Íslenskar þjóðsögur

Úr Wikibókunum
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Ásdís Haraldsdóttir

Norsk tröll

Hvað er þjóðsaga?

Þjóðsaga er frásögn sem hefur gengið sem munnmælasaga meðal alþýðu oft á tíðum lengi, jafnvel öldum saman. Stundum er að finna sannleikskorn í sögunum en oft eru þær hreinn uppspunni. Í þjóðsögum eru gjarnan frásagnir af ýmiss konar yfirnáttúrulegum atburðum og verum. Flestar ef ekki allar þjóðir eiga sínar þjóðsögur. Hluti þeirra byggir á sama kjarnanum, sérstaklega ævintýrin, sem hefur verið aðlagaður aðstæðum hverrar þjóðar. Þjóðsögur eða ævintýri eru því oft tilbrigði við svipaðar sögur í öðrum löndum. Þó í flestum tilfellum sé um að ræða munnmælasögur sem síðan eru ritaðar er einnig dæmi um þjóðsögur sem upphaflega voru ritaðar, geymdust svo í munnmælum og voru síðan aftur varðveittar í rituðu máli. Venjulega taka þjóðsögur miklum breytingum á meðan þær ganga sem munnmælasögur manna í millum. Bókleg áhrif þykja meiri í íslenskum þjóðsögum en hjá flestum öðrum þjóðum.


Einkenni

Sagan um gullgæsina

Frásögn þjóðsögu einkennist af því að atburðarrásin er í réttri tímaröð. Talan þrír er mjög sterkt einkenni sagnanna því bæði eru atburðir oft þríteknir, eitthvað gerist þrisvar sinnum, og einnig er oft fjallað um þrjár aðalpersónur. Í íslenskum þjóðsögum þekkist þetta vel. Dæmi úr sögunni um Gilitrutt þegar hún kemur þrisvar sinnum til húsfreyju og allt veltur á hvað gerist í þriðja sinnið. Þá koma persónurnar Ása, Signý og Helga fyrir í nokkrum sögum og Bakkabræðurnir Gísli, Eiríkur og Helgi. Annað einkenni þjóðsagna er að þær fjalla sjaldan um margar persónur og er þeim lýst í fáum orðum.

Um hvað fjalla þjóðsögur?

Í þjóðsögum birtast oft ýmsar gamlar trúarhugmyndir og alþýðutrú, hjátrú og hindurvitni. Oft eru persónurnar að takast á við ýmis náttúrufyrirbæri, óútskýrð fyrirbæri og reynt er að skýra mannlega hegðun. Í þeim er líka fjallað um vanmátt mannsins gagnvart náttúrunni og umhverfinu, drauga og forynjur, álfa, huldufólk og galdramenn og -konur. Í þjóðsögum má finna ágæta lýsingu á mannlífinu og lifnaðarháttum á ákveðnum tímum og hugsunarhætti. Þjóðsögur fjalla líka um skrýtnar persónur og uppátæki þeirra, svo sem Leirulækjar-Fúsa og fleiri.

Söfnun

Jón Árnason

Munnmælasögur voru ekki í hávegum hafðar hjá málvísindamönnum fyrr en rómantíska stefnan fór að hafa áhrif. Í upphafi 19. aldar hófst söfnun, skráning og útgáfa þjóðsagna í Þýskalandi með safni þeirra Jakobs og Wilhelms Grimm. Hafði safn þeirra áhrif víða í Evrópu, en það hafði að geyma sögurnar um Rauðhettu, Þyrnirósu, Mjallhvíti og dverganna sjö og Hans og Grétu. Þessar sögur komu fyrst út á Íslandi í þýðingu Theodórs Árnasonar á árunum 1922 til 1937. Á sama tíma er mikil gróska í íslenskum fræðum hér á landi og áhugi á að skrá þjóðsögur og ævintýri vaknaði. Skipulögð söfnun þjóðsagna hófst árið 1848 af þeim Jóni Árnasyni (1819-1888) og Magnúsi Grímssyni (1825-1860) og kom fyrsta safn þjóðsagna hér á landi, Íslensk ævintýri, út á þeirra vegum árið 1852.

Nokkrum árum síðar ferðaðist þýskur maður, Konrad Maurer, um Ísland og skráði munnmælasögur. Þær komu út í Leipzig árið 1860 og nefndust Isländische Volkssagen der Gegenwart. Konrad Maurer, ásamt Guðbrandi Vigfússyni og fleirum, aðstoðuðu Jón Árnason við útgáfu á þjóðsagnasafni eftir að Magnús Grímsson veiktist og féll síðan frá árið 1860. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I-II komu út í Leipzig á árunum 1862 til 1864. Jón Árnason hélt áfram að safna þjóðsögum eftir þetta og kom heildarsafn hans í sex bindum ekki út fyrr en á árunum 1954-1961 og höfðu Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson umsjón með útgáfunni. Margir hafa safnað þjóðsögum eftir daga Jóns og til dagsins í dag. Einna afkastamestur þeirra var Sigfús Sigfússon (1855-1935). Eiríkur Magnússon (1833-1913), prófessor í Cambridge, og fleiri, þýddu Þjóðsögur Jóns Árnasonar á enska tungu.

Tenglar

Krossapróf

1 Hverjir hófu fyrst markvissa söfnun íslenskra þjóðsagna?

Jón Sigurðsson og Guðbrandur Vigfússon
Jón Árnason og Magnús Grímsson
Jónas Árnason og Jón Múli Árnason
Jón Gíslason og Eggert Ólafsson

2 Hvenær kom fyrsta íslenska þjóðsagnasafnið út?

1845
1852
1900
1952

3 Hvaða eftirnafn báru þýsku bræðurnir sem hófu söfnun munnmælasagna?

Grimm
Green
Gross
Grüber



Hvað veist þú um þjóðsögur? http://elgg.khi.is/asdharal/files/1885/4752/Thjodsogur.htm

Heimildir

  • Hannes Pétursson, Bókmenntir. (1973) Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Reykjavík.
  • Stefán Einarsson, Íslensk Bókmenntasaga 874-1960. (1961) Snæbjörn Jónsson & Co. hf. The English Bookshop. Reykjavík.

Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: