Saga kvenna

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Sólveig Kristjánsdóttir

Þetta er wikibók um sögu kvenna á Íslandi við upphaf kvenréttindabaráttunnar. Hún hentar sem hluti af námsefni í félagsfræði, stjórnmálafræði og sögu.

Mynd af súffragettum í göngu 1912 í New York

Inngangur - örstutt

Á Íslandi átti barátta kvenna fyrir auknum réttindum sér stað, eins og víðs vegar í vestrænum heimi í lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20. þegar lýðræðið var að festast í sessi sem stjórnarform. Við upphaf baráttunnar var megináherslan ekki sú að eiga fulltrúa á þingi, heldur jafns réttar á við karla til að kjósa og frelsi til þátttöku. Að auki þurfti að gæta að stöðu kvenna í þjóðfélaginu og auka réttindi þeirra. Það voru konur af efri stéttum sem börðust fyrir þessum auknu réttindum kvenna. Kosningarétturinn var á þessum tíma bundinn ýmsum skilyrðum og ekki eingöngu kyni. Konur öðluðust formlegan rétt til að kjósa og vera í kjöri til Alþingis árið 1915 en réttur til bæjar- og sveitastjórna. Kosningarétturinn var þó bundinn því skilyrði að þær væru orðnar fertugar og skyldi aldurinn lækka um eitt ár á hverju ári uns hann væri kominn niður í 25 ár líkt og hjá körlum. Þegar ljóst var að kosningaþátttaka kvenna breytti litlu sem engu var aldurinn lækkaður fyrr en til stóð eða árið 1920.

Kosningarétturinn

Konur í Írak á kjörstað

Áður en Ísland varð lýðræðisríki höfðu konur haft kosningarétt áður en því var breytt með lagasetningu. Árið 1882 var leitt í lög á Íslandi að „... ekkjur og aðrar ógiftar konur sem stæðu fyrir búi eða ættu á annan hátt með sig sjálfar skyldu hafa kosningarétt til sveitarstjórna og sýslunefnda.“ (Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson, 1988: 160). Talið er að þessi lög hafi verið svo snemma á ferðinni hér á Íslandi þar sem ekki var óalgengt að ógiftar konur rækju bú og var stærsti hluti þeirra ekkjur. Mikið var um ekkjur á þessum tíma, þar sem sjórinn var óvæginn sem fyrr, og á þessum árum sóttu karlmenn sjóinn á opnum bátum, hvort sem var að sumri til eða að vetri. Þrátt fyrir lagasetninguna vantaði enn heilmikið á að konur nytu jafnréttis á við karlmenn og það er ekki fyrr en eftir aldamótin að kosningaréttur kvenna fer að aukast. Giftar konur í Reykjavík og Hafnarfirði fengu kosningarétt til bæjarstjórnarkosninga árið 1907 og í kjölfarið buðu konur í Reykjavík fram sérstakan kvennalista við bæjarstjórnarkosningarnar árið 1908. Þær fengu flesta bæjarfulltrúa í þessum kosningum, eða fjóra af 15. Það var í framhaldi af þessu árið 1909 að leitt var í lög að allar giftar konur og vinnukonur sem greiddu útsvar höfðu rétt til þátttöku í sveitastjórnarkosningum um land allt. (Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson, 1988: 160-161)


Kvennaframboðin

Sérstök kvennaframboð fóru fram hér á landi á árunum 1908-1926. Þessir kvennalistar höfðu sérstöðu í heiminum fyrir gott gengi, þar sem konur náðu hvergi annars staðar slíkri velgengni. Það má því segja að kvennaframboðin höfðu mikið að segja í sögu kvenna og hvöttu konur áfram. (Auður Styrkársdóttir, 1982: 17)

Á þessum tíma var staða Reykjavíkur sérstök bæði í efnahagslegu og pólitísku tilliti auk þess að öll helstu aðsetur viðskipta og þjónustu voru með aðsetur þar. því hafi náðst sú undirstaða í Reykajvík sem þurfti til þess að stofna félagslegar hreyfingar, þar á meðal félagshreyfingu kvenna. Hugmyndir um sérstaka kvennalista voru víða í Evrópu í upphafi 20. aldar og áttu áttu alls staðar litlu gengi að fagna, nema á Íslandi. (Auður Styrkársdóttir, 1982: 12). Það var Kvenréttindafélagið sem hafði frumkvæði að framboði sérstaks kvennalista í samstarfi við fimm önnur kvenfélög í Reykjavík og var Bríet Bjarnhéðinsdóttir í hópi þeirra sem buðu sig fram. Erfiðlega gekk í byrjun að fá frambjóðendur úr röðum kvenna en að lokum gáfu kost á sér auk Bríetar þrjár virtar konur. Það voru þær Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins og Guðrún Björnsdóttir mjólkursali. Bríet starfaði sem bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1908 til 1912 og aftur 1914 til 1920.

Kvennalistinn sem bauð fyrst fram árið 1908 til bæjarstjórnar í Reykjavík hlaut 27,6% atkvæða og fjóra fulltrúa af 15 eins og nefnt var hér áður. Konur héldu áfram að bjóða fram kvennalista í Reykjavík fram til ársins 1916 og einnig urðu framboð kvenna á Akureyri og á Seyðisfirði. Það er svo árið 1922 sem konur bjóða fram sérstakan kvennalista í landskjöri til Alþingis og fengu þar 22,4% atkvæða. Þetta mikla fylgi kvennalista í byrjun 20. aldar er einsdæmi í sögu kvenréttinda. (Auður Styrkársdóttir, 1982: 12)

Það var Ingibjörg H. Bjarnason (1867-1941) sem var fyrst kvenna kjörin á Alþingi Íslands. Ingibjörg var ein þeirra kvenna sem verið höfðu í framboði fyrir kvennalistann og var kosin þingmaður hans árið 1922. (Auður Styrkársdóttir, 1982: 47-48.) Árið 1924 var Ingibjörg einn af stofnendum Íhaldsflokksins sem svo sameinast Frjálslynda flokknum við stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929. Ingibjörg sat á þingi til ársins 1930 en gengdi ýmsum trúnaðarstörfum til æviloka.

Bríet

Bríet á yngri árum

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856 - 1940) er sú kona sem hæst ber þegar farið er yfir byrjun kvenfrelsisins hér á Íslandi. Hún hélt frægan fyrirlestur fyrir troðfullu húsi í lok árs 1887 sem auglýstur var „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna“ (Auður Styrkársdóttir, 1997: 48) Bríet fór þar vel yfir stöðu kvenna á þessum árum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í Evrópu og Bandaríkjum. Hún sagði frá því hvernig konur væru smátt og smátt að fá aukin réttindi, bæði til náms og starfa. Hún vakti einnig í lokin athygli á launamum kvenna og karla sem henni þótti óréttlátur og konum í óhag. (Bríet Bjarnhéðinsdóttir, 1997:364) Bríet stóð að stofnun Hins íslenska kvenfélags 1894 og Verkakvennafélagsins Framsóknar 1914. Hún stofnaði og var formaður Kvenréttindafélags Íslands frá stofnun árið 1907 til 1911 og svo aftur 1912 til 1926, og var hún fulltrúi þess á mörgum alþjóðaþingum. KRFÍ er starfandi enn í dag og er elsta kvenfélag á Íslandi og þó víða væri leitað Bríet hafði ferðast um Norðurlönd og kynnst þar baráttukonum fyrir auknum réttindum kvenna, bæði frá Norðurlöndum og Bandaríkjunum. Stofnun KRFÍ er því að erlendri fyrirmynd, en Bríet var í bréfasambandi við þær konur sem hún hafði kynnst á Norðurlöndum. Efst á baugi KRFÍ í byrjun var fyrst og fremst að berjast fyrir auknum áhrifum og réttindum kvenna í stjórnmálum. (Auður Styrkársdóttir, 1982: 35). Kvenréttindafélagið hafði frumkvæði að framboði sérstaks kvennalista í samstarfi við fimm önnur kvenfélög í Reykjavík og var Bríet í hópi þeirra sem buðu sig fram. Erfiðlega gekk í byrjun að fá frambjóðendur úr röðum kvenna en að lokum gáfu kost á sér auk Bríetar þrjár virtar konur. Það voru þær Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins og Guðrún Björnsdóttir mjólkursali. Bríet starfaði sem bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1908 til 1912 og aftur 1914 til 1920. Þessi mikli baráttujaxl í málefnum kvenna á mikinn grunn að þeim árangri sem náðist í þeirri baráttu sem stóð um réttindi kvenna í byrjun 20. aldar og eiga íslenskar konur henni mikið að þakka.

Námsréttur kvenna

Mynd:Brietoglaufey.jpg
Bríet og Laufey dóttir hennar. Laufey var fyrsta íslenska stúlkan sem lauk stúdentsprófi

Það voru ekki stórar kröfur sem konur lögðu fram í byrjun. Fyrstu opinberu kröfur kvenna komu fram árið 1871, þegar 25 konur settu fram skriflega beiðni um fjáröflun til byggingar skóla til handa stúlkum í Reykjavík. Þessi krafa var birt í blöðunum. Út frá þessum kröfum kvenna var svo Kvennaskólinn í Reykjavík stofnaður árið 1874. (Auður Styrkársdóttir, 1982: 30).

Árið 1869 birtist grein Páls Melsteds „Hvað verður gert fyrir kvenfólkið?“ í Norðanfara og fjallaði um stofnun skóla fyrir stúlkur. Þessi grein Páls var svo undanfari þess að hann og kona hans Þóra Melsted beittu sér fyrir stofnun Kvennaskólans í Reykjavík. (Auður Styrkársdóttir, 1997:37). Komu kröfur kvenna í framhaldi af grein Páls. Kröfur um kosningarétt fóru ekki að knýja verulega á fyrr en um aldamótin og var þá jafnvel svo að mörgum konum þótti brýnna að sinna félagsstarfi en að standa í baráttu fyrir kosningarétti. (Auður Styrkársdóttir, 1997: 40).

Konur fengu, eftir tilskipun frá konungi, rétt til æðri menntunar árið 1886. Þær máttu taka próf frá Lærða skólanum, en ekki stunda nám þar, en máttu stunda nám í Læknaskólanum og taka próf þaðan. Að auki máttu þær sitja í Prestaskólanum og taka þaðan próf í guðfræði, en ekki þó hið sama og prestar tóku. Það var og tekið skýrt fram að konur mættu ekki stíga í stólinn, en svo er nefnt að prédika yfir söfnuði. Ekkert af þessum rétti gaf konum þó rétt til að starfa við slík embætti sem þær máttu nema og ekki gátu þær heldur fengið styrki fyrir náminu.

Ári áður eða 1885 hélt Páll nokkur Briem sögulegan fyrirlestur um frelsi og menntun kvenna. Talið er að þessi fyrirlestur, sem síðar var gefinn út, hafi verið meðal áhrifamestu rita í íslenskri kvennabaráttu á 19. öld, en Páll var talinn með helstu talsmönnum kvenréttinda á þessum tíma. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 2001: 47). Páll tekur sterkt til orða í þessum fyrirlestri, talar um baráttuna að konur fái réttindi, fái vald. Hann segir frelsi kvenna nátengt menntun þeirrra. Það sé það sem barátta kvenfrelsis standi um, að kvenmenn geti menntað sig til jafns við karlmenn. (Páll Briem, 1997: 278). Í þessum fyrirlestri fer hann í gegnum sögu kvenfrelsisins í Bandaríkjunum og Evrópu, telur m.a. að England sé þar lengst komið og að það megi ekki síst þakka ritum Johns Stuarts Mill og baráttu hans, m.a. inni á þingi, fyrir því að konur fengju kosningarétt. (Páll Briem, 1997: 324). Hann segir það skyldu kvenna hér á Íslandi að berjast fyrir kosningarétti til löggjafarþings, hann væri þeirra lögleg eign. Einnig lagði Páll áherslu á jafnrétti í þessum fyrirlestri. (Páll Briem 1997: 299). Hann fór víðar í þessum fyrirlestri sínum um baráttu kvenna víðs vegar um heiminn fyrir auknum réttindum sem ekki verður rakið hér, en menntun konum til handa var þó efst á baugi í hans ræðu auk þátttökuréttinda til kosninga.

Það er svo árið 1911 að konur fá að lokum rétt til menntunar, styrkja og embættisstarfa til jafns á við karla. Það var Kvenréttindafélag Íslands, sem stofnað var 1907, sem beitti sér mjög fyrir aðgöngurétti kvenna að öllum skólum, styrkjum og embættum til jafns við karlmenn og í mars 1911 lagði Hannes Hafstein fram frumvarp um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrkja og embætta en það var Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem fékk Hannes til að leggja fram þetta frumvarp. Lög þessi voru staðfest í júlí sama ár og höfðu þá konur fengið fullt jafnrétti við karla til menntunar og embætta.

Spurningar

1 - Hvaða ár fengu konur kosningarétti til Alþingis á Íslandi?

2 - Hvaða íslenska kona var fyrst kjörin á Alþingi Íslands?

3 - Hvaða konu ber hæst þegar byrjun kvenfrelsins á Íslandi ber á góma?

4 - Hvaða ár fengu konur rétt til menntunar, styrkja og embættisstarfa til jafns á við karla?

5 - Hver lagði fram frumvarp um rétt kvenna til náms, styrkja og embætta?

Krossapróf

1 Giftar konur fengur kosningarétt til sveitarstjórna árið

1800
1830
1907
1944

2 Hvaða kona var fyrst kjörin á Alþingi

Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Ingibjörg H. Bjarnason
Katrín Magnusson
Theodora Thoroddsen

3 Árið 1887 hélt Bríet frægan fyrirlestur fyrir troðfullu húsu sem var auglýstur

Ávarp fjallkonunnar við dögun nýrra tíma
Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna
Húsmóðirin og vinnukonurnar
Hvað verður gert fyrir kvenfólkið?

4 Kvenréttindafélag Íslands, sem stofnað var 1907 beitti sér mjög fyrir

að auka vitund kvenna um þjóðlegan heimilisiðnað
að koma á mælskunámskeiðum fyrir ungar stúlkur
að konur fengi til jafns við karla aðgang að öllum skólum, styrkjum og embættum
að styrkja fátækar ekkjur til náms

5 Kvenréttindafélags Ísland var

að erlendri fyrirmynd
stofnað af Bríet vegna vitrunar sem hún fékk í æsku
beint framhald af stofnun kvenfélagsdeildar í Þingeyjarsýslu
nauðsynleg vegna lagaumhverfis


Heimildir

Bækur og greinar

  • Auður Styrkársdóttir (1982). Kvennaframboðin 1908-1926. Reykjavík: Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Örn og Örlygur.
  • Auður Styrkársdóttir (1997). Forspjall í bók J.S. Mill – Kúgun kvenna. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Auður Styrkársdóttir (1998). From Feminism to Class Politics. Sweden: Umeå University.
  • Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson (1988). Uppnuni nútímans. Reykjavík: Mál og Menning.
  • Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1997). „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna”(flutur árið 1887) í bók J.S. Mill – Kúgun kvenna. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Mill, J.S. (1997). Kúgun kvenna. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Páll Briem (fyrirlestur) (1997). „Um frelsi og menntun kvenna. Sögulegur fyrirlestur“ í bók J.S. Mill – Kúgun kvenna. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (2001). Björg – Ævisaga Bjargar C. Þorláksson. Reykjavík: JVP Útgáfa.

Vefsíður

Ítarefni

  • Greinar um kvenréttindi á Íslandi (íslenska wikipedia)
  • Ævisögur Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur Ólafía og Björg segja mjög vel frá þessum tíma í upphafi 20. aldar. Einnig bókin Strá í hreiðrið sem byggir á bréfaskriftum Bríetar. Hér fyrir neðan hef ég sett inn fleiri bækur og greinar sem fjalla um konur og lýðræði og stöðu kvenna almennt í heiminum.
  • Bríet Bjarnhéðinsdóttir (2006). Strá í hreiðrið. Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Reykjavík:JPV Útgáfa
  • Kramnick, M.B. (Introduction) (1975). Wollstonecraft, Windication of the Rights of Woman. Great Britain: C. Nicholls & Company Ltd.
  • Locke, J. (1993). Ritgerð um ríkisvald. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Pateman, C. (1988). The Sexual Contract. Oxford: Polity Press.
  • Pateman, C. (1989). The Disorder of Women: democracy, feminism and political theory. California: Stanford Univ. Press.
  • Phillips, A. (1991). Engendering Democracy. Cambridge: Polity Press.
  • Phillips, A. (1995). The Politics of Presence. Oxford: Clarendon Press.
  • Puwar, Nirmal (2002). „Interview with Carole Pateman. The Sexual Contract, women in politics, globalization and citizenship“. Feminist review, bls. 123-133.
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir (1993). Saga Kvwenréttindafélags Íslands. Kvenréttindafélag Íslands: Reykjavík.
  • Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (2006). Ólafía - Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur. Reykjavík: JVP Útgáfa.
  • Svanur Kristjánsson og Auður Styrkársdóttir (2001). Konur, flokkar og framboð. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Wichterich, C. (2002). The Globalized Woman (2. prentun). Australia: Spinifex Press
  • Wollstonecraft, M. (1978). Vindication of the Rights of Woman. (Ritstj. Miriam Kramnick.) Middlesex: Penguin Bokks Ltd.
  • Heimasíða Kvennasögusafns Íslands http://kona.bok.hi.is
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: