrandi kennarar sátu þingið þar sem heyrnarlausum var bannaður aðgangur að því. Þetta varð tímamótaráðstefna í skólasögu heyrnarlausra þar sem niðurstaðan varð sú að táknmálið skyldi bannað í skólum. Ástæða þessa var sú að táknmálið var talið slæmt fyrir heyrnarlaus börn, það myndi hindra mál, -vits, og tilfinningaþroska þeirra. Talið var að ef táknmálið yrði bannað í skólunum og börnum yrði kennt að tala með rödd og lesa af vörum að að þá yrðu samskiptavandamál úr sögunni. Þessi svokallaða oral-stefna eða talmálsstefna varð að kennslustefnu í skólum fyrir heyrnarlausa næstu 100 árin og hafði víðtæk áhrif á heyrnarlausa víða í heiminum. Heyrnarlausir kennarar misstu vinnuna og menntunarstig heyrnarlausra hrapaði til muna. Afleiðingar talmálsstefnunnar hér á landi í dag eru þau að hópur af fólki í samfélaginu hefur hlotið slaka menntun og hefur mjög lélega íslenskufærni, bæði á sviði lestrar og ritunar. Um 1985 komu fram hugmyndir um alhliða boðskipti (Total communication) en í henni fólst að öllum tjáskiptaleiðum yrði haldið opnum. Leyfilegt var að táknmál, rödd eða blanda þessu tvennu saman. Í dag er heyrnarlausum börnum kennt eftir hugmyndafræði tvítyngis, sem felur í sér að bæði íslenska og táknmál eru jafnrétthá og stefnt er að því að nemendur séu tvítyngdir við lok skólagöngu, þ.e. hafi gott vald á bæði íslensku og táknmáli.

Krossapróf

Krossapróf um táknmál

Heimildir

  • Gregory, Susan, og Gillian M. Hartley. 2002. Constructing deafness. The Open University, London, New York.
  • Heimasíða Hlíðaskóla
  • Lane, Harlan, Robert Hoffmeister og Ben Bahan. 1996. A Journey into the DEAF-WORLD. Dawn Sign Press, San Diego, California.

Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: