Costa del sol og Costa de la luz

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höf. Margrét Lóa Jónsdóttir

Hér má finna fáeina fróðleiksmola um Costa del sol og Costa de la luz, Cádiz, Mára, Alkemistann og borgina Tarifa á Costa de la luz, svo sitthvað sé nefnt. Efni þetta er hugsað sem ítarefni fyrir þá sem eru að kynna sér sögu og menningu Suðurlanda og þá sem starfa í ferðamannaiðnaði. Eins gæti þetta verið ágæt viðbót við spænskunámskeið eða jafnvel þegar um er að ræða ferðamannnámskeið í spænsku. Margrét Lóa Jónsdóttir tók efnið saman af Wikipediu og upp úr ýmsum heimildum um Spán og andalúsíska ljóðagerð.

Spánn - Andalúsía

E S P A Mynd:Ene.gif A

Já. Svona, eins og hér í gula reitnum, er spænska raddaða ennið sem við notum til dæmis þegar við segjum Spánn - eða spænska (Español) á þessu rómanska tungumáli.

Matagerðarlist í Andalúsíu er ákaflega mikill hluti af lífi fólks. Mun meiri heldur en hér á landi. Einnig ber að hafa í huga að dagurinn stjórnast af matmálstímum, að minnsta kosti eins til tveggja tíma hádegisverði í hinni svonefndu siestu. Marga ferðamenn hefur oft furðað hversu seint Spánverjar borða á kvöldin, sér í lagi þar sem hefðin fyrir síestunni er hvað sterkust, það er í Andalúsíu. Metnaður í matargerð er mikill og það liggur við að sérhvert þorp í Andalúsíu eigi sinn eigin sérrétt eða að minnsta kosti sína eigin útgáfu af frægustu réttum þessa sólríka lands. Ferðamenn sem langar til að kynnast landi og þjóð ættu því endilega að taka þátt í matgleðinni og virða matarást landans. Tapasréttir eru þá einmitt bæði gómsæt og tilvalin leið! Mataræði er jafn fjölbreytilegt og landslagið í Andalúsíu og í héraðinu er framleitt mikið af besta hráefni Spánar. Ávextir, sjávarfang, skinkur,ólífuolía, möndlur og vín. Inn til landsins er svínakjöt og ýmiss konar villibráð algeng á matseðlinum og uppi til fjalla þar sem lofslagið er svalt sérhæfa menn sig í hinni frægu fjallaskinku:Jamón serrano. Spánverjar hafa líka oftast feyki gaman að því að spjalla um mat og vín.(*2)

Myndin sem kemur upp í huga okkar flestra þegar við heyrum orðið Spánn er líklega af pálmatrjám, hvítum sandi, hafi, sól og yl. Og jafnvel hvítu þorpi, hátíð og flamenco ef við höfum dvalið til lengri eða skemmri tíma í Andalúsíu. Hér er ekki úr vegi að vitna í grein úr Morgunblaðinu eftir rithöfundinn, þýðandann og Spánarunnandann með meiru, Örnólf Árnason:

Þegar ég kom fyrst til Costa del Sol árið 1970 var ég sannfærður um að ég hefði fundið paradís á jörð. Áður hafði ég fallið kylliflatur fyrir Spáni, næstum gegn vilja mínum, því ekki átti ég von á því fyrirfram að ég yrði sæll undir hælnum á Franco. En glæsilegar borgir með aldagamalli hámenningu, fullar af glaðværu og viðmótsþýðu fólki, vógu upp á móti andúð minni á einræðisstjórninni, og ég vissi ekki fyrr til en ég var farinn að keppast við að læra spænsku til að geta sem best notið þessa nýfundna fjársjóðs.

Örnólfur Árnason segir jafnframt:

Ég þóttist vita hitt og annað um Spán þegar ég kom fyrst akandi til Málaga. Það reyndist ofmetið. Ég hafði þrætt ferðamannabæina á Miðjarðarhafsströndinni, frá Costa Brava í norðri, Costa Blanca á austurströndinni og suður úr. Ég hélt að Sólarströndin væri bara einn staðurinn í viðbót. En töframáttur Andalúsíu kom mér í opna skjöldu. Ég vissi að allt það „spænskasta á Spáni“ átti rætur í Andalúsíu, t.d. nautaat, flamenkó, en ég tengdi það fremur sögunni en líðandi stund og datt ekki í hug að uppspretta spænskra hefða væri lifandi lind, bullandi af ástríðufullum og óstöðvandi krafti. (Mbl. Sunnudagsbl. '97)

En hvað vita flestir um Spán? Jú, flestir vita að stærsta borg Spánar er höfuðborgin Madríd - og því næst kemur katalónska borgin Barselóna.Í Madríd búa um 5,5 milljónir manna og tæpar 5 milljónir í Barselóna. Spánn er fornfrægt menningarríki. Arabar og Berbar lögðu hluta af Spáni undir sig á miðöldum og voru þar kallaðir Márar. Miklar menningarminjar eru um dvöl þeirra á Spáni og er Alhambrahöllin líklega merkust þeirra. Barselóna þykir mjög athyglisverð fyrir nútímabyggingarlist og ber þar helst að nefna meistara Antonio Gaudi en byggingar þess merka arkitekts má víða finna í borginni.

 „Por encima de los techos nervios de metal sonaban.“'
   Úr ljóðinu THAMAR Y AMNON eftir Federico García Lorca

Spánn var einræðisríki undir stjórn Francisco Francos einræðisherra frá 1939 til 1975. Þá var landið í raun ákaflega lokað fyrir umheiminum. Skáldið Lorca var á sínum tíma tekið af lífi í fæðingarborg sinni Granada. Í baskalandi var mönnum meinað að tala basknesku á tímum Francos. Þorpinu Guernica var eitt á tíma Francos, og með hans samþykki. Guernica var þorp í El país basco: Baskalandi. Picasso málaði Guernicu sína til að minnast þessa atburða í sögu Spánar. Hið magnaða listaverk Guernica er í Madrid. Síðan 1975 er konungur Spánar Juan Carlos I. Svona er hin fræga byrjun ljóðsins Romance Sonambulo:Verde que te quiero verde. Verde viento. Verdes ramas. (Svefnrofaþula, sjá þýð. hér beint fyrir neðan) ljóðið er eftir Federico García Lorca en skáldið tileinkaði það Gloriu Giner og Fernando de los Ríos. Hér á eftir gefur að líta brot úr umræddu ljóði í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar.

Grænt er vænt og vænast grænt.
Vindurinn græni.Laufið græna.
Hesturinn uppá heiði.
Á hafinu fljótandi kæna.
Umvafin er hún skugga
uppá svölunum dreymin,
grænlokkuð,græn á vanga,
grákalt silfur í auga.

Áhrif Mára

ARABÍSKU ÁHRIFIN

Hverjir voru eiginlega þessir Márar - sem sóttu svo mjög í Spánarstrendur?

Jú, þeir voru íbúar Magreb og síðar Íberíuskagans á miðöldum. Márar voru þannig að uppruna til Berbar, hirðingjar frá Vestur- og Norður-Afríku sem aðhylltust Íslam. Orðið kemur úr grísku: mauros, sem merkir dökkur, og var það hugtak sem Rómverjar notuðu um íbúa Afríku. Landaheitin Máritanía og Marokkó eru dregin af sama orði. Árið 711 réðust Márar inn á Íberíuskagann og lögðu stærstan hluta hans undir sig á næstu átta árum. Þegar þeir reyndu að halda áfram yfir Pýreneafjöllin voru þeir stöðvaðir af Karli hamar í orrustunni við Tours árið 732. Landinu var skipt upp í mörg lén undir Kalífanum í Kordóba. Veldi Almóhada og Almoravída voru márísk (berbísk) stórveldi sem komu upp á 11. og 12. öld. Kristnu smáríkin sem lifðu af í norðvesturhluta Spánar juku smám saman við veldi sitt og árið 1212 náði bandalag þessara ríkja að reka múslimsku höfðingjana frá stærstum hluta landsins. Konungdæmið Granada var þó áfram múslímskt konungsríki til 1492 þegar þeir gáfust upp fyrir her Ferdinands og Ísabellu.

„Strengir lútu hennar
særðust við ásláttinn
og komu mér til að titra
- einsog ég væri að hlýða á
lag leikið með sverðum
á hálssinar óvinanna.“

ALHAMBRAHÖLLIN í Malagahéraði - á strönd sólarinnar: Costa del sol sem er svo mörgum Íslendingum kunn, er vissulega einstakur vitnisburður um fegurðarskyn og stórfenglegan arkitektúr Araba. Torremolinos hefur til dæmis lengi verið ákaflega vinsæll ferðamannstaður okkar Íslendinga og Granada þekkja margir sem þangað hafa komið þar sem höllin mikilfenglega, Alhambra, gnæfir upp úr landslaginu. Al- Mu'tamid, „konungsskáldið“ í Sevilla, ríkti frá 1068 til 1091. Setningarbrotið hér fyrir ofan er fengið úr munúðarfullu ljóði hans sem ber nafnið Í minningu Silvers. Ást hans og virðing fyrir ljóðum mun vera algjört einsdæmi meðal þjóðhöfðingja. Hann hafði eitt sinn boðið flokki Berba, svokölluðum Almoravidum, til Spánar til að fá þá til að hjálpa höfðingjum Mára í stríðinu við Alfons VI. En gestirnir voru ekki þakklátari fyrir boðið en svo að þeir sviptu Al Mu'tamid völdum og sendu hann í útlegð til Aghmat í Marokkó. Þar dó hann í fangelsi árið 1095. Við útlegð þessa ljóðelska höfðingja tók blómaskeiði arabískrar menningar á Spáni að hnigna. Þótt Almoravidarnir gerðust ærið spænskir á svo löngum tíma, urðu þeir nú samt aldrei vel mæltir á arabíska tungu og kunnu því lítt að meta rætur menningarinnar sem þeir þó reyndu að tileinka sér upp að ákveðnu marki. - Þeir þekktu í raun aldrei nógu vel til klassískrar menningar araba. Hirðlíf þeirra einkenndist til að mynda ekki af þeim anda gestrisni og virðingar fyrir ljóðagerð sem Al-Mu'tamid hafði svo ríkulega til að bera. (Sjá Andalúsíuljóð bls.99)

Cádiz og Costa de la luz

Séð út á Atlanshafið á strönd Cádiz

Cádiz er sú borg sem talin er til elstu byggðra borga í Evrópu. Hún er hafnarborg á Suð-Vestur Spáni og höfuðborg samnefnds héraðs. Ströndin er nefnd Strönd ljóssins Costa de la luz, enda er birtan þar óvenjuleg. En eins er mun vindasamara á þessu svæði heldur en á Costa del sol sem skýrir hvers vegna ferðamannaiðnaðurinn hefur ekki vaxið þar eins hratt upp. Tarifa er þó viss undantekning seinni árin því bylgja ferðamanna streymir þangað hvaðanæva að til að stunda seglbrettaíþróttir.

Cádiz hefur jafnframt verið heimahöfn spænska sjóhersins frá nítjándu öld og í Cádiz-borg er háskóli héraðsins. Staðsetning borgarinnar er mjög sérstök. Cádiz er í raun byggð á eyju og hefur lega borgarinnar vissulega haft áhrif á sögu hennar gegnum tíðina, bæði í viðskipta- og menningarlegu samhengi. En séð frá hafi, að baki sínum fornu borgarmúrum er Cádiz í senn dulúðug og mikilfengleg og til gamans má geta þess að gælunefni borgarinnar er Tacita de plata (litli silfurbikarinn).

Þrátt fyrir einstaka legu sína er Cádiz einkar dæmigerð andalúsísk borg með vel varðveittar sögulegar minjar og metnað í matargerðarlist. Gamli hluti borgarinnar er nefndur Casco Antiguo - þar sem eru þröngar og hlykkjóttar götur taka á móti ferðalöngum. Í fyrstu kannski dálítið líkt og hvert annað völundarhús - en síðan tengjast þessar fornu götur í Cádiz með stórum, tignarlegum torgum. Í borginni er mikið af görðum og framandi plöntum og risavöxnum trjám sem eru heillandi í blómskrúði sínu á vorin.

Margt kanna að heilla ferðamenn er þeir koma til Cádiz, meðal annars:

  • Dómkirkjan í Cádiz
  • Gran Teatro Falla (Leikhús nefnt eftir skáldinu Falla)
  • Tavira turninn
  • Gömlu borgarmúrarnir
  • Rómverska leikhúsið - (rústir frá því fyrir krist!)
  • Minnismerkið um stjórnarskrá frá árinu 1812
  • Hús aðmírálsins
  • Strendurnar
  • Hið fræga Cádiz Karnival
  • Matargerðarlistin

Hér er unnt að finna allar helstu upplýsingar á spænsku um Cádiz Website: http://www.cadiz.es/

Tarifa og Alkemistinn

Tengingin milli Alkemistans og Tarifa - syðsta odda Evrópu

Paulo höfundur Alkemistans í bókabúð

Margir kannast við skáldsöguna Alkemistann (O Alquimista) eftir brasilíska höfundinn Paulo Coelho sem kom fyrst út árið 1988 og hefur síðan verið þýdd á fjölmörg tungumál. En það var rithöfundurinn Thor Vilhjálmsson sem þýddi söguna úr portúgölsku.Í bókinni segir frá piltinum Santíago sem hefur hætt í prestaskóla og gerst hjarðsveinn af því hann langar til svo mikið að ferðast. Skemmst er frá því að segja að hann dreymir sama drauminn aftur og aftur um að hans bíði fjársjóður. Seinna verður á vegi hans maður sem þekkir ævi hans liðna og ókomna og segir honum að hver maður eigi sinn: Örlagakost (Sjá: Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins).

Strákurinn afræður að selja hjörð sína og fylgja draumi sínum á leiðarenda - allt til pýramíða Egyptalands. Hann hittir snemma í sögunni fyrir konung í Tarífa og það er reglulega gaman að koma til Tarifa og sjá kastalann þar sem Santíago hitti konunginn. Tarifa er um þessar mundir vinsæll ferðamannastaður, sér í lagi meðal ungs fólsk sem hefur áhuga á vatnaíþróttum vegna þess að í Tarifa er mjög vindasamt - og þar mætast líka Atlantshaf og Miðjarðarhaf. Einnig eru hjólreiðar vinsælar í Tarifa. Við sjáum einkar vel yfir til Afríku þaðan, því það eru aðeins um 14 kílómetrar yfir sundið til Afríku!

Hér á eftir fer stutt brot úr Alkemistanum:

„ÉG ER konungurinn í Salem, hafði sá gamli sagt. - Hvernig stendur á því að konungur gefur sig á tal við fjárhirði? spurði ungi maðurinn skömmustulegur en jafnframt fullur aðdáunar. - Til þess liggja ýmsar ástæður. En segja má að sú sé ríkust að þú hefur reynzt fær um að sækja eftir þínum rétta Örlagakosti. Ungi maðurinn vissi ekki hvað Örlagakostur var. - Það er það sem þú þráir alltaf að gera. Allir menn vita í frumbernsku hver er þeirra ævikostur. Á því skeiði ævinnar er allt hægt og enginn ótti fælir frá því að láta sig dreyma og þrá allt sem mann langar að gera um ævi sína. En svo þegar tíma vindur fram þá koma til skjalanna dularöfl og fara að reyna að sýna fram á að það sé ekki vegur að heimta þennan Örlagakost og láta hann rætast. Það sem gamli maðurinn var að segja var harðla óljóst fyrir unga manninum. En hann langaði að vita hvað væru dularöfl; kaupmannsdóttirin ætti eftir að hlusta opinmynnt þegar það bæri á góma. - Það eru öfl sem virðast illskeytt, en í rauninni eru þau að kenna þér hvernig þú átt að fara að því að heimta þinn Örlagakost. Þau eru að þroska anda þinn og magna þrá þína af því það ríkir einn djúprættur sannleikur á þessari plánetu: Hver sem þú ert og hvað sem þú gerir, þegar þú þráir eitthvað af alefli þá á sú ósk upptök sín í Alheimssálinni. Það er hlutverk þitt á jörðinni. - Jafnvel þótt það sé bara að ferðast? Eða giftast dóttur vefnaðarvörukaupmanns? - Eða leita að fjársjóði. Alheimssálin nærist á hamingju mannanna. Eða óhamingju, öfund, afbrýði. Að eignast sinn Örlagakost og láta hann rætast er eins skylda mannanna. Allt er af einu runnið. Og þegar þú þráir einhvern hlut þá stuðlar allur Alheimurinn að því að þú getir látið þrá þína rætast.„ (Alkemistinn. Mál og menning, Rvk., 2002: s. 32-33)

Þorpið Vejer de la frontera

Mynd:Myndirdista 06 205.jpg
Mynd sem ég tók þegar ég bjó í hinu dásamlega fjallaþorpi Vejer de la Frontera (Greinarhöf.)

Vejer de la Frontera er gífurlega fallegt fjallaþorp í Cádiz héraði. Nánar tiltekið í Suðvesturhluta héraðsins á svæði við Atlantshafið sem kallast La Janda og teygir sig í átt að Conil, Chiclana, Medina Sidonia, Tarifa og Barbate. Þar sem þorpið Vejer er byggt uppi á fjalli er útsýnið víðast hvar stórbrotið.

Fornar kirkjur og byggingarlist vitna um Máraskeið þorpsins sem stóð frá árinu 711 allt þar St. Ferdinand af Kastilíu vann það aftur árið 1248. Landbúnaður og ávaxtarækt eru meginiðnaðurinn, en einnig eru hér ræktuð naut til að nota í nautaat.Vejer rís 190 m yfir sjávarmáli en í þorpinu eru ummerki um byggð afar langt aftur í tímann. Innan hinna fornu borgarmúra Vejer hafa fundist fornleifar frá bronsöld og járnöld. Nýlegar fornleifarannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á tilvist lítils þorps frá sjöundu öld f.Kr. og á sama stað hafa einnig fundist leifar af rómverskum leirkerum. Vejer de la Frontera er lítið fallegt og vel varðveitt sögulegt þorp - umkringt íðilfagurri sveit. Þorpið hefur hlotið viðurkenningu sem: Alþjóðlegt sögulegt menningarsvæði. Einnig hefur það unnið til þess heiðurs að vera eitt sinn valið fallegasta þorp á Spáni. Þorpinu gleymir að minnsta kosti enginn Spánarunnandi sem sækir það heim. Krókóttar og bogadregnar götur. Hvítkölkuð hús. Blómum skrýddar svalir og anddyri. Pelargóníu-, burkna- og rósaport! En þorpið býr þó líka yfir ýmsum nútímaþægindum einsog netkaffihúsum. Ströndin El Palmar er í fimmtán mínútna aksturs fjarlægð og er hún líkt og þorpið, laus við þrúgandi ferðamannaiðnað. Heimamenn eru að öllu jöfnu gestrisnir og ákaflega stoltir af Vejer, Cádiz svæðinu og La janda, já, gjörvöllu Costa de la luz héraðinu.

Ítarefni

Heimildir

  1. Wikipedia, myndir og fróðleikur um Spán, m.a. Madrid og Cádiz, þ.e.á ensku Wikipediu.
  2. Dagur Gunnarsson. Bókin um Andalúsíu.(Um mat og drykk bls. 210) Mál og menning 2002.
  3. Örnólfur Árnason. Mbl.is (21.des´97 úr Sunnudagsblaði Mbl.).
  4. Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins.(Þ.e.kaflinn um Alkemistann).
  5. Andalúsíuljóð. Daníel Á. Daníelsson þýddi. Mál og menning. Rvk. 1994.
  6. Tataraþulur. Federico García Lorca. Þýðing Þorgeir Þorgeirsson. Leshús 1990.
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: