Fara í innihald

Snorri Sturluson

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Magnea Helgadóttir

Inngangur

Þetta námsefni um Snorra Sturluson hentar vel fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla. Í fyrsta hlutanum er fjallað um ættartengsl hans og menntun og annar hlutinn segir frá stjórnmálamanninum Snorra. Í þriðja hlutanum er fjallað um sagnaritarann Snorra Sturluson þar sem sagt frá lífi hans sem rithöfundar og fjallað um helstu rit hans.

Ættartengsl og menntun

Snorri Sturluson
Stytta af Snorra Sturlusyni í Reykholti

Snorri Sturluson fæddist árið 1179 að Hvammi í Dölum. Faðir hans hét Sturla Þórðarson (1115-1183) og móðir hét Guðný Böðvarsdóttir (1147-1221). Snorri var ungur þegar hann var sendur í fóstur til Jóns Loftssonar í Odda og ólst hann þar upp til nítján ára aldurs. En á miðöldum tíðkaðist að höfðingjar sendu syni sína til annarra höfðingja, bæði til menntunar og til þess að styrkja tengsl á milli höfðingjaætta. Á þessum tíma fengu stúlkur ekki sömu tækifæri til menntunar og drengir, þær voru heima og lærðu heimilis- og bústörf af mæðrum sínum. Stéttaskipting var mikil þar sem goðar úr höfðingjastéttum voru efstir, næstir komu bændur og síðast vinnufólkið.

Á þessu tíma var Oddi eitt mesta menntasetur landsins en Oddverjar voru þekktir lærdómsmenn og naut Snorri góðs af því að alast þar upp á sínum yngri árum. Hann fékk afbragðs menntun sem hefur líklega átt stóran þátt í því að hann varð svo frægur rithöfundur.

Á miðöldum réðu foreldrar flestu um giftingar barna sinna og í fæstum tilfellum höfðu afkvæmin eitthvað um það að segja hverjum þau giftust. Það sem skipti mestu máli var að makinn væri af góðum og ríkum ættum en þannig gat fjölskyldan aukið virðingu og völd ættarinnar. Snorri kvæntist tvisvar og átti nokkrar frillur og er talið líklegt að ástleysi hjónabandanna hafi haft áhrif á þessi tíðu makaskipti hans. Hann kvæntist fyrst Herdísi Bersadóttur og er talið líklegt að það hafi verið til fjár en ekki af ást þeirra. Með henni eignaðist hann börnin Hallberu Snorradóttur (1201-1231) og Jón 'murt' Snorrason (1203-1231). Önnur eiginkona hans hét Hallveig Ormsdóttir (1199-1241) og áttu þau engin börn. Hann eignaðist þrjú börn með þremur frillum; Órækju Snorrason (1205-1245) með Þuríði Hallsdóttur, Ingibjörgu Snorradóttur (1208-?) með Guðrúnu Hreinsdóttur og að lokum Þórdísi Snorradóttur (1205-?) með Oddnýju. Snorri fór sömu leið og ættingjar hans og gifti dætur sínar til þess að efla völd sín sem færði honum þó enga gæfu.

Stjórnmálamaðurinn Snorri Sturluson

Snorri var mikill stjórnmálamaður og var mjög vinsæll á meðal almennings. Hann náði fljótt frama sem stjónmálamaður en árið 1202 fór hann frá Odda á Rangárvöllum til Borgar í Borgarfirði en þá voru engin héraðsríki á Vesturlandi. Hann náði að safna að sér fjölmörgum goðorðum á stuttum tíma og ekki leið á löngu þar til ríki hans náði að mestu frá Hvalfirði til Húnafjarðar. Þar með var hann orðinn einn voldugasti höfðingi landsins.

Snorri var tvisvar lögsögumaður á Alþingi, sem var æðsta virðingarstaða á landinu. Hann var sendur til Noregs til þess að semja um deilumál Íslendinga og Norðmanna. Hann varð fljótt vinsæll þar í landi og var gerður að lénsmanni eða lendur maður konungs. Því er einnig haldið fram að Skúli jarl hafi gert hann að leyndarjarli sem var heiti á valdsmanni sem var nálægt konungi að völdum.

Snorri var mikill hentistefnumaður í stjórnmálum, þ.e. hann gerði yfirleitt það sem hentaði honum sjálfum best og gekk jafnvel til liðs við andstæðinga sína ef það kom sér vel fyrir hann persónulega. Sagan segir að hann hafi meira segja gengið svo langt að gifta dætur sínar andstæðingum sínum, eingöngu til að öðlast meiri völd, svo mikil var valdafíknin og fégræðgin.

Hann var mjög umdeildur höfðingi (stjórnmálamaður) þrátt fyrir vinsældir en hann var sagður bæði mjög efnaður og valdamikill. Síðar kom í ljós að stjórnmálin áttu eftir að hafa afdrifarík áhrif að líf Snorra þar sem hann blandaði sér í uppreisn gegn Hákoni Hákonarsyni konungi Noregs sem leiddi til þess að Noregskonungur lét drepa hann fyrir landráð.

Sagnaritarinn Snorri Sturluson

Snorri þykir merkilegur sagnfræðingur og er einn þekktasti rithöfundur okkar Íslendinga bæði hér heima og í útlöndum. Rit hans eru vel þekkt og er hann í miklu uppáhaldi hjá Norðmönnum sem hafa verið duglegir að halda uppi minningu hans. Ástæðan er sú að Snorri skrifaði á sínum tíma sögu Noregskonunga og hélt þannig á lofti heiðri og minningu þeirra en fyrir það líta Norðmenn á hann sem einn af merkustu rithöfundum sem uppi hafa verið. Norðmenn hafa sýnt áhuga sinn á Snorra í verki m.a. með því að gefa rausnarlegar gjafir og hafa í því sambandi sýnt Reykholti, heimaslóðum Snorra, einstakt dálæti.

Þekktustu verk Snorra eru:

Heimskringla
Snorra-Edda

Konungasagnasafnið Heimskringla sem fjallar um konunga Danmörku, Noregs og Englands og ættir þeirra. Í formála handritsins gerir Snorri grein fyrir viðhorfi sínu til efnissins, hann fjallar um skáldin og heimildagildi kveðskapar. Hann nefnir einnig fyrri rithöfunda eins og Ara fróða Þorgilsson. Á eftir formálanum hefst sagan á hinni goðsagnakenndu Ynglinga sögu sem segir frá uppruna Noregskonunga sem telja ættir sínar til Óðins konungs sem var átrúnaður á og skráir Snorri þaðan fram eftir byrjun miðalda Skandinavíu. Með þessum skrifum sínum er Snorri að upphefja Noregskonunga þar sem goðsögulegt upphaf upphefur konunginn. Handrit Heimskringlu skiptist í þrjá hluta: 1. Heimskringla I, frá upphafi frá Óðni til og með Ólafi Tryggvasyni sem fellur 1005, 2. Heimskringla II, sem er stærsti hlutinn og fjallar um Ólafs sögu helga, 3. Heimskringla III, sem segir frá Magnúsi góða til 1177.

Snorra-Edda segir frá og útskýrir trú Íslendinga áður en þeir tóku kristni. Sagan skiptist í fjóra hluta, Prologus, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal. Prologus fjallar um upphaf ásatrúar og er hann einungis stuttur formáli af bókinni. Á eftir honum kemur Gylfaginning en þar ræðir hinn fáfróði Gylfi konungur við Óðin um ásatrú. Þessi kafli er í samtalsformi eins og oft tíðkaðist um kennslubækur að fornu. Því næst er komið að Skáldskaparmálum en þar segir Snorri frá heitum í skáldskap. Síðasti kaflinn er Háttatal og er það 102 erinda kvæði til Skúla jarls og Hákons konungs. Hver vísa er undir sínum hætti. Í Snorra-Eddu setur Snorri fram þá kenningu að heiðin goð hafi í upphafi verið mennskir herkonungar sem menn hefðu farið að dýrka eftir dauðann. Hétu þeir þá á þá til sigurs í bardaga, eða til árs og friðar er þeir þurftu að þola harðindi og ófrið. Samkvæmt kenningu Snorra hófst dýrkun goðanna á þennan hátt og að lokum er konungsins eða stríðsmannsins einungis minnst sem guðs.

Snorra-Edda er ein mikilvægasta heimild sem við höfum í dag um norræna goðafræði og fornan átrúnað. Hún var þó upprunalega skrifuð sem kennslubók í skáldskap og þjónaði næstu aldirnar mikilvægu hlutverki á því sviði.

Talið er að Snorri hafi ritað þessi tvö verk á árunum 1220-30.

Auk þessa rita skrifaði Snorri Ólafs sögu helga og talið er að hann hafi einnig skrifað Egils sögu sem segir frá skáldinu og bardagamanninum Agli Skallagrímssyni og ævintýrum hans.

Stytta af Snorra Sturlusyni eftir hinn norska myndhöggvara Gustav Vigeland var reist við Reykholt í Borgarfirði árið 1947 en þar bjó Snorri seinustu ár ævi sinnar. Eftir að Snorri flækist í misheppnaða uppreisn gegn Hákoni Hákonarsyni konungi Noregs var hann veginn í Reykholti 23. september árið 1241.

Krossapróf

1 Hvaða ár fæddist Snorri Sturluson?

1189
1169
1179
1159

2 Hvað hét faðir Snorra?

Sturla Sighvatsson
Sturla Gissurarson
Sturla Böðvarsson
Sturla Þórðarson

3 Hvað hét fyrri eiginkona Snorra?

Herdís Bersadóttir
Hallveig Ormsdóttir
Þuríður Hallsdóttir
Guðrún Hreinsdóttir

4 Hvar ólst Snorri upp til nítján ára aldurs?

Að Hvammi í Dölum
Í Odda á Rangárvöllum
Í Reykholti í Borgarfirði
Á Borg á Mýrum

5 Í hvaða landshluta komst Snorri til valda?

Á Vesturlandi
Á Suðurlandi
Á Norðurlandi

6 Hvað hét höfðingjaætt Snorra?

Oddverjar
Haukdælir
Ásbirningar
Sturlungar

7 Hver eru tvö af þekkustu verkum Snorra Sturlusonar?

Snorra-Edda og Egils saga
Heimskringla og Ólafs saga helga
Snorra-Edda og Heimskringla
Egils saga og Heimskringla

8 Hvar var Snorri Sturluson veginn og hvaða ár?

Í Odda árið 1241
Í Reykholti árið 1242
Í Odda árið 1242
Í Reykholti árið 1241


Krossaprófin er einnig til á Hot Potatos formi:

Heimildir